Tuesday, July 16, 2024
Minigarðurinnspot_imgspot_imgspot_img
HomeErlentÓkyrrð hjá stærstu stjörnum UFC

Ókyrrð hjá stærstu stjörnum UFC

Á síðustu vikum höfum við séð stór nöfn í MMA heiminum lýsa opinberlega yfir óánægju sinni með laun sín hjá UFC. Málefnið er ekki nýtt af nálinni en sjaldan hafa svo mörg stór nöfn tjáð sig á sama tíma um launamál.

Jon Jones, Jorge Masvidal, Henry Cejudo og Conor McGregor eru allt stór nöfn í MMA heiminum. Allir hafa þeir lýst yfir óánægju sinni með UFC en þó af ólíkum ástæðum.

Conor McGregor „hætti“ og lýsti því yfir að UFC væri ekki að bjóða sér nógu spennandi bardaga. Jon Jones vill mæta Francis Ngannou í þungavigt en bara ef hann fær hærri upphæð heldur en hann myndi fá fyrir sína venjulegu titilbardaga. Jorge Masvidal missti af titilbardaga gegn Kamaru Usman þar sem hann vildi fá betur borgað. Henry Cejudo lagði hanskana á hilluna eftir sigur á Dominick Cruz en Cejudo var svekktur með niðurstöðu samningaviðræðna við UFC fyrir titilvörnina. Cejudo vildi fá borgað „eins og þungavigtarmaður“ en UFC var ekki á sama máli.

UFC hefur margoft áður verið í sömu sporum með stór nöfn en sennilega aldrei með svona mörg stór nöfn á sama tíma. Yfirleitt er þetta einn bardagamaður en núna eru þrjú mjög stór nöfn (Conor, Masvidal og Jones) sem ætla ekki að berjast.

Þetta eru áhugaverðir tímar fyrir opinberar samningaviðræður við UFC. UFC var fyrsta stóra íþróttadeildin í Bandaríkjunum til að snúa aftur í kórónaveirufaraldinum. Endeavor (áður WME-IMG), eigendur UFC, standa ekki vel eftir kórónaveiruna. Endeavor er ein stærsta viðburðar- og umboðsskrifstofa heims en nánast allt var stopp hjá þeim um langt skeið vegna kórónaveirunnar. UFC er gullkálfurinn þeirra núna og heldur áfram að þéna á meðan aðrar eignir Endeavor skila litlu þessa dagana í Bandaríkjunum.

Endeavor þarf tekjurnar nauðsynlega og fær þær á meðan UFC heldur bardagakvöld á ESPN. UFC fær 150 milljónir dollara á ári frá ESPN og þarf að uppfylla ákveðinn fjölda af bardagakvöldum til að fá allar 150 milljónirnar. Það er því ekki eins mikil pressa á UFC að vera með stór nöfn á Pay Per View kvöldunum þar sem UFC fær ákveðna upphæð frá ESPN sama hve margir kaupa Pay Per View-ið.

ESPN er samt samstarfsaðili UFC og þeir vilja sjá stærstu nöfnin til að fá sem mest áhorf. Það skiptir því ESPN mjög miklu máli að stjörnur eins og Jon Jones, Jorge Masvidal og Conor McGregor berjist.

Dana White UFC 231
Dana White.

Bardagamennirnir vilja einfaldlega meira og vilja stærri hluta af kökunni. Hlutfall launa leikmanna af tekjum hjá NBA, NFL og MLB deildunum nálgast 50% en hlutdeild launa MMA bardagamanna í UFC hefur verið í kringum 20% af heildar tekjum UFC undanfarin ár.

UFC hefur haldið launakostnaði niðri og notaði það sem gulrót fyrir mögulega fjárfesta á sínum tíma. Dana White talaði um á fyrirlestri fyrir MBA nemendur við Stanford háskóla að lykillinn að velgengni UFC sé að halda bardagamönnum hungruðum: „Í boxinu sjáum við tvo milljónamæringa stíga í hringinn og gera allt sem þeir geta til að forðast að berjast. Við sköpum hvata fyrir bardagamennina svo þeir berjist,“ sagði Dana White. Frammistöðubónusar (eins og 50.000 dollarar fyrir rothögg kvöldsins) og sú staðreynd að flestir bardagamenn fá 50% af launum sínum fyrir að mæta og hin 50% bara ef þeir vinna er svo sannarlega hvati fyrir bardagamenn UFC. Þannig hefur þetta alltaf verið hjá UFC og ólíklegt að það breytist á næstunni.

Opinberlega hefur Dana White ekki miklar áhyggjur af óskum Masvidal og Jon Jones. „Allir vilja meiri pening,“ sagði hann um síðustu helgi. Dana sagði auk þess að hann neyðir engann til að berjast og bardagamenn geta gert það sem þeir vilja. En vandamálið er að Masvidal og Jones geta ekki gert hvað sem þeir vilja því þeir geta bara barist (og þannig fengið borgað) í UFC. Þó Masvidal og Jones séu óháðir verktakar eru þeir á samningi við UFC og mega einungis berjast hjá UFC.

