spot_img
Wednesday, October 30, 2024
Minigarðurinnspot_imgspot_imgspot_img
HomeErlentMánudagshugleiðingar eftir UFC Fight Night: Swanson vs. Lobov

Mánudagshugleiðingar eftir UFC Fight Night: Swanson vs. Lobov

Mynd: Christopher Hanewinckel-USA TODAY Sports

Á laugardagskvöldið hélt UFC bardagakvöld í Nashville, Tennessee. Þó bardagakvöldin hafi verið stærri hjá UFC mátti sjá nokkra skemmtilega bardaga og línurnar farnar að skýrast hvað varðar feril nokkurra bardagamanna.

Í aðalbardaga kvöldsins tókust á þeir Cub Swanson og æfingafélagi og vinur Conor McGregor, Artem Lobov. Lobov mun sennilega aldrei losna undan stimplinum að vera einungis í UFC vegna Conor McGregor. Bardaginn sjálfur renndi einungis stoðum undir þá fullyrðingu þó svo að Lobov hafi gert vel í því að lifa allar fimm loturnar og átt sín augnablik. Þræta má um það hvort að hann hafi sigrað fyrstu lotuna en það sem eftir lifði bardagans mætti segja að hann hafi í raun bara verið skotmark fyrir Cub Swanson sem sigraði að lokum örugglega eftir dómaraákvörðun.

Á sínum tíma var því haldið fram að Swanson væri á niðurleið en hann sýndi það um helgina að hann á nóg eftir og óskaði eftir titilbardaga gegn sigurvegaranum úr bardaga Jose Aldo og Max Holloway. Lobov sýndi það í bardaganum að hann á langt í land með að vera topp 10 bardagamaður í fjaðurvigtinni en getur samt sem áður gengið stoltur frá borði með höfuðið hátt.

Al Iaquinta sigraði Diego Sanchez með rothöggi í fyrstu lotu í næstsíðasta bardaga kvöldsins. Þetta var endurkomubardagi Iaquinta eftir tveggja ára fjarveru vegna samningadeilna við UFC. Hann hefur verið ósáttur við UFC og hversu lítið borgað hann fær fyrir að berjast og í þessari tveggja ára pásu hefur hann starfað sem fasteignasali.

Þrátt fyrir að hafa nýlega skrifað undir samning virðist Iaquinta hreint ekki vera sáttur með sína stöðu. Hann fékk ekki bónus eftir sigurinn og sendi UFC skýr skilaboð á Twitter eftir bardagann.

Diego Sanchez þarf hins vegar að horfast í augu við sama vandamál og Chuck Liddell og fleiri bardagamenn hafa þurft að gera á sínum tíma – hakan virðist vera að gefa sig og tími til kominn að snúa sér að öðru. Sanchez hefur í gegnum tíðina fengið lof fyrir óendanlega hörku og virðist oft á tíðum hafa verið óstöðvandi og geta tekið hvaða högg sem er. Hann var kláraður með höggum í fyrsta sinn á ferlinum gegn Joe Lauzon í fyrstu lotu á UFC 200 og aftur núna og virðist aðeins vera farinn að gefa allsvakalega eftir. Hann hefur farið í gegnum óteljandi stríð og nú virðist líkaminn vera farinn að segja stopp.

Joe Lauzon sjálfur og Jake Ellenberger ættu einnig að fara að hugsa sína framtíð í sportinu en þeir töpuðu báðir sínum bardögum um helgina og Jake Ellenberger var rotaður í fjórða skiptið á þremur árum. Í þetta sinn var Ellenberger rotaður eftir olnboga frá glaumgosanum Mike Perry. Mike Perry óskaði síðan hálfpartinn eftir bardaga við Gunnar Nelson í viðtalinu í búrinu.

Það virðist vera langt síðan Ellenberger var topp fimm bardagamaður í UFC en bardaginn um helgina var hans 44. á ferlinum. Þrátt fyrir að vera bara 32 ára virðist hann einfaldlega vera búinn sem topp bardagamaður.

John Dodson sigraði sinn bardaga gegn Eddie Wineland og er að koma sér í ákjósanlega stöðu í bantamvigtinni og færist nær titilbardaga. Hann er einmitt sá eini sem hefur rotað T.J. Dillashaw sem berst við Cody Garbrandt næst um beltið.

Nú fáum við örlitla pásu frá UFC en næsta bardagakvöld fer fram þann 13. maí þar sem Stipe Miocic tekur á móti Junior dos Santos í titilbardaga um þungavigtarbeltið á UFC 211.

spot_img
spot_img
spot_img
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

spot_img
spot_img

Most Popular