Íslandsmeistaramótið í brasilísku jiu-jitsu fer fram á morgun, laugardaginn 13. október. Mótið fer fram í Laugardalshöllinni en þetta er í fyrsta sinn sem mótið er haldið þar.
98 keppendur eru skráðir til leiks á mótið í ár en skráningarfrestur rennur út kl. 20 í kvöld (föstudag). Þetta verður þar með næststærsta Íslandsmeistaramót í íþróttinni en það stærsta var haldið árið 2014 þar sem 112 keppendur voru skráðir til leiks.
Í ár verður mótinu skipt upp í þrjú getustig; hvít belti, blá belti og loks fjólublá belti og upp (fjólublá, brún og svört saman). Í fyrra var sú nýbreytni tekin upp að getuskipta Íslandsmeistaramótinu en þá var hvítbeltingaflokkur og svo blá belti og upp. Auk þess verða opnir flokkar karla og kvenna en þeir verða ekki getuskiptir.
Eins og áður segir fer mótið fram í Laugardalshöllinni en mótið sjálft hefst kl. 10. Ekkert kostar inn fyrir áhorfendur og eru áhorfendur beðnir um að fara inn um inngang C í höllinni. Þá er athygli vakin á því að Landbúnaðarsýningin er á sama tíma í höllinni og gæti því verið skortur á bílastæðum.