Dana White hefur líka bent á að heimurinn sé í miðjum faraldri og eru allir að finna fyrir efnahagslegum áhrifum faraldsins. Dana stærði sig af því á dögunum að UFC hefði ekki þurft að segja upp neinum starfsmönnum og að þeir hefðu getað staðið við alla samninga. Enginn bardagamaður eða starfsmaður þurfti að taka á sig launalækkun þrátt fyrir lægri tekjur hjá UFC.

Það bendir til að bardagamennirnir hafi ekki verið að þéna nóg ef UFC á ekki í vandræðum með að greiða laun þeirra nú þegar tekjur UFC hafa minnkað að mati Domonique Foxworth. Foxworth er fyrrum NFL leikmaður með gráðu frá Harvard og var formaður NBA leikmannafélagsins en hann var gestastjórnandi í þætti á ESPN á dögunum.

Samningar UFC eru frekar einhliða. Samningar við bardagamenn eru óháðir tíma en það eina sem UFC þarf að gera til að samningurinn standi er að bjóða þrjá bardaga á ári.

Þetta sama vandamál bardagamanna er nú að blossa upp enn einu sinni. Jon Jones hefur verið mjög virkur á samfélagsmiðlum og tjáð sína skoðun. Hann ber saman laun sín fyrir síðustu bardaga sína og laun Deontay Wilder þegar hann tapaði fyrir Tyson Fury. Wilder er sagður hafa fengið 30 milljónir dollara fyrir bardagann en Jones fær 5-8 milljónir (500.000 dollara uppgefið fyrirfram, restin bónusar tengdir Pay Per View sölu) fyrir sína bardaga. Þess má geta að Jones er besti bardagamaður heims og mögulega sögunnar að mati Dana White.

Til að eitthvað breytist þarf eitthvað stórt að gerast. Lengi hefur verið talað um að skapa verkalýðsfélag bardagamanna en samkvæmt The Athletic vilja 80% bardagamanna sjá þannig félag verða til. Nokkrar tilraunir hafa verið gerðar til að stofna slík félög en aldrei hefur slíkt félag náð neinum meðbyr. Bardagamenn eru hræddir um að vera settir út í kuldann hjá UFC og þannig mögulega sóa dýrmætum tíma á toppi ferilsins. Oftast eru þetta ekki stærstu nöfnin sem tala fyrir slíku félagi heldur þeir sem eru í miðjumoðinu og þéna mun minna en Jones, Masvidal og Conor.

Ef einhvern tímann er tími til að fara í róttækar aðgerðir þá er það núna. Félag bardagamanna sem stendur vörð um réttindi bardagamanna verður að gerast. Masvidal og Jones gætu spilað stórt hlutverk þar til að skapa alvöru þrýsting á UFC. Þeir ættu að geta leitt hesta sína sama enda með sama umboðsmann.

Stóru nöfnin vilja sjá breytingar en hvað ætla þeir að gera til að sjá breytingar? Oftast endar þetta þannig að Jones og Masvidal fá það sem þeir vilja án þess að þetta hafi nokkur áhrif á þá sem eru neðar í stiganum.

Við höfum séð þetta áður. Randy Couture, Georges St. Pierre, Conor McGregor og fleiri hafa verið ósáttir en alltaf leysir UFC þetta með nýjum samningi og ekkert breytist.

Þó Jorge Masvidal hafi verið tilbúinn að sitja á kantinum og ekki berjast þá var Gilbert Burns til í bardaga. Burns mætir Usman í sumar og er örugglega mun ódýrari en Masvidal. Það er alltaf einhver sem er tilbúinn að stíga inn og hjálpa UFC því allir vilja berjast. UFC-vélin heldur áfram að rúlla, bardagamennirnir standa ekki saman og ekkert breytist.

Það verður áhugavert að sjá hversu lengi Masvidal, Conor og Jones sitja á hliðarlínunni og hversu mikinn þrýsting ESPN setur á UFC að afgreiða málin. Það verður sennilega ekki mikil gleði hjá ESPN ef öll bardagakvöldin líta út eins og bardagakvöldið á laugardaginn.

Í hvert sinn sem launamál bardagamanna koma upp verður umræðan hávær í skamma stund en svo hverfur hún og ekkert breytist. Hvað þarf að gerast til að hlutirnir breytist raunverulega og mun eitthvað gerast í þetta sinn?

Heimildir:

Bloomberg
Bloody Elbow
Sport Business

Pétur Marinó Jónsson
Pétur Marinó Jónssonhttps://www.mmafrettir.is
Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Viaplay
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

- Advertisment -spot_img

Most Popular