spot_img
Wednesday, January 22, 2025
Minigarðurinnspot_imgspot_imgspot_img
HomeForsíðaNýr eigandi - nýir tímar

Nýr eigandi – nýir tímar

Jón Kristófer (til vinstri) og Pétur Marinó (til hægri).

Eins og lesendur hafa eflaust tekið eftir hefur virknin hér á vefnum farið niður á við á undanförnum árum. Slíkt gerist með hækkandi aldri, barneignum og öllu sem fylgir lífinu. Virknin mun þó breytast á næstu vikum enda nýir tímar framundan.

Ég hef í dágóðan tíma hugsað um að hætta algjörlega með þennan vef. Ég íhugaði það 2021 en ákvað þess í stað að bæta við fleiri pennum og reyna að halda stöðugri virkni. Það dugði skammt og má helst kenna um eigið áhugaleysi. Ástríðan fyrir þessum vef sem var svo mikil í byrjun var einfaldlega ekki til staðar lengur. Ég var bara að gera greinar af skyldurækni frekar en af ánægju.

Nú eru hins vegar breyttir tímar framundan enda er ég búinn að selja vefinn og öllu því sem fylgir. Kaupandinn er Jón Kristófer Fasth og mun hann alfarið taka yfir vefinn. Jón er einn af tríóinu í Fimmtu lotunni. Hlaðvarpið hóf göngu sína fyrr á árinu og hefur fyllt í skarðið sem Tappvarpið hefur skilið eftir sig eftir að þættirnir urðu færri og lengra leið á milli þátta.

Ég er mjög glaður að setja vefinn í hendur Jóns. Ég hef mikla trú á að hann geti endurlífgað vefinn í fyrra horf og gert enn betur. Það er margt hægt að gera í umfjöllun um bardagaíþróttir á Íslandi og hef ég tröllatrú á að Jón muni skila frábærri vinnu fyrir ykkur lesendur.

Til þess að vefurinn gangi þá þarf augu aftur á vefinn. Ég vil því biðja ykkur lesendur góðir, að muna eftir mmafrettir.is þegar þið takið ykkar daglega netrúnt. Þið munuð ekki koma að tómum kofanum þar eins og hefur verið á síðustu árum. Það verður fullt af spennandi efni á vefnum og mikil virkni.

Gunnar Nelson

Þetta hefur einfaldlega verið frábær tími frá því ég stofnaði vefinn í október 2013. Á þessum tíma hef ég skrifað 5.499 greinar. Ekki voru allar greinarnar langar eða flóknar, en það var fátt skemmtilegra en að setja grein í loftið sem maður var stoltur af. Það var svo mikil spenna hjá manni að sjá hvernig undirtektirnar myndu verða þegar grein fór í loftið en undir lokin var þessi spenna alveg horfin. Þá er kominn tími til að láta aðra sjá um þetta. Á heildina birti vefurinn 6.272 greinar á tíma mínum sem ritstjóri og eigandi vefsins.

Það sem stendur helst upp úr frá þessum tíma er auðvitað upprisa Gunnars Nelson og framganga hans í UFC. Að flytja fréttir, fræða og upplýsa íslenska MMA áhugamenn (og aðra sem vita ekkert um íþróttina) um hans vegferð hefur verið það allra skemmtilegasta við þetta allt saman. Það var svo ótrúlega skemmtilegt að fylgjast með þessu ferðalagi hans og sjá hvað hann hefur náð lygilega langt miðað við að vera einhver strákur frá Íslandi.

Sunna Rannveig
Mynd: Kjartan Páll Sæmundsson.

Það hefur líka verið ótrúlega skemmtilegt að flytja fréttir af öðru íslensku bardagafólki. Sunna Rannveig er algjör brautryðjandi og mun alltaf skipa stóran sess í íslenskri íþróttasögu fyrir að vera fyrsta íslenska konan til að berjast í MMA. Og hún var ekkert bara sú fyrsta, hún varð Evrópumeistari í MMA og BJJ og komst alla leið í Invicta! Það var gríðarlega gaman að fylgjast með hennar bardögum og árangri.

