Tuesday, June 18, 2024
spot_img
HomeForsíðaNokkrar ástæður til að horfa á UFC 171: Hendricks vs. Lawler

Nokkrar ástæður til að horfa á UFC 171: Hendricks vs. Lawler

UFC-171

Næsta laugardagskvöld fer UFC 171: Hendricks vs. Lawler fram í Dallas í Texas. Þetta verður óvenju stór viðburður (enda er allt stærra í Texas), því þetta kvöld verður nýr veltivigtarmeistari krýndur í fyrsta sinn í sex ár fyrir framan um 20 þúsund tryllta áhorfendur. Það má því búast við rosalegri stemmningu. Aðal hluti UFC 171 verður í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport og það byrjar klukkan 2 aðfaranótt sunnudags samkvæmt dagskrá UFC. Hér eru nokkrar ástæður fyrir því af hverju þú ættir ekki að missa af þessum viðburði.

  • Nýr veltivigtarmeistari krýndur! Georges St.-Pierre hefur verið ráðandi meistari í langan tíma en eftir erfiðar viðureignir við Carlos Condit og Johny Hendricks þurfti meistarinn hlé frá pressunni sem fylgir því að vera bestur í heimi. Hann afsalaði sér beltinu svo nú verður nýr meistari krýndur. Verður það Johny Hendricks, sem var hársbreidd frá því að taka beltið af GSP, eða verður það Robbie Lawler, sem hefur verið óstöðvandi síðan hann kom aftur í UFC eftir brösulegt gengi í Strikeforce þar áður? Þess má geta að af 37 sameiginlegum sigrum þessara manna hafa 26 komið með rothöggi, svo það kemur ekki á óvart ef kvöldið endar snemma.
  • Carlos Condit er að berjast. Næst síðasti bardagi kvöldsins verður líklega flugeldasýning, en þar mætast Carlos Condit og Tyron Woodley. Condit, sem er fyrrverandi bráðabirgðameistari í veltivigt, lítur ekki sérlega ógnandi út, á meðan Woodley er byggður eins og ofurhetja. Condit er þó óneitanlega einn allra hættulegasti, færasti og skemmtilegasti bardagamaður í heimi og það er alltaf augnakonfekt að horfa á hann berjast. Woodley er auðvitað stórhættulegur sjálfur, svo það stefnir í góðan bardaga.
  • Diego Sanchez er brjálæðingur! Hinn eitilharði, margreyndi og meira en lítið klikkaði Diego Sanchez mætir Myles Jury, sem er 25 ára gamall og ósigraður. Síðasti bardagi Sanchez var ógleymanleg viðureign gegn Gilbert Melendez sem af mörgum var talinn bardagi ársins 2013. Sanchez hefur alls unnið sjö bónusa fyrir bardaga kvöldsins og þrisvar fengið verðlaun fyrir bardaga ársins. Það er því alveg stranglega bannað að missa af bardögum Diego Sanchez!
  • Hvernig gengur Kelvin Gastelum? Þegar Gastelum sigraði 17. seríu af The Ultimate Fighter endaði einhver ótrúlegasta Rocky-saga sem um getur í MMA. Allir voru sannfærðir um að hann myndi tapa úrslitabardaganum gegn Uriah Hall, sem var eins og vondikall beint úr Tekken, en hann vann og gekk svo frá Brian Melanchon á tveimur og hálfri mínútu í næstu viðureign. Það verður mjög spennandi að fylgjast með ferli þessa kornunga og efnilega bardagamanns.
  • Heldur Alex Garcia áfram að rústa? Alex Garcia er virkilega spennandi bardagamaður sem er að fara að keppa sinn annan UFC bardaga. Þann fyrsta sigraði hann með rothöggi eftir 43 sekúndur svo við fengum ekki að sjá mikið af honum, en 9 af 11 sigrum hans hafa komið í fyrstu lotu. Tristar bardagamaðurinn hefur aðeins einu sinni unnið eftir dómaraúrskurð og eina tapið hans er gegn UFC bardagamanninum Seth Baczynski. Það verður því fróðlegt að fylgjast með honum mæta Sean Spencer og sjá hvort hann geti viðhaldið þessu gengi.
  • Það eru 13 bardagar á kortinu. Það er lítil hætta á að MMA áhugamenn fái ekki nóg þessa dagana því UFC hefur haldið viðburð um hverja helgi síðustu fjórar vikur og það verður annar um næstu helgi. Sumum fannst þó kortið um síðustu helgi heldur stutt, enda bara 9 bardagar. Á laugardagskvöld kemur hins vegar epískur viðburður, drekkhlaðinn góðum bardögum.
Oddur Freyr Þorsteinsson
Oddur Freyr Þorsteinsson
Greinahöfundur á MMAFréttir.is
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

- Advertisment -

Most Popular