0

Hver er þessi Alex Oliveira?

Gunnar Nelson mætir Alex Oliveira á UFC 231 í Kanada í byrjun desember. En hver er þessi Alex Oliveira og hvernig mann hefur hann að geyma?

Alex Oliveira er 30 ára Brasilíumaður, fæddur og uppalinn í Tres Rios, smábæ fyrir utan Rio de Janeiro í Brasilíu. Oliveira hefur starfað við húsbyggingar og stundaði meðal annars að stija snarvitlaus naut eins og kúreki frá Texas. Þessi sveitabragur hefur fests við hann og er hluti af hans einkenni en hann gengur oftast inn í hringinn með kúrekahatt og ber viðurnefnið Cowboy. Þó Donald Cerrone sé frægari kúrekinn þá á nafnið bara nokkuð vel við hann.

Oliveira var ekki mikill námsmaður á sínum yngri árum og dreymdi um að vera nautaknapi. 16 ára gamall byrjaði hann að vekja athygli í þeim bransa en mömmu hans leyst ansi illa á starfsvettvang sonarins. Sá draumur gekk ekki upp og fór Oliveira ungur í eiturlyfin. Oliveira byrjaði að reykja gras 13 ára gamall og fór síðar í kókaínið. 19 ára gamall barnaði hann fjórar stelpur á einu ári og var mikið í slagsmálum á götunni. Lítið framundan hjá honum en hann var staðráðinn í að snúa blaðinu við.

Eftir enn ein götuslagsmálin var honum boðið að koma á MMA æfingu af gömlum vin sem var vitni að slagsmálunum. Gamli vinurinn sá Oliveira í átökum á kjötkveðjuhátíðinni og fannst mikið til hans koma. Á þeim tíma vissi Oliveira ekki hvað MMA eða Muay Thai var en ákvað að gefa þessu séns. Þremur mánuðum seinna tók hann sinn fyrsta Muay Thai bardaga og hefur ekki stoppað síðan. Mömmunni leyst miklu betur á að Oliveira væri að kljást við menn í stað nauta.

Oliveira var með slæmt orðspor á sér í Tres Rios bænum og voru meðlimir í bardagaklúbbnum ósáttir með að Oliveira fengi að æfa þarna. Hann hætti hins vegar alfarið að slást á götunni eftir að hann byrjaði að æfa bardagaíþróttir og hefur verið á beinu brautinni síðan þá.

Í desember 2011 tók hann sinn fyrsta MMA bardaga en í mars 2015 fékk hann símtalið frá UFC. Oliveira kom inn með skömmum fyrirvara gegn Gilbert Burns en mátti sætta sig við tap í 3. lotu gegn margföldum heimsmeistara í brasilísku jiu-jitsu. Það var hans stærsti útborgunardagur í lífinu en það fyrsta sem hann gerði var að kaupa nýjar tennur handa mömmu sinni.

Oliveira hefur verið mjög virkur bardagamaður á tíma sínum í UFC en á þessum rúmum þremur árum hefur hann barist 13 sinnum sem er ótrúleg tölfræði. Af þeim bardögum hefur Oliveira unnið níu og það á allavega hátt en 12 bardaga á ferlinum hefur hann klárað í 1. lotu. Oliveira getur virkað frekar villtur bardagamaður, hann er árásagjarn og hefur litlar áhyggjur af því sem kemur á móti. Hann er ekki glímumaður en er með fjólublátt belti í brasilísku jiu-jitsu og hefur klárað þrjá af andstæðingum sínum í UFC með uppgjafartaki. Oliveira leiðist ekki að standa og kýla en hann er lúmst höggþungur og nákvæmur með höggin sín.

Oliveira tekur sér ekki langar pásur eftir bardaga sína og er yfirleitt kominn aftur á æfingu nokkrum dögum eftir bardaga. Honum leiðist að hanga heima og hefur nokkrum sinnum tekið bardaga með skömmum fyrirvara. Þannig komst hann inn í UFC upphaflega en þá stökk hann inn gegn Gilbert Burns og sýndi fína takta þrátt fyrir tap.

Alex Oliveira gegn Yancy Medeiros

Oliveira hefur flakkað á milli léttvigtar og veltivigtar í UFC en verður þrátt fyrir það sennilega stærri maðurinn í búrinu. Oliveira segist yfirleitt vera í kringum 86 kg þegar hann berst hvort sem hann berst í 77 kg veltivigt eða 70 kg léttvigt.

Stærstu sigrar Oliveira eru gegn Will Brooks og Carlos Condit en báðir voru titilhafar á sínum tíma – Brooks í Bellator og Condit bráðabirgðarmeistari í UFC. Töpin hafa verið gegn mjög góðum andstæðingum og nú síðast gegn Yancy Medeiros fyrir ári síðan en þá var Oliveira rotaður í þriðju lotu í einum besta bardaga síðasta árs. Þar áður var það Donald Cerrone sem náði Oliveira í „triangle choke“ í fyrstu lotu. Fyrsti bardagi Oliveira var líka tap en þá var það Gilbert Burns sem náð honum í „armbar“ í þriðju lotu.

Oliveira er því hættulegur andstæðingur sem getur klárað bardaga sína á öllum vístöðum. Hann er hins vegar líka opinn bardagamaður sem gefur færi á sér sem getur reynst mjög hagstætt fyrir úthugsaðan bardagakappa eins og Gunnar Nelson. Oliveira mun eflaust gefa Gunnari erfiðan bardaga en við höfum fulla trú á okkar manni.

Bardaginn fer fram á UFC 231 þann 8. desember í Kanada.

Heimildir:

UFC.com
MMA Fighting

Óskar Örn Árnason

- Blátt belti í jiu-jitsu
- Hlaupari
- Þriggja barna faðir
Óskar Örn Árnason

Comments

comments

Óskar Örn Árnason

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.