Á laugardagskvöldið fór fram UFC Fight Night: Edgar vs. Swanson í Austin í Texas. Bardagakvöldið var ágætis skemmtun þar sem Frankie Edgar minnti rækilega á sig.
Frankie Edgar sigraði Cub Swanson með miklum yfirburðum. Hann sigraði allar loturnar og hengdi Swanson þegar fjórar sekúndur voru eftir af 5. lotunni. Þetta var nýtt met í UFC en aldrei áður hefur bardagamaður klárað bardaga þegar svo lítið er eftir af bardaganum.
Sigurinn hjá Edgar er að vissu leiti sigur fyrir Conor McGregor líka. Hefði Cub Swanson sigrað hefði verið mjög erfitt að neita honum um titilbardaga enda hefði þetta verið hans sjöundi sigur í röð í UFC. Eftir tapið hjá Swanson er nánast öruggt að Conor McGregor fái titilbardaga gegn Jose Aldo takist honum að sigra Dennis Siver í janúar.
Bobby Green kom inn í bardagann gegn Edson Barboza með enga (eða lélega) leikáætlun og leyfði Barboza að sparka í sig að vild. Það eina sem hann gerði var að hrista af sér spörkin og veifa fingrinum að Barboza til marks um að höggin hefðu engin áhrif á hann. Hvort sem hann fann fyrir höggunum eða ekki hafði þetta engin áhrif á dómarana og sigraði Barboza allar loturnar. Green vakti mikla athygli í vikunni þegar hann talaði um að hann gæti lagt hanskana á hilluna. Hann fór ekkert nánar í þetta fram að bardaganum en það verður athyglisvert að sjá hvað hann gerir næst.
Næsta UFC bardagakvöld er þann 6. desember þegar UFC 181 fer fram. Það verður risa bardagakvöld þar sem tveir titilbardagar fara fram. Johny Hendricks ver veltivigtarbelti sitt gegn Robbie Lawler og Anthony Pettis mun verja léttvigtarbelti sitt gegn Gilbert Melendez.