spot_img
Sunday, December 22, 2024
Minigarðurinnspot_imgspot_imgspot_img
HomeErlentNeðanjarðar kóngurinn Eddie Alvarez

Neðanjarðar kóngurinn Eddie Alvarez

Mynd: Joshua Dahl-USA TODAY Sports
Mynd: Joshua Dahl-USA TODAY Sports

Eddie Alvarez mætir Conor McGregor í aðalbardaganum á UFC 205 um helgina. En hver er maðurinn Eddie Alvarez?

Edward Alvarez er fæddur þann 11. janúar 1984 í Philadelphiu. Alvarez ólst upp í einu versta hverfi borgarinnar, Kensington, þar sem götuslagsmál og eiturlyf voru algeng. Alvarez var þó heppinn að ganga í skóla aðeins fyrir utan hverfið og lenti því aldrei í slæmum félagsskap.

Skólinn var í þriggja mílna fjarlægð frá heimili hans og hljóp hann í skólann á hverjum degi. Á þessum tíma æfði hann frjálsar íþróttir og voru hlaupin til og frá skólanum til þess eins að gera hann betri í íþróttinni. Þrjár mílur á hverjum degi er mikið fyrir átta ára lappir.

Alvarez hafði alltaf áhuga á boxi og áður en hann fékk leyfi frá foreldrum sínum til að æfa box gekk hann um hverfið, með tvö pör af boxhönskum, og bað stráka um að boxa við sig. Hann fékk svo loksins leyfi frá foreldrunum til að æfa box.

Alvarez glímdi á skólaárum sínum en hafði ekki efni á að fara í háskóla og fór þess í stað beint á vinnumarkaðinn. Alvarez vann í steypuvinnu en fannst alltaf eins og hann gæti komist lengra. Hann langaði ekki að vera þarna alla sína tíð – í Kensington að steypa.

Gamall skólafélagi hans úr glímunni sagði honum frá MMA æfingum sem hann stundaði í litlum kjallara í hverfinu. Alvarez skellti sér á æfingu og vissi strax að þetta væri eitthvað sem hann gæti gert. Átta mánuðum síðar, þegar Alvarez var 19 ára gamall, tók hann sinn fyrsta bardaga.

Alvarez hafði þá mikla reynslu úr götuslagsmálum enda var það einfaldlega partur af lífinu í Kensington. Að hans mati var ekki séns að hann gæti tapað í slag og fór hann því kokhraustur í sinn fyrsta MMA bardaga.

Alvarez byrjaði ferilinn mjög vel og hefur í raun alltaf gengið vel. Hann vann sína fyrstu tíu bardaga alla með rothöggi en fyrst um sinn barðist hann í veltivigt. Alvarez naut þess að berjast við stærri andstæðinga og vann veltivigtartitil Bodog til að mynda.

Síðar meir færði hann sig niður í léttvigt og tók þátt í 16-manna útsláttarmóti Dream bardagasamtakanna í Japan. Þar má segja að Eddie Alvarez hafi orðið af þeim bardagamanni sem hann er í dag.

Alvarez fór einfaldlega á kostum á mótinu. Hann byrjaði á að vinna Andre Amade með tæknilegu rothöggi en í næstu umferð mætti hann Joachim Hansen. Bardaginn var stórkostleg skemmtun en Alvarez fór með sigur af hólmi eftir dómaraákvörðun.

https://www.youtube.com/watch?v=rbCLivmduzw

Í undanúrslitum mætti hann Tatsuya Kawajiri og sigraði Alvarez með tæknilegu rothöggi. Úrslitin áttu svo að fara fram sama kvöld en Alvarez gat ekki keppt í úrslitunum þar sem hann hafði fengið skurð í undanúrslitunum. Joachim Hansen kom í hans stað og vann Dream útsláttarmótið.

Þetta voru ákveðin vonbrigði fyrir Alvarez en á þessum tíma voru menn farnir að taka eftir Alvarez. Hann var kominn til að vera enda með 15 sigra í 16 bardögum.

