Um helgina fóru fram tvö bardagakvöld – eitt í Norður-Írlandi og eitt í Brasilíu. Nokkrir áhugaverðir bardagar voru á dagskrá og skemmtileg tilþrif áttu sér stað.
Bardagakvöldið í Belfast í Norður-Írlandi átti auðvitað að vera leiksýning okkar manns en vegna meiðsla gat Gunnar Nelson ekki barist.
Nokkrir skemmtilegir bardagar voru á dagskrá og mikil spenna ríkti að sjá liðsfélaga Conor McGregor, þá Charlie Ward og Artem Lobov, en Conor var í höllinni að hvetja sína menn áfram. Svo fór að Ward tapaði, en Artem Lobov sigraði Japanann Teruto Ishihara eftir nokkuð örugga dómaraákvörðun.
Aðalbardagi kvöldsins var viðureign Gegard Mousasi og Uriah Hall en Mousasi tapaði eftirminnilega eftir hringspark frá Hall fyrir rúmu ári síðan. Mousasi kláraði bardagann örugglega með tæknilegu rothöggi í fyrstu lotu en það er endanlega orðið ljóst að Uriah Hall verður aldrei einn af þeim bestu í millivigtinni – hvað þá „næsti Anderson Silva“ eins og haldið var fram á sínum tíma.
Sigurinn kemur Mousasi í ansi þægilega aðstöðu í millivigtinni en það eru hákarlar fyrir ofan hann á styrkleikalistanum og spennandi að sjá hvaða bardaga hann fær næst.
Í Brasilíu var svo annað bardagakvöld sem byrjaði nánast á sömu mínútu og bardagakvöldið í Belfast var að klárast. Bardagarnir voru skemtilegir og rúlluðu hratt í gegn og fyrsta dómaraákvörðunin leit ekki dagsins ljós fyrr en á aðalhluta bardagakvöldsins.
Manvel Gamburyan tilkynnti eftir bardagasinn við Johnny Eduardo að hann hyggðist hætta að berjast en hann sagði að líkaminn réði ekki lengur við álagið. Margir muna eftir Gamburyan úr TUF en hann var þátttakandi í 5. seríu þáttanna.
Kamaru Usman sigraði Warlley Alves og sagði í viðtali eftir bardagann að hann væri besti glímumaðurinn í þyngdarflokknum og óskaði eftir bardaga við Demian Maia til að sanna það. Maia henti í eitt kurteist tíst og verður eflaust ekkert af bardaganum enda engin ástæða fyrir Maia að taka þeim bardaga.
Congrats to Usman for a good performance, you have a promising career ahead. Look forward to see you fight more and become a top #10 @ufc
— Demian Maia (@demianmaia) November 20, 2016
Claudia Gadelha sigraði Cortney Casey eftir dómaraákvörðun en atvik bardagans var þegar Gadelha tók svokallað fótboltaspark í höfuð Casey þegar hún sat á jörðinni og stöðva þurfti bardagann í nokkrar mínútur. Brasilíska MMA sambandið (CABMMA) hefur gefið það út að það ætli sér ekki að refsa Gadelha fyrir atvikið en það heldur því fram að sparkið hafi ekki hitt og að Casey hafi verið að gera sér upp meiðsli.
Það virðist vera hlutskipti Gadelha að verða Joseph Benavidez strávigtarinnar en bardagaskorið hennar er 14-2 og bæði töpin hafa verið gegn meistaranum Joanna Jedrzejczyk. Hún vinnur alla nema þá bestu.
Aðalbardagi kvöldsins var svo viðureign Ryan Bader og Antonio Rogerio Nogueira, eða ‘Little Nog’. Bader sigraði bardagann með tæknilegu rothöggi í 3. lotu og var bardaginn fremur einhliða. Það er hægt að velta því fyrir sér hvort Nogueira fylgi ekki fljótlega í fótspor bróður síns, Big Nog, og leggi hanskana á hilluna.
Þetta var síðasti bardagi Bader á UFC samningi sínum en hann heufr verið að kalla eftir stærri bardögum og betri samning. Hann hefur gert það sem hann getur en spurning hvort hann fái það sem hann óskar eftir.
Næsta bardagakvöld er svo um helgina en það fer fram í Melbourne í Ástralíu. Aðalbardagi kvöldsins átti að vera bardagi Luke Rockhold og Jacare Souza en Rockhold meiddist á dögunum. Kvöldinu er haldið uppi með bardaga Robert Whittaker og Derek Brunson í millivigtinni.