Jeremy Aclipen berst sinn fyrsta MMA bardaga nú á laugardaginn. Bardaginn kemur með skömmum fyrirvara enda kom símtalið bara á mánudaginn.
Jeremy Aclipen mætir Callum Haughian (1-1) á FightStar kvöldinu á laugardaginn. Jeremy er einn af fimm Íslendingum sem keppir á kvöldinu en Jeremy keppir fyrir hönd Mjölnis.
Það var á mánudagsmorgni sem Jeremy fékk boð um að berjast á laugardaginn. „Halli [Nelson] hringdi í gærmorgun og spurði hvort ég væri til í bardaga. Það var strákur sem missti andstæðing og það vantaði einhvern inn og ég var til,“ segir Jeremy um tildrög bardagans.
Jeremy ætlaði upphaflega að fara út sem áhorfandi til að styðja æfingafélaga sína. Ferðalagið verður því aðeins öðruvísi núna en upphaflega var planað. Bardaginn fer fram í 68 kg hentivigt þar sem bardaginn kemur upp með svo skömmum fyrirvara en Jeremy þarf að skera um það bil tvö kíló fyrir vigtun á föstudaginn.
Jeremy hefur æft í Mjölni um nokkurt skeið. Fyrst var hann bara í Víkingaþrekinu en fyrir tveimur árum síðan byrjaði hann að æfa brasilískt jiu-jitsu. Nokkrum mánuðum síðar var hann kominn inn í Keppnislið Mjölnis og hefur hann verið þar í um 18 mánuði.
Helsti stuðningsmaður Jeremy er sonur hans, Mikael Leó Aclipen. Mikael er sjálfur að æfa bardagaíþróttir og setur stefnuna á MMA um leið og hann fær aldur til. „Hann hélt bara kúlinu þegar ég sagði honum frá bardaganum. Hann vildi örugglega ekki stressa mig upp. Þetta er það sem við viljum gera, bara hafa gaman. Ég hélt hann yrði stressaður en hann var kannski að fela það bara.“
Hinn 32 ára Jeremy hefur ekki mikla keppnisreynslu í bardagaíþróttum og viðurkennir að stressið verði til staðar þegar á hólminn er komið. „Ég er ekki búinn að hugsa mikið um þetta, verð mjög stressaður og allt það en er samt mjög spenntur að vera með strákunum og prófa þetta. Fara yfir þessa línu að stíga í búrið og berjast. Framhaldið verður svo bara að koma í ljós.“
Jeremy mætir ungum Breta og er Jeremy með ákveðna leikáætlun í huga. „Planið er bara að bíða og leita eftir 1-2 höggum og svo keyra hann í jörðina. Grinda hann bara,“ segir Jeremy að lokum.
FightStar 13 fer fram á laugardaginn í London. Bardagarnir verða sýndir beint á MMA TV og kostar streymið 7 pund. Þá verður einnig hægt að horfa á bardagana á Drukkstofu Mjölnis og Gullöldinni.