Gunnar Nelson sigraði Brandon Thatch í gær á UFC 189. Gunnar kýldi Thatch niður og hengdi hann svo í gólfinu en hvaða þýðingu hefur þessi sigur fyrir Gunnar?
Þetta var stærsti sigur hans á ferlinum. Svo einfalt er það. UFC 189 var stærsta bardagakvöld í sögu UFC og milljónir manna sáu Gunnar sigra Thatch með miklum yfirburðum. Hann var lítilmagni hjá veðbönkunum og margir sérfræðingar töldu að Thatch myndi sigra.
Það að Gunnar skyldi hafa kýlt Thatch niður, sem er með stórhættulegt sparkbox, hefur opnað augu margra um höggþyngd hans. Kannski verður sigurinn enn stærri síðar meir ef Thatch klífur upp stigann í UFC eins og búist er við.
Gunnar er sem stendur í 15. sæta á styrkleikalista UFC í veltivigtinni og mun væntanlega hækka um 1-3 sæti. Thatch er ekki á listanum (aðeins meistaranum og 15 næstu raðað) og það kemur í veg fyrir að hann hækki meira að þessu sinni. Listinn er uppfærður u.þ.b. 36 klukkustundum eftir hvern viðburð.
Þar sem Gunnar sigraði á svo stóru bardagakvöldi mun hann án efa verða þekktari og þá sérstaklega í Bandaríkjunum. Hann hafði aldrei áður barist í Bandaríkjunum og er óhætt að segja að fyrstu kynni Bandaríkjamanna af Gunnari hafi verið góð. Það gæti opnað einhverjar dyr fyrir hann tekjulega séð. Hver veit, kannski verður Gunnar eitt af andlitum Reebok eins og Conor McGregor, Ronda Rousey, Paige van Zant, Joanna Jedrzejczyk og fleiri?
Það er því ljóst að Gunnar og Mjölnir geta vel við unað eftir UFC 189. Besta frammistaða hans á ferlinum á stærsta bardagakvöldi í sögu UFC og að auki sigraði liðsfélagi Gunnars, Conor McGregor, titil. Gerist ekki mikið betra en það á einu kvöldi.
Síðar í vikunni munum við fara yfir mögulega næstu andstæðinga Gunnars.
Ég er ekki að skilja hvers vegna hann fékk ekki performance of the night. Hann var underdog sem kláraði stórhættulegan andstæðing strax án þess að fá á sig skrámu. Það sigraði enginn með eins miklum yfirburðum þetta kvöld.