Friday, April 19, 2024
HomeForsíðaHver er þessi Patrick Cummins?

Hver er þessi Patrick Cummins?

pat-highcrotchfinish
Cummins að klára fellu.

Eins og við greindum frá í gærkvöldi hefur UFC samið við Patrick Cummins og mun hann koma í stað Rashad Evans og berjast gegn Daniel Cormier. Bardaginn fer fram á UFC 170 þann 22. febrúar og verður næst síðasti bardagi kvöldsins. En hver er þessi Pat Cummins?

Cummins er 32 ára fyrrum glímumaður úr Penn State háskólanum. Hann var afar farsæll í bandarísku háskólaglímunni og hlaut “All-American” nafnbótina tvisvar á sínum ferli. Fyrir nokkrum árum bað Bellator bardagamaðurinn King Mo hann um að hjálpa sér í undirbúningi sínum fyrir bardaga þar sem Cummins er svo sterkur glímumaður. Einn af þjálfurunum, Ryan Parsons, var hrifinn af því sem hann sá af Cummins og sannfærði hann um að prófa MMA. Cummins hefur gengið vel síðan þá og klárað alla fjóra bardaga sína.

Það hefur reynst gríðarlega erfitt fyrir Cummins að finna andstæðinga og heldur hann því fram að yfir 40 andstæðingar hafi bakkað úr bardaga gegn honum. Hann hefur æft með mönnum eins og Jason “Mayhem” Miller, Chael Sonnen og æfði einnig með Jose Aldo og félögum í Nova Uniao í Brasilíu. Sagan segir að honum hafi gengið gríðarlega vel á æfingum gegn þessum mönnum og því hafa menn verið hræddir við að taka bardaga við hann eftir að hafa heyrt slíkar sögur.

Árið 2010, eftir fyrsta bardaga sinn í Strikeforce, þurfti hann að fara í fangelsi vegna þjófnaðs sem hann framdi á sínum yngri árum. Það tafði hann vissulega en gerði hann á sama tíma mun einbeittari í að ná langt í íþróttinni.

UFC hefur lengi vitað af honum en vildu fá að sjá hann berjast oftar áður en þeir myndu semja við hann. Þegar Rashad Evans meiddist þurftu þeir nauðsynlega að fá andstæðing fyrir Cormier en enginn topp léttþungavigtarmaður var laus í tæka tíð. Cummins var ekki lengi að segja já þegar Dana White hringdi og bauð honum þennan bardaga. Reyndar missti Cummins vinnu sína á kaffihúsi á sama tíma fyrir að vera í símanum við Dana White en honum er líklegast sama um það núna.

Dana White sagði að Cummins og Cormier hefðu æft saman áður þar sem Cummins á víst að hafa gjörsigrað Cormier og látið hann fara að grenja. Hvort það sé einhver sannleikur í því eða bara auglýsingaskrum verður að koma í ljós laugardaginn 22. febrúar.

Fáir búast við nokkru af Cummins í þessum bardaga og er Cormier líklegast of stór biti fyrir hann. Cummins gæti þó hæglega komist á topp 15 í UFC og átt ágætis feril í UFC í framtíðinni en það er hæpið að þessi 32 ára glímumaður verði meistari einn daginn.

Pétur Marinó Jónsson
Pétur Marinó Jónssonhttps://www.mmafrettir.is
Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Viaplay
RELATED ARTICLES
- Advertisment -

Most Popular