Fyrr í dag fór fram blaðamannafundur fyrir UFC 189 þar sem þeir Conor McGregor, Chad Mendes og fleiri sátu fyrir svörum. Mesta athyglin var á þá Conor McGregor og Chad Mendes.
Það stefnir allt í risastóran viðburð þrátt fyrir brotthvarf Jose Aldo. Sjaldan hefur verið jafn mikill áhugi frá almenningi á blaðamannafundi UFC og var salurinn þéttskipaður. Conor McGregor, Chad Mendes, Rory MacDonald, Robbie Lawler, Jake Ellenberger, Stephen Thompson, Hayder Hassan og Kamaru Usman voru viðstaddir blaðamannafundinn.
Samkvæmt Dave Sholler, yfirmanni hjá UFC, nemur miðasalan 7.1 milljónum dollara og gæti „pay per view“ metið verið slegið um helgina. Metið, 1,6 milljón PPV sölur hefur staðið síðan á UFC 100 þann 11. júlí 2009.
Fyrstu spurningarnar bárust til Conor McGregor og Chad Mendes.
„Ég er bestur í flokknum, það skiptir mig engu máli ef sá næstbesti dettur út og sá þriðji besti stígur inn. Ég hefði alltaf mætt og keppt, hvaða bardaga sem er og ég er ánægður að UFC hafi náð að selja miða fyrir 7,1 milljón dollara,“ sagði McGregor kokhraustur að venju.
Chad Mendes hefur mikla trú á sér og virðist ekki hafa miklar áhyggjur af McGregor. „McGregor er einhæfur bardagamaður og ég mun rústa honum,“ sagði Mendes og uppskar mikið baul.
Conor McGregor hélt áfram. „Hann hefði átt að halda kjafti, ég mun drepa þennan mann.“ Mendes svaraði en kapparnir lentu í orðaskiptum í gegnum blaðamannafundinn nokkrum sinnum.
Allt snérist um McGregor og Mendes og voru allar spurningarnar til þeirra fyrstu 20 mínúturnar eða svo.
„Mendes verður óþekkjanlegur eftir bardagann, andlitið hans verður gjörbreytt. Hann er einfaldur bardagamaður, nýliði. Lokar augunum, setur hausinn niður og sveiflar með yfirhandarhægri. Hann mun finna getumuninn á laugardaginn, “ hélt McGregor áfram.
Mendes talaði vel og lengi um hvað hann ætlaði að gera við McGregor á laugardaginn og talaði um hversu góður hann væri á öllum vígstöðum bardagans. McGregor var ekki lengi að svara: „Hann mun ekki gera neitt af þessu, hann er nýlði, hvítbeltingur. Í glímunni mun hann brotna eins og lítil stelpa.“
Það er ljóst að spenningurinn verður meiri með hverri mínútu. UFC 189 fer fram á laugardaginn og hefst fyrsti bardaginn kl 23 á íslenskum tíma. Aðalhluti bardagakvöldsins hefst kl 2 og verður í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport.
Blaðamannafundinn í heild sinni má sjá hér að neðan.