spot_img
Thursday, December 26, 2024
Minigarðurinnspot_imgspot_imgspot_img
HomeErlentMánudagshugleiðingar eftir UFC Fight Night: Poirier gegn Pettis

Mánudagshugleiðingar eftir UFC Fight Night: Poirier gegn Pettis

UFC Fight Night 120 fór fram í Norfolk í Virgínu um helgina. Kvöldið var hið skemmtilegasta og stóð almennt undir væntingum. Það voru nokkuð stór nöfn hér og þar um kvöldið og nokkrir mikilvægir bardagar sömuleiðis.

Blóðbað í léttvigt

Bardagi Dustin Poirier og Anthony Pettis olli ekki vonbrigðum. Báðir þessir kappar eru skemmtilegir á að horfa. Pettis með sín frumlegu spörk og ógnandi jiu-jitsu af bakinu. Poirer með mikla pressu, sterka glímu og rosalega olnboga. Bardaginn var verðskuldað valinn bardagi kvöldsins en að lokum var það Poirer sem sigraði eftir skrítið atvik þar sem Pettis meiddist á rifbeini. Það dregur þó ekki úr sigrinum þar sem Poirier virtist vera á leiðinni að brjóta Pettis andlega (ef hann var ekki þegar búinn að því) en Pettis var skorinn á nokkrum stöðum í andliti og á endanum gaf líkaminn sig. Á meðan það entist var mjög gaman að sjá þessa hæfileikaríku menn veltast um í sleipu blóði, fram og til baka. Eftir bardagann heimtaði Poirer sigurvegarann af bardaga Justin Gaethje og Eddie Alvarez. Hver myndi mótmæla því?

Mynd: USA Today

Líklega er hægt að afskrifa Anthony Pettis sem einhver topp 5 bardagamaður í léttvigtinni. Þetta var fimmta tapið hans í síðustu sjö bardögum og verður upprisan sem átti að hefjast með sigrinum á Jim Miller fyrr á árinu að bíða.

Gamlar kempur

Það voru nokkrir gamlir reynsluboltar hér og þar þetta kvöld. Matt Brown sigraði Diego Sanchez með rosalegum olnboga í fyrstu lotu. Kannski var þetta síðasti bardagi Brown og ef svo er var þetta fullkominn kveðjubardagi. Ég vona hans vegna að hann segi þetta gott en alltof oft höfum við séð menn hætta við að hætta.

Fyrr um kvöldið börðust einnig Joe Lauzon og Clay Guida. Ég bjóst við jöfnum bardaga í þrjár lotur en það var Guida sem náði að afgreiða Lauzon með höggum í fyrstu lotu. Vel gert hjá Guida og mjög óvænt frammistaða en þetta var í fyrsta skipti í sex ár sem hann vinnur bardaga ekki á stigum. Annar reynslubolti náði sér í góðan sigur en gamli hundurinn Andrei Arlovski sýndi að hann er ekki alveg búinn á því eftir sigur á hinum efnilega og 26 ára Junior Albini.

Mynd: Fansided

Mikilvægir bardagar í bantamvigt

Það var ánægjulegt að sjá Marlon Moraes sigra John Dodson. Hann hafði unnið 13 bardaga í röð áður en hann tapaði jöfnum bardaga í sínum fyrsta UFC bardaga gegn Raphael Assunção. Hér sigraði hann á klofnum úrskurði dómaranna en sigurinn engu að síður mjög mikilvægur fyrir hann og þyngdarflokkinn. Það verður gaman að sjá hvað hann getur gert gegn mönnum eins og John Lineker, Aljamain Sterling og Thomas Almeida áður en hann fer í þá allra bestu. Rafael Assunção mætti svo Matthew Lopez þetta kvöld en Assunção kláraði bardagann með rosalegu rothöggi í þriðju lotu og minnti því hressilega á sig. Assunção gleymist oft í umræðunni en hann er 100% einn af þeim allra bestu í bantamvigt.

Efnilegir á uppleið

Tvær ósigraðar bardagakonur mættust þetta kvöld en það voru þær Tatiana Suarez og Viviane Pereira. Suarez hafði sigrað 23. seríu af The Ultimate Fighter og var talinn líklegri af vefbönkunum. Það reyndist rétt mat en hún notaði yfirburða glímugetu sína til að tryggja sér öruggan sigur á stigum en eftir 2-3 ár gæti hún hæglega verið orðin ein af þeim allra bestu í strávigt kvenna. Sjálfur ‘Super’ Sage Northcutt sýndi líka sínar bestu hliðar þetta kvöld en hann sigraði Michel Quiñones örugglega á stigum. Northcutt hefur greinilega verið að vinna heimavinnuna sína hjá Team Alpha Male (hjá Herra Faber). Hann virkaði ótrúlega hraður og gæti í alvöru átt meiri framtíð en margir halda ef hann heldur áfram á þessari braut.

Næsta UFC kvöld fer svo fram á sunnudaginn í Ástralíu en þar mætast þeir Fabricio Werdum og Marcin Tybura í aðalbardaga kvöldsins.

spot_img
spot_img
spot_img
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

spot_img
spot_img

Most Popular