Tuesday, July 16, 2024
Minigarðurinnspot_imgspot_imgspot_img
HomeErlentMánudagshugleiðingar eftir UFC 201

Mánudagshugleiðingar eftir UFC 201

tyron woodley meistariUFC 201 fór fram í Atlanta á laugardaginn og fengum við enn einu sinni nýjan meistara. Við höfum helling að tala um eftir helgina eins og vanalega en hér eru Mánudagshugleiðingarnar.

Tyron Woodley varð sjöundi nýji UFC meistarinn á þessu ári. Woodley rotaði Lawler eftir rúmar tvær mínútur í fyrstu lotu um helgina en þetta var aðeins í annað sinn sem Lawler hefur verið rotaður á ferlinum.

Aðeins Robbie Lawler, Joanna Jedrzejczyk, Dominick Cruz og Demetrious Johnson hafa varið beltið sitt á þessu ári. Árið 2016 verður minnst sem ár nýju meistaranna og hve fáum hefur tekist að halda titlum sínum. Það er gaman að velta því fyrir sér hvers vegna við höfum fengið svona marga nýja meistara og er erfitt að benda á eitthvað eitt.

Margir meistarar hafa tapað þrátt fyrir að hafa verið sigurstranglegri fyrirfram eins og Luke Rockhold, Rafael dos Anjos, Miesha Tate og Robbie Lawler. Það hafa því verið mörg óvænt úrslit í þessum titilbardögum. Kannski eru strangari lyfjapróf að hafa einhver áhrif, kannski er þróunin svo mikil á þessum tíma að fáir geta farið taplausir yfir langan tíma og kannski er þetta allt bara tilviljun. Það er þó ljóst að þetta gerir sportið enn skemmtilegra.

Síðustu sigrar Robbie Lawler hafa líka hangið á bláþræði. Til að byrja með var sigurinn á Johny Hendricks þegar hann vann beltið eftir klofna dómaraákvörðun ekki verðskuldaður að mati allra og sömuleiðis sigurinn á Carlos Condit í janúar. Þá var Lawler að tapa á spjöldum dómaranna þegar hann kláraði Rory MacDonald í 5. lotu.

Þessi sigurganga Robbie Lawler hefur verið gríðarlega skemmtileg og er erfitt að finna bardagaaðdáenda sem hefur ekki gaman af Lawler. Það verður áhugavert að sjá hvað hann gerir næst en umsvifalaust fóru aðdáendur strax að tala um mögulegan bardaga gegn Nick Diaz.

18 mánaða banni Nick Diaz lauk í dag og hefur verið talað um annan bardaga á milli Diaz og Lawler í mörg ár. Kapparnir mættust fyrst í apríl 2004 þar sem Nick Diaz rotaði Lawler í 2. lotu. Bardagi milli Lawler og Diaz væri algjör draumur.

Það er þó annar maður sem vill fá bardaga gegn Nick Diaz og það var nýji meistarinn Tyron Woodley. Nick Diaz hefur ekki unnið bardaga síðan í október 2011 en Woodley veit að þetta væri bardagi sem myndi gefa vel í aðra hönd. Woodley skilur leikinn vel og biður um stóra bardaga. Um að gera að reyna en Woodley langaði líka að mæta Georges St. Pierre.

Við viljum að bardagamenn fái vel borgað en viljum líka sjá menn vinna sig upp í titilbardaga á sanngjarnan hátt. Það er ekki hægt að segja um Nick Diaz á þessari stundu. Stephen ‘Wonderboy’ Thompson á að fá næsta titilbardaga og vonandi mun UFC setja saman þann bardaga. Samt vel gert hjá Woodley að reyna.

Jake Ellenberger kom verulega á óvart með því að sigra Matt Brown eftir tæknileg rothögg strax í fyrstu lotu. Eftir að hafa unnið aðeins einn bardaga af síðustu sex var ekkert sem benti til þess að Ellenberger ætti heima með mönnum eins og Matt Brown – hvað þá í UFC. Staðreyndin er sú að samningi Ellenberger var rift eftir tapið í janúar gegn Tarec Saffiedine en Ellenberger grátbað um að fá eitt tækifæri í viðbót. Sá nýtti sér tækifærið heldur betur og gaf sigurinn honum nýja líflínu.

Fyrir bardagann var Matt Brown í 9. sæti styrkleikalistans og mun þessi sigur Ellenberger koma honum aftur á styrkleikalistann. Hugsanlega hefur hann fengið endurholdgun lífdaga eftir að hafa fært sig yfir til Kings MMA fyrr á árinu. Kannski verður Ellenberger næsti andstæðingur fyrir Gunnar?

Nikita Krylov er núna með næst lengstu sigurgönguna í léttþungavigt UFC á eftir Jon Jones. Krylov hefur sigrað fimm bardaga í röð og klárað þá alla. Krylov kom til að byrja með inn í þungavigt UFC, alltof lítill fyrir flokkinn og átti slæma frammistöðu í sínum fyrsta bardaga. Síðan þá hefur hann fært sig niður í léttþungavigt, vaxið með hverjum bardaganum og er bara 24 ára gamall. Krylov var aðhlátursefni en er núna að breytast í hörku góðan bardagamann sem á skilið sterkari andstæðinga.

Núna tekur við löng runa af UFC bardagakvöldum hverja helgi en næsta UFC bardagakvöld fer fram á laugardaginn. Þá mætast þeir Yair Rodriguez og Alex Caceres á litlu bardagakvöldi í Utah.

Pétur Marinó Jónsson
Pétur Marinó Jónssonhttps://www.mmafrettir.is
Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Viaplay
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

- Advertisment -spot_img

Most Popular