Wednesday, April 24, 2024
HomeForsíðaKarlotta Brynja: Ætlaði sko aldrei að keppa í þessari íþrótt

Karlotta Brynja: Ætlaði sko aldrei að keppa í þessari íþrótt

Karlottta Brynja BaldvinsdóttirKarlotta Brynja Baldvinsdóttir vann sinn flokk og hafnaði í 2. sæti í opnum flokki kvenna á Mjölnir Open 12 sem fram fór á dögunum. Karlotta ætlaði aldrei að keppa í glímunni en hefur nú keppt þó nokkrum sinnum með góðum árangri.

Karlotta er 18 ára gömul og æfir brasilískt jiu-jitsu hjá VBC í Kópavogi. Það þurfti ekki mikið til að kveikja áhugann hjá henni á glímunni.

„Ég fór á landsmót skáta sumarið 2014 og þar var boðið upp á lítið workshop í Fenri þar sem tvö blá belti voru að kenna. Ég og vinkona mín urðum strax ástfangnar af þessari íþrótt og það fyrsta sem við gerðum þegar við komum heim var að skoða þessa íþrótt og mögulega staði til að æfa hana. Ég held ég hafi síðan byrjað að mæta eitthvað af viti í október sama ár,“ segir Karlotta.

Karlotta reynir að æfa fimm til sex daga vikunnar en það flæði á það til að breytast þar sem Karlotta er afar meiðslagjörn að eigin sögn.

Mjölnir Open er stærsta mót landsins í uppgjafarglímu án galla (nogi) en þar bar Karlotta sigur úr býtum í +70 kg flokki kvenna á mótinu. Í úrslitum opna flokksins þurfti hún að sætta sig við tap fyrir liðsfélaga sínum, Ólöfu Emblu. Þetta var í fyrsta sinn sem Karlotta keppir á Mjölnir Open fullorðinna og finnur hún alltaf vel fyrir stressi áður en hún keppir.

„Þegar ég byrjaði í BJJ þá tók ég það sérstaklega fram við Daða, þjálfarann minn, að ég myndi sko aldrei nokkurn tímann keppa í þessari íþrótt. Ári síðar var ég búin að vinna upp sjálfstraustið til að keppa á mínu fyrsta móti. Þannig að já, ég verð mjög stressuð fyrir mót. Ég er stressuð að eðlisfari svo það að setja sig í hættu á að mistakast fyrir framan svona mikið af fólki er mjög stressandi fyrir mig.“

„Þegar ég geri mig tilbúna fyrir mót reyni ég bara að mæta sem best, æfa gáfulega og reyna að koma í veg fyrir meiðsli og svo gera það sem ég er góð í og myndi mögulega gera í keppnisglímum. Allt gymmið keyrir upp tempóið og æfingar verða meira ákveðnari og keppnismiðaðari svo það hjálpar í raun meira en allt sem ég geri sjálf til að undirbúa mig.“

Árangurinn lét ekki á sér standa og var hún mjög ánægð með niðurstöðuna. „Ég var rosalega stressuð í vikunni sem leið fyrir mótið og náttúrulega á mótsdag en mér tókst að sópa því til hliðar á meðan ég glímdi og einbeita mér að því sem var að gerast í glímunum. Að fara heim með gull úr mínum flokki og silfur úr opna er töluvert betri árangur en ég vonaðist eftir. Þannig að já, ég er rosalega ánægð eftir þetta mót.“

Karlottta Brynja Baldvinsdóttir
Inga Birna, Ólöf Embla og Karlotta með verðlaunin úr opnum flokki kvenna.

Eins og venjan er á þessum mótum átti Karlotta erfiðar glímur en það var þó ein sem stóð upp úr.„Glímulega séð þá var það klárlega glíman á móti Ingu Birnu. Hún er frábær glímukona og ég bjóst alls ekki við að ég myndi ganga út með sigurinn. Svo það var bæði erfiðasta og skemmtilegasta glíman á mótinu að mínu mati.“

„Mér finnst samt fyrsta glíman alltaf erfiðust. Ef ég gæti fengið að taka upphitunarkeppnisglímu þá myndi ég án efa gera það af því að það er svo mikið spennufall þegar maður er búinn að gera þetta einu sinni og þarf ekki að brjóta ísinn aftur heldur bara í raun endurtaka sama ferli.“

Þó fyrsta glíman á hverju móti fyrir sig sé alltaf erfið er fyrsta glíman á fyrsta mótinu ávallt eftirminnileg. „Fyrsta mótið sem ég keppti á var Fenrir Open 2015. Fyrsta glíman mín var við Önnu Soffíu [Víkingsdóttur] sem að sjálfsögðu tók heim gullið eins og hörkutólið sem hún er. Ég man að ég gekk inn á gólfið eins og algjör aumingi, með hendurnar inn í ermunum á gallanum og tilbúin að tapa. Það að keppa hefur kennt mér að þótt maður sé stressaður þá má maður ekki sýna það. Fake it ’till you make it.“

Pétur Marinó Jónsson
Pétur Marinó Jónssonhttps://www.mmafrettir.is
Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Viaplay
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

- Advertisment -

Most Popular