Eins og við greindum frá í morgun mun Gunnar Nelson mæta Albert Tumenov á bardagakvöldi í Rotterdam í maí. Tumenov er afar hættulegur standandi en Jón Viðar telur sigurlíkur Gunnars miklar.
Jón Viðar Arnþórsson er forseti Mjölnis og einn af þjálfurum Keppnisliðs Mjölnis. Jón Viðar hefur fylgt Gunnari allan hans feril og þekkir hann betur en flestir. En hvernig lýst honum á Albert Tumenov?
„Mjög vel. Þetta er mjög spennandi bardagi enda er hann skuggalegur striker. Við skoðuðum hann aðeins á sunnudaginn, ég hafði séð hann áður en ekkert spáð í honum. Gunni vissi hver hann var. Hann er mjög hættulegur bardagamaður,“ segir Jón Viðar.
Sjá einnig: Hver er þessi Albert Tumenov
Gunnar tapaði fyrir Demian Maia í desember og er hungraður í sigur. Jón Viðar telur sigurlíkur Gunnars vera miklar. „Ég met líkur Gunnars á sigri mjög góðar. Hann lítur mjög vel út núna og er búinn að laga þá hluti sem klikkuðu síðast. Gunni er líka með betri fótavinnu en Tumenov þó Tumenov sé mjög góður boxari. Gunni er með svona inn og út stíl sem Tumenov á örugglega eftir að eiga erfitt með. Gunni má bara ekki láta hann króa sig af upp við búrið.“
„Tumenov er eins og ég segi mjög góður boxari en er frekar flatfóta, teygir sig langt og overextendar höggin sín. Gunni er snöggur inn og getur skotið inn þegar Tumenov er að teygja sig langt og counterað.“
Gunnar mun byrja undirbúninginn sinn hér á landi en halda til Dublin í lok æfingabúðanna. „Gunnar mun byrja campið hér og munum við fá Karl [Transwell, þjálfari] og John [Kavanagh, yfirþjálfari Gunnars] og einhverja gæja með þeim hingað heim. Gunnar tekur þennan bardaga mjög alvarlega enda ekki auðveldur andstæðingur,“ segir Jón Viðar að lokum.