Friday, April 19, 2024
HomeErlentMánudagshugleiðingar eftir UFC Fight Night: Rodriguez vs. Penn

Mánudagshugleiðingar eftir UFC Fight Night: Rodriguez vs. Penn

Í nótt hélt UFC bardagakvöld í Pheonix þar sem B.J. Penn mætti Yair Rodriguez í aðalbardaga kvöldsins. Nokkrir áhugaverðir bardagar áttu sér stað og förum við aðeins yfir það í Mánudagshugleiðingunum.

Það voru blendnar tilfinningar sem bardagaaðdáendur höfðu gagnvart aðalbardaga kvöldsins. B.J. Penn er þessi goðsögn sem allir muna eftir en eins og flestar þeirra þá er hans tími einfaldlega liðinn. Það var ekki margt breytt frá síðasta bardaga hans við Frankie Edgar árið 2014 en Penn virkaði gamall, hægur og hreinlega áhugalaus.

Það var auðvelt að gera sér upp einhverjar vonir að nú væri hann loksins farinn að taka hlutina alvarlega aftur, sérstaklega í ljósi þess að hann hafði verið að æfa hjá Jackson/Winkeljohn í Nýju-Mexíkó. Það sást þó í bardaganum að hann er alveg búinn sem topp bardagamaður og á ekki heima nálægt topp 15 bardagamönnunum í dag í fjaðurvigtinni.

Besti eiginleiki B.J. Penn hefur alltaf verið hakan hans og viljinn til þess að gefast ekki upp en það er á sama tíma hans versti óvinur. Penn fékk þónokkur þung högg í sig og þurfti ekki að taka á sig svona miklar barsmíðar. Það jákvæða sem hægt er að taka úr þessu tapi er kannski sú staðreynd að nú mun Penn kannski átta sig á því að hann á ekkert heima nálægt toppnum í UFC í dag.

Við skulum þó ekki taka neitt af Yair Rodriguez en hann sýndi í bardaganum að hann er gríðarlega fær bardagamaður og sýndi á köflum frábæra takta. Núna er kominn tími á að hann fái toppbardagamann næst og gæti verið gaman að sjá hann gegn Jeremy Stephens, Cub Swanson eða jafnvel Chan Sung Jung (Korean Zombie) nú þegar hann er kominn aftur.

Í næstsíðasta bardaga kvöldsins sáum við Joe Lauzon taka á móti Pólverjanum Marcin Held. Lauzon byrjaði bardagann vel og vankaði Held með olnbogum upp við búrið. Held jafnaði sig og sýndi miklar framfarir frá tapi sínu gegn Diego Sanchez í nóvember.

Held var með virkilega vel tímasettar fellur og náði Lauzon tiltölulega auðveldlega niður. Lauzon sigraði bardagann eftir klofna dómaraákvörðun (29-28, 29-28, 27-30) og eru ekki allir sammála þeirri niðurstöðu. Meira að segja Lauzon var ósammála niðurstöðu dómarans og bað Held afsökunar í viðtalinu eftir bardagann. Held hefði átt að vinna en gaman að sjá hvað Lauzon er alltaf jafn mikill herramaður.

Yngri Pettis bróðirinn, Sergio Pettis, átti síðan fína frammistöðu gegn erfiðum andstæðingi í John Moraga. Eftir frábæra fyrstu lotu þar sem Pettis sló Moraga niður voru síðari tvær loturnar jafnari og að lokum sigraði Sergio Pettis eftir einróma dómaraákvörðun. Pettis sýndi mun þroskaðri frammistöðu heldur en hann hefur gert hingað til og hann virðist tilbúinn fyrir næsta skref.

Eitt undarlegasta atvik kvöldsins var uppgjafartak Oleksiy Oliynyk gegn Victor Pesta. Þegar Pesta var kominn ofan á í „mount“ ógnaði Oliynyk með hengingu og tappaði Pesta óvænt út. Oliynyk læsti Ezekiel hengingu og er þetta í fyrsta sinn sem þessi henging sést í UFC af bakinu. Pesta hefði mátt gera betur og vera undirbúinn fyrir þessa hengingu enda var þetta tíundi sigur Oliynyk eftir þessa hengingu á ferlinum (þó ekki endilega af bakinu).

Næsta bardagakvöld UFC fer fram þann 28. janúar þegar Valentina Shevchenko mætir Julianna Peña.

RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

- Advertisment -

Most Popular