Ég finn það núna að ég gæti endalaust haldið áfram að þakka bardagafólkinu okkar og hvað það hefur verið gaman að flytja fréttir af þeim. Kolbeinn Kristinsson, atvinnumaður í boxi, er enn ósigraður og var alltaf einn af hápunktunum þegar hann var að berjast. Hann var líka frábær spámaður sem alltaf var hægt að leita til þegar kom að stórum bardögum í UFC (og var oft ansi sannspár!). Sama má segja um Valgerði, hún er eins og Sunna algjör frumkvöðull og brautryðjandi, í gríðarlega erfiðum heimi sem eina íslenska konan sem er atvinnukona í boxi. Það var mjög gaman að sjá hvað hún hefur náð langt á ótrúlegri eljusemi.

Bjarki Þór Pálsson, Bjarki Ómarsson, Magnús Ingi, Egill Øydvin, Björn Lúkas, Diego og fleiri og fleiri sem hefur verið ótrúlega gaman að fylgjast með leggja allt í sölurnar til að ná sem lengst í MMA. Ég er örugglega að gleyma einhverjum en þessir nýju bardagamenn hafa ekki fengið þá athygli sem þeir eiga skilið hér á þessum vef. Það mun breytast núna með nýjum eiganda!

Það var líka mjög gaman að taka þátt í Rondu æðinu og Conor æðinu. Á augabragði urðu þau tvö risastór nöfn í íþróttamenningunni og var sérstaklega gaman að Conor ætti þessa Íslands tengingu. Það verða alltaf skemmtilegar minningar sama hvernig sá írski hagar sér í komandi framtíð.

Mynd: Kjartan Páll Sæmundsson.

Ég gæti haldið endalaust áfram en þarf að stoppa einhvers staðar. Þetta verður síðasta greinin mín á mmafrettir.is. Tappvarpið er líka búið í þeirri mynd sem það er núna og svo er ég hættur að lýsa UFC nema eitthvað mjög sérstakt komi upp.

Ég vil þakka öllum lesendum fyrir að nenna að lesa efnið á vefnum, hlusta á Tappvarpið, horfa á myndböndin og bara gefið þessum miðli eitthvað smá vægi. Án ykkar væri enginn vefur! Vona að þið haldið áfram að lesa, hlusta og horfa á efnið frá miðlinum með nýjum ritstjóra.

Ég kann ekkert að forrita og hefði þessi vefur aldrei farið í loftið án vefstjórans, Sigurjóns Viðars Svavarssonar. Hann setti upp vefinn frá A til Ö á sínum tíma og hefur alltaf brugðist vel við þegar ég hef suðað í honum að breyta einhverju. Takk Sjonni! Auk þess fá þeir Óskar Örn og Guttormur Árni stórar þakkir fyrir að nenna að skrifa greinar með mér frá upphafi vefsins.

Mynd: Kjartan Páll Sæmundsson.

Haraldur Dean Nelson og Jón Viðar Arnþórsson að fá stórar þakkir frá mér fyrir að veita mér frábær viðtöl og fréttaupplýsingar. Snorri Barón og Henry Birgir fyrir hagnýt ráð og frábæra samvinnu. Snorri Björns, Ásgeir Marteins og Kjartan Páll fyrir frábærar myndir. Allir sem hafa nennt að skrifa greinar fyrir vefinn, Finnbogi Þór fyrir að hafa hannað lógó og útlit vefsins á sínum tíma og svo gæti ég lengi talið. Er örugglega að gleyma einhverjum og biðst velvirðingar á því! Mig langar bara að segja takk!

Það sem tekur við hjá mér er bara pabbast og lúðast eitthvað. Í dag vinn ég sem verkefnastjóri markaðsmála hjá Opna háskólanum í HR en því starfi tók ég við í ágúst eftir frábæran tíma í Mjölni. Ég hlakka til að lesa vefinn sem almennur lesandi og get ekki beðið eftir að sjá hvað Jón gerir með þetta litla verkefni sem hófst 7. október 2013.

Kv. fyrrum ritstjóri MMA Frétta, Pétur Marinó.

spot_img
spot_img
spot_img
Pétur Marinó Jónsson
Pétur Marinó Jónssonhttps://www.mmafrettir.is
Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Viaplay
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

spot_img
spot_imgspot_imgspot_imgspot_img

Mest Lesið