Kristján Helgi Hafliðason vann -90 kg flokkinn á Grettismótinu um síðustu helgi. Við heyrðum í honum á dögunum og spjölluðum við hann um Grettismótið, komandi mót og MMA.
-90 kg flokkurinn var einn sá sterkasti á Grettismótinu. Nokkrir af færustu glímumönnum landsins voru skráðir til leiks og kom Kristján mörgum á óvart og sigraði flokkinn. Kristján var að vonum ánægður með frammistöðu sína eftir mótið
„Þetta var mín besta frammistaða á móti held ég. Þetta var allavegna lang erfiðasti flokkur sem ég hef unnið,“ segir Kristján.
Kristján er 19 ára gamall og hefur æft brasilískt jiu-jitsu í Mjölni frá september 2011. Hann hefur áður unnið þrjá Íslandsmeistaratitla unglinga og einn Íslandsmeistaratitil fullorðinna (2015). Hver var lykillinn að árangrinum um helgina?
„Ég prófaði að hvíla extra mikið vikuna fyrir mótið og var því mjög ferskur og leið mjög vel í líkamanum á mótsdag. Ég held að það hafi spilað mikið inn í. Hugurinn var líka mjög góður þetta mót og ég var mjög öruggur á leiðinni í allar glímurnar og það spilar líka fáránlega mikið inn í.“
Kristján fékk svo sannarlega ekki auðvelda andstæðinga á mótinu. Í 8-manna úrslitum mætti hann júdó-manninum Sveinbirni Iura og kláraði hann með „triangle“ hengingu. Í undanúrslitum lenti hann á móti einum færasta glímumanni landsins, Daða Steini úr VBC, og kláraði hann með „baseball“ hengingu.
Kristján fékk verðlaun fyrir besta uppgjafartak mótsins eftir „baseball“ henginguna. „Ég fann strax hvað þetta var þétt og gaf allt í það. Þegar maður nær þessari hengingu þétt er mjög erfitt að losna úr henni.“
„Ég er lengi búinn að leika mér með þetta choke eftir að Þráinn [Kolbeinsson, þjálfari í Mjölni] svæfði mig einu sinni með því á æfingu. Er ennþá að reyna að hefna mín. Þetta er mjög lúmskt choke og oft heldur andstæðingurinn að hann sé í betri stöðu þangað til hann finnur allt í einu að það er verið að hengja hann,“ segir Kristján um henginguna.
Í úrslitum mætti hann Helga Rafni Guðmundssyni úr Sleipni og segir Kristján að það hafi verið erfiðasta glíman. „Ég var orðinn svakalega þreyttur í úrslitaglímunni, held að hún hafi reynt mest á mig. Ég fann að það var lítil orka eftir þannig ég ákvað bara að taka sem minnst af áhættum í þeirri glímu.“
Kristján er á fjórða ári í Fjölbrautarskólanum við Ármúla og vinnur á Rekjavík Chips. Hann æfir einu sinni til tvisvar á dag og lyftir stundum inn á milli en það fer allt eftir því hvernig honum líður í líkamanum hverju sinni. Sunnudagar eru svo hvíldardagar.
Það verður nóg framundan hjá Kristjáni en hann stefnir á nokkur mót. „Ég keppi auðvitað á Íslandsmeistaramótinu þann 19. nóvember. Svo stefni ég á Evrópumeistaramótið í Portúgal núna í janúar og svo langar mig líka á heimsmeistaramótið í L.A. sem verður haldið í júní held ég.“
Aðspurður hvort hann sé eitthvað að hugsa um að keppa í MMA í framtíðinni segir hann svo vera. „Já ég hef lengi pælt í MMA og það er klárlega eitthvað sem ég vil prófa að keppa í. Fyrst langar mig þó að vinna eitthvað stórt mót í BJJ og fá svarta beltið.“
Við þökkum Kristján kærlega fyrir viðtalið en hér má sjá allar glímurnar hans frá mótinu.