Líkurnar á því að Gunnar Nelson berjist í Dublin í október fara hverfandi með hverjum deginum. Gunnar hefur lýst yfir áhuga á að vera á bardagakvöldinu en enginn bardagi hefur enn verið staðfestur.
Eftir sigur Stephen Thompson á TUF Finale í júlí lýsti John Kavanagh, þjálfari Gunnars, því yfir á Twitter að viðureign Thompson og Gunnars yrði glæsilegur aðalbardaga á bardagakvöldinu í Dublin þann 24. október. Á blaðamannafundinum eftir bardagann sagðist Thompson vera tilbúinn að mæta Gunnari í Dublin. Allt virtist því benda til að þeir myndu mætast.
Nú er rúmur mánuður síðan báðir börðust síðast og enn hefur ekkert heyrst varðandi næsta bardaga Gunnars. Demian Maia er annar andstæðingur sem John Kavanagh talaði um á Twitter en eftir hans síðasta sigur óskaði hann eftir andstæðingi sem er hærra en hann á styrkleikalista UFC.
Jón Viðar Arnþórsson, forseti Mjölnis, segir að erfitt hafi reynst að finna andstæðing fyrir Gunnar í Dublin. „Það vill enginn berjast við Gunna í Dublin. Gunnar og umboðsmenn hans hafa óskað eftir nokkrum andstæðingum sem hafa allir sagt nei. Þeir hafa komið með ýmsar afsakanir.“
Í gærkvöldi var það staðfest að Conor McGregor og Jose Aldo munu loksins mætast á UFC 194 í desember í Las Vegas. Það gæti því farið svo að Gunnar verði á bardagakvöldinu í Las Vegas ef hann verður ekki í Dublin en ekkert hefur verið staðfest í þeim efnum.