Skömmu eftir Dream mótið samdi hann við Bellator og þar varð hann enn þekktari. Í fjögur ár barðist Alvarez í Bellator þar sem hann var léttvigtarmeistari. Bardagar hans voru alltaf mjög skemmtilegir enda Alvarez aggressívur bardagamaður en ekki með bestu vörnina gegn höggum.

Alvarez átti góðu gengi að fagna í Bellator en hann vildi eitthvað stærra og meira. Leiðin lá til UFC en hún var langt í frá þrautalaus. Bellator vildi alls ekki leyfa stærsta nafninu sínu að fara til UFC. Málið fór fyrir dómstóla og var Bellator tilbúið að láta málið dragast á langinn bara til að koma í veg fyrir að Eddie Alvarez myndi berjast.

Alvarez var ekki tilbúinn að eyða sínum bestu árum utan búrsins í baráttu í dómssölum og samdi því á ný við Bellator. Hann hefndi fyrir eina tapið sitt í Bellator gegn Michael Chandler en eftir að Scott Coker tók við Bellator var honum leyft að fara. UFC var eðlilega ekki lengi að semja við hann.

Alvarez hafði á þessum tíma barist í tíu bardagasamtökum í Bandaríkjunum, Rússlandi, Japan, Kosta Ríka og Kanada. Í hvert sinn sem hann mætti sterkari, reyndari og þekktari andstæðingum reis hann upp og sýndi bætingar og frábærar frammistöður. Hann barðist við alla þá bestu utan UFC og tapaði örsjaldan gegn topp andstæðingum. Hann var þekktur en fékk þó aldrei þá athygli sem hann átti skilið og var því nefndur neðanjarðar kóngurinn af harðkjarna aðdáendum.

Það var tími til kominn fyrir neðanjarðar kónginn að komast upp á yfirborðið og sýna að hann væri sá besti í heiminum. Þetta byrjaði ekki vel hjá honum en í frumraun hans í UFC tapaði hann fyrir Donald Cerrone. Margir efuðust um að Alvarez væri eins góður og talið var og sárnaði Alvarez sú umræða. Hann var þó staðráðinn að sýna hvað í honum bjó.

Hann snéri taflinu þó við með sigrum á Anthony Pettis og Gilbert Melendez sem voru síður en svo sannfærandi frammistöður en skiluðu honum þó titilbardaga gegn Rafael dos Anjos. Alvarez kom mörgum á óvart þegar hann rotaði meistarann strax í 1. lotu í sumar. Neðanjarðar kóngurinn var orðinn léttvigtarmeistari UFC.

https://www.youtube.com/watch?v=kccEJf-qfi8

Alvarez sigraði því síðasta WEC meistarann (Pettis), síðasta Strikeforce meistarann (Melendez) og rotaði auðvitað þáverandi léttvigtarmeistara UFC – þrír fræknir sigrar í röð. Eftir að hafa mætt þessum skrímslum bað Alvarez um auðveldan bardaga. Hann óskaði því eftir bardaga gegn Conor McGregor.

Alvarez fékk ósk sína uppfyllta og mætast þeir Alvarez og Conor McGregor í aðalbardaganum á UFC 205 um helgina. Bardagakvöldið er risavaxið og sennilega eitt það stærsta í sögu UFC.

Sigur gegn Conor McGregor mun gera gríðarlega mikið fyrir Alvarez eins og sást þegar Nate Diaz sigraði Conor fyrr í ár. Með sigri gæti Alvarez orðið mjög stórt nafn og opnað dyr sem hafa hingað til verið lokaðar.

Kemst neðanjarðarkóngurinn almennilega upp á yfirborðið? Það kemur í ljós á laugardaginn þegar UFC 205 fer fram.

spot_img
spot_img
spot_img
Pétur Marinó Jónsson
Pétur Marinó Jónssonhttps://www.mmafrettir.is
Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Viaplay
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

spot_img
spot_img

Most Popular