Friday, April 26, 2024
HomeErlentNýjasta vonarstjarna UFC

Nýjasta vonarstjarna UFC

Khamzat Chimaev var á allra vörum í sumar eftir tvo mjög sannfærandi sigra. Þessi nýliði fær tvær stórar áskoranir en UFC fer nýjar leiðir til að koma ferli hans áfram.

Khamzat Chimaev kom eins og stormsveipur inn í UFC. Hann mætti fyrst Íslandsvininum John Phillips á bardagaeyjunni með skömmum fyrirvara og hreinlega valtaði yfir hann. Aðeins 10 dögum síðar fékk hann annan bardaga og þar var sigurinn enn meira sannfærandi.

Khamzat Chimaev er nú 8-0 og mætir Gerald Meerschaert (31-13) á laugardaginn. Takist Chimaev að sigra Meerschaert fær hann bardaga gegn Demian Maia í október. Það er afar sjaldgæft að UFC bóki tvo bardaga í röð fyrir einn bardagamann og fer UFC því nýjar leiðir til að byggja upp Chimaev.

Chimaev er bara með átta atvinnubardaga en Meerschaert 44 bardaga og er með svart belti í brasilísku jiu-jitsu. Það verður því áhugavert að sjá hvort hinn 26 ára gamli Chimaev geti gert það sama og hann hefur gert við andstæðinga sína hingað til í UFC.

Meerschaert kemur inn í þennan bardaga óhræddur við að vera tekinn niður. Hann telur sig vita nákvæmlega hvað Chimaev ætlar að gera og verður tilbúinn fyrir það. „Ég er með mikla reynslu. Ef ég veit ekki hvernig á að mæta ‘wrestler-grappler’ eftir 50 bardaga, þá er ég að gera eitthvað rangt,“ sagði Meerschaert við The Athletic.

MMA aðdáendur eru að bera Chimaev saman við Khabib Nurmagomedov og telja margir að hann geti fetað í fótspor Khabib. Það er þó enn langur vegur framundan fyrir Chimaev en byrjunin lofar vissulega góðu.

Líf Chimaev hefur líka breyst síðan hann kom í UFC í júlí. Nú er hann talsvert þekktari og hefur hann fengið vel í aðra hönd. Ef við gefum okkur að Chimaev hafi fengið hefðbundinn samning við UFC fyrir fyrstu tvo bardaga sína hefur hann fengið 12.000 dollara fyrir að mæta og aðra 12.000 dollara fyrir að vinna hvorn bardaga. Chimaev hefur unnið báða bardaga sína og fengið 50.000 dollara frammistöðubónus eftir báða sigra sína. Hann fékk því 148.000 dollara (23,8 milljónir ISK) á aðeins 10 dögum í júlí.

Það verður áhugavert að sjá hvernig þetta mun spilast og hvort Chimaev fari alla leið á topp 10 í veltivigtinni með sigri á Demian Maia. Það væri lygileg uppsveifla á svo skömmum tíma.

Chimaev mætir Meerschaert á UFC bardagakvöldinu á laugardaginn en í aðalbardaga kvöldsins mætast þeir Colby Covington og Tyron Woodley.

Pétur Marinó Jónsson
Pétur Marinó Jónssonhttps://www.mmafrettir.is
Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Viaplay
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

- Advertisment -

Most Popular