Nú þegar minna en mánuður er í UFC 194 er rétt að skoða aðeins stuðlana fyrir bardagakvöldið stóra. Veðbankarnir telja Maia sigurstranglegri gegn Gunnari Nelson.
Gunnar Nelson mætir Demian Maia á UFC 194 þann 12. desember. Maia er einn besti gólfglímumaður sögunnar og er í 6. sæti styrkleikalista UFC á meðan Gunnar er í því 11. Það ætti því ekki að koma á óvart að Maia sé talinn vera örlítið sigurstranglegri hjá veðbönkum þó þetta sé frekar jafnt. Stuðullinn á sigri Gunnars með uppgjafartaki eða rothöggi er 4.37 á meðan stuðullinn á sigri Maia með uppgjafartaki eða rothöggi er 4.49. Nánar má sjá stuðlana hér að neðan fyrir Maia og Gunnar.
Þegar litið er á bardagakvöldið í heild sinni má sjá að Conor McGregor er sigurstranglegri en Jose Aldo. Það sama var uppi á teningnum fyrir UFC 189 áður en Aldo meiddist. Þegar veðbankarnir opnuðu línurnar fyrir UFC 189 var Aldo sigurstranglegri en það breyttist fljótt þegar fleiri fóru að veðja á McGregor. Það er í raun ótrúlegt að UFC meistari sem hefur ekki tapað í tíu ár sé talinn lítilmagni hjá veðbönkum.
Á síðunni Best Fight Odds má sjá stuðlana hjá hinum ýmsu veðbönkum. Millivigtarmeistarinn Chris Weidman er sigurstranglegri þó stuðlarnir séu jafnir.