Kenny Florian og Jon Anik ræddu bardaga Gunnars í hlaðvarpi sínu á dögunum. Kenny Florian langar að sjá Gunnar berjast við Stephen ‘Wonderboy’ Thompson.
Gunnar Nelson sigraði Alan Jouban um síðustu helgi í London. Eftir bardagann óskaði John Kavanagh, yfirþjálfari Gunnars, eftir bardaga við Stephen Thompson á Twitter.
Þeir Kenny Florian og Jon Anik, sem eru báðir lýsendur hjá UFC og eru með hlaðvarp, vilja sjá Gunnar gegn topp 10 andstæðingi og telja að hann geti valdið þeim miklum vandræðum. Að þeirra mati lærði hann mikið af Demian Maia tapinu og var augljóst að hann væri með mikið sjálfstraust fyrir bardagann gegn Jouban.
„Höggin hans eru eins og svipuhögg, hann er mjög rólegur og höggin frá honum voru mjög þung. Ef þú skilur hausinn á þér eftir [eins og Jouban gerði] þá mun Gunnar ná þér. Guillotine hengingin hans er goðsagnarkennd, ég hef séð hann með berum augum standa í og vinna suma af bestu bardagamönnum heims á dýnunum. Hann er alltaf að verða betri og betri standandi meðfram getu sinni á gólfinu og hann er einhver sem fólk á að fylgjast með og á skilið að vera í topp 5,“ segir Florian.
Þeir Anik og Florian eru ánægðir með Gunnar enda sker hann lítið niður og lítur ekki út fyrir að nota frammistöðubætandi efni.
Florian lýst vel á bardaga gegn Stephen Thompson og segir það lýsandi fyrir hve mikla trú Gunnar hefur á sér enda ekki margir sem óska eftir bardaga við Thompson. „Ef þú vinnur gæja eins og Wonderboy og gerir það sannfærandi, þá færðu titilbardaga,“ sagði Florian að lokum.
https://www.youtube.com/watch?v=K5CGx5kM1xA