Friday, April 19, 2024
HomeForsíðaNokkrar ástæður til að horfa á UFC 183

Nokkrar ástæður til að horfa á UFC 183

UFC-183Það eru margar ástæður til að horfa á UFC 183 annað kvöld. Þó árið sé rétt að byrja tel ég óhætt að fullyrða að þetta verður einn glæsilegasti viðburður ársins. Í aðalbardaga kvöldsins berjast tvær stærstu stjörnur UFC í fyrsta sinn og fleiri en einn titilbardagi gæti verið í húfi.

Fyrsti bardagi kvöldsins hefst kl. 22.30 á Fight Pass en aðalhluti bardagakvöldsins hefst kl 3 og er í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport.

  • Anderson Silva er kominn aftur! Silva er einn besti, ef ekki allra besti, bardagamaður sem hefur barist í UFC. Í lok desember 2013 fótbrotnaði hann illa í titilbardaga gegn Chris Weidman og hefur verið frá keppni síðan. Lengi vel var óvíst hvort hann myndi nokkurn tímann snúa aftur en aðdáendum til mikillar gleði ætlar hann að halda áfram að berjast og mætir nú einum skemmtilegasta bardagamanni í sögu UFC. Það verður forvitnilegt að sjá hvort Silva sé enn sami gamli snillingurinn eða hvort aldurinn og fjarvera frá búrinu taki sinn toll. Sigur gegn Diaz gæti þýtt að Silva berjist aftur um millivigtartitilinn í náinni framtíð.
  • Nick Diaz er kominn aftur! Nick Diaz er einn umdeildasti en um leið skemmtilegasti bardagamaður UFC. Hann hefur ekki keppt síðan hann tapaði fyrir Georges St. Pierre í mars 2013 og á tímabili sagðist hann ætla að hætta, en sem betur fer ákvað hann að koma aftur. Diaz keppir venjulega í veltivigt en mætir Silva í millivigt, þyngdarflokknum hans Silva. Með sigri gæti hann komist hátt á styrkleikalistann í milli- eða veltivigt. Ef Diaz tapar gæti hann hins vegar endanlega hætt keppni eða beðið eftir öðrum stórum bardaga og góðri útborgun.
  • Hver tekur stórt skref í átt að veltivigtartitilinn? Með glæsilegum sigri gætu bæði Tyron Woodley og Kelvin Gastelum, sem mætast í næstsíðasta bardaga kvöldsins, komist mjög nálægt því að berjast um veltivigtartitilinn. Woodley hefur unnið fjóra af sex bardögum sínum í UFC en Gastelum hefur unnið alla tíu bardaga sína, þar af fimm í UFC. Þeir eru báðir nautsterkir glímumenn með mikinn sprengikraft svo það má búast við gríðarlegum átökum þegar þeir mætast.
  • Joe Lauzon er alltaf skemmtilegur! Lauzon hefur þrettán sinnum unnið sér inn bónus eftir bardaga í UFC, oftar en nokkur annar. Það er vegna þess að Lauzon er árásargjarn bardagamaður sem getur sigrað bæði á gólfinu og standandi og berst alltaf af hörku. Fyrir vikið eru bardagar hans yfirleitt stórskemmtilegir. Hann mætir Al Iaquinta á aðalhluta bardagakvöldsins en Iaquinta hefur unnið fimm af síðustu sex bardögum og hefur sýnt sérstaklega glæsilega frammistöðu í síðustu tveimur bardögum.
  • Fær Tate eða McMann titilbardaga? Miesha Tate og Sara McMann eru í öðru og þriðja sæti í bantamvigt kvenna á styrkleikalista UFC. Meistarinn Ronda Rousey mætir Cat Zingano, sem er í fyrsta sæti, í næsta titilbardaga en ekki hefur verið staðfest hvort titilbardagi sé í húfi í þessum bardaga. Það verður þó að teljast mjög líklega að góður sigur í þessum bardaga tryggi næsta tækifærið til að ná í gull.
  • Sjáum við næsta andstæðing Mighty Mouse? Sigurvegarinn í bardaga Ian McCall og John Lineker mætir líklega Demetrious “Mighty Mouse” Johnson, einum besta bardagamanni heims, í titilbardaga í fluguvigt. Bardaginn átti upphaflega að fara fram í nóvember á UFC Fight Night: Shogun vs. Saint Preux, en McCall fékk blóðsýkingu daginn sem bardaginn átti að fara fram svo fresta þurfti bardaganum. Satt að segja eru þó litlar líkur á að annar þeirra geti tekið titilinn af Johnson.
Oddur Freyr Þorsteinsson
Oddur Freyr Þorsteinsson
Greinahöfundur á MMAFréttir.is
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

- Advertisment -

Most Popular