spot_img
Saturday, December 21, 2024
Minigarðurinnspot_imgspot_imgspot_img
HomeErlentÓskalisti Óskars: 10 bardagar sem við viljum sjá árið 2017

Óskalisti Óskars: 10 bardagar sem við viljum sjá árið 2017

Árið 2016 var rosalegt ár fyrir MMA, troðfullt af eftirminnilegum atvikum og miklum vonbrigðum. Beltin héldu áfram að skiptast um hendur og nýjar stjörnur fæddust í beinni útsendingu. Hér skoðum við tíu bardaga sem við viljum sjá þessu ári.

Conor McGregor sló öll Pay Per View met og varð meistari í tveimur þyngdarflokkum í einu. Hið ótrúlega gerðist þegar Michael Bisping rotaði Luke Rockhold og náði sér í titilinn í millivigt. Amanda Nunes slátraði Mieshu Tate og Rondu Rousey og Gunnar Nelson átti frábæran bardaga gegn hinum hættulega Albert Tumenov. Cody Garbrandt og Stipe Miocic áttu líka magnað ár en nú er kominn tími til að líta fram á við.

Í fyrra gerðum við sambærilegan lista en fengum bara tvo af tíu bardögum sem við óskuðum eftir. Vonandi rætast fleiri óskir í ár en það er samt erfitt að kvarta undan síðasta ári. Vindum okkur í þetta.

10. Joanna Jedrzejczyk gegn Jessica Andrade

Joanna Jedrzejczyk er búin að sigra Claudiu Gadelha í tvígang, búin að afgreiða Karolinu Kowalkiewicz og Carla Esparza. Rose Namajunes tapaði fyrir Kowalkiewicz og Tecia Torres tapaði fyrir Rose Namajunes. Á meðan er Jessica Andrade búin að vinna tvo stóra bardaga í röð gegn erfiðum andstæðingum og hún hefur litið út eins og algjört naut með hraðar og þungar hendur og er seig í gólfinu. Hún gæti valdið meistaranum verulegum vandræðum og við viljum sjá það.

9. Robbie Lawler gegn Donald Cerrone

Við fengum þennan bardaga í svona sólarhring á UFC 205 í fyrra áður en Robbie Lawler ákvað að hætta við. Lawler vildi lengri tíma til að jafna sig eftir rothöggið gegn Tyron Woodley en hugsanlega gætum við fengið þennan bardaga í ár. Þetta eru tveir af allra skemmtilegustu bardagamönnunum í veltivigtinni og væri hrein unun að sjá þá mætast.

8. Amanda Nunes gegn Julianna Pena

Ljónynjan Amanda Nunes kom sá og sigraði á síðasta ári en nú þarf hún að verja beltið. Síðar í þessum mánuði berjast þær Julianna Pena og Valentina Schevchenko og sigurvegarinn ætti að fá að næsta tækifæri gegn Nunes. Nunes og Schevchenko börðust í mars í fyrra og því væri gaman að sjá Pena sigra Schevchenko svo við fáum nýjan bardaga. Pena gæti skort reynslu til að sigra þessar tvær en það verður að koma í ljós.

7. Stipe Miocic gegn Cain Velasquez

Það vantar smá neista í þungavigt en þessi bardagi gæti kveikt lítið bál. Fabricio Werdum er búinn að berjast við Miocic og Cain Velasquez en nú er kominn tími til að þeir fái að mætast, þ.e. ef Velasaquez nær að halda sér heilum. Hann er nýkominn úr skurðaðgerð en vonandi gæti þessi bardagi orðið að veruleika á seinni hluta ársins.

6. Gunnar Nelson gegn Neil Magny

Gunnar barðist bara einu sinni á síðasta ári og okkur er farið að hungra í meira. Margir eru vonast eftir að hann verði á London kvöldinu í mars og draumaandstæðingurinn yrði Neil Magny. Hann er númer átta á styrkleikalista UFC og væri mjög skemmtilegur stíll fyrir Gunnar. Magny var að næla sér í góðan sigur gegn Johny Hendricks í desember og er ekki með bókaðan bardaga.

5. José Aldo gegn Max Holloway

Í fjarveru Conor McGregor er bara einn bardagi sem hreinlega verður að setja saman í fjaðurvigt. Max Holloway er búinn að ryðja sér leið á toppinn og er auk þess kominn með bráðabirgðarbelti um mittið. Bardagi á milli hans og meistarans, José Aldo, er gjörsamlega heillandi. Eina spurningin er hvort að Aldo sé á leið léttvigt að elta Conor eins og orðrómur hefur verið um.

4. Tyron Woodley/Stephen Thompson gegn Demian Maia

Tyron Woodley og Stephen Thompson munu berjast í annað sinn á UFC 209. Það hefði mátt færa rök fyrir því að Demian Maia fengi tækifærið en þar sem það gekk ekki eftir finnst okkur að hann verði að vera næstur í röðinni. Sama hver vinnur UFC 209 bardagann verður viðureign gegn Maia alltaf heillandi og það væri mjög gaman að sjá Maia enda ferilinn sem meistari.

3. Cody Garbrandt gegn T.J. Dillashaw

Eftir stórkostlega sigra beggja manna á UFC 207 var augljóst að þessi bardagi þyrfti að gerast sem allra fyrst. Báðir litu svo frábærlega út að það er vonlaust að spá fyrir um hver myndi sigra þennan bardaga. Það besta er að það eru illdeilur á milli þeirra og nokkuð djúp forsaga. Tvennt gæti fljótt á litið komið í veg fyrir bardagann. Í fyrsta lagi gæti Dominick Cruz fengið annað tækifæri gegn Garbrandt, annað eins hefur nú gerst. Í öðru lagi virðist Garbrandt vilja stærsta bardagann og mestu peningana og hver veit hvernig það endar.

2. Jon Jones gegn Anthony Johnson

Það er búið að reyna nokkrum sinnum að setja saman annan bardaga á milli Jon Jones og Daniel Cormier. Við erum eiginlega búnir að gefast upp. Daniel Cormier virðist alltaf vera meiddur og það styttist í endurkomu Jones. Væri ekki gaman að sjá hann í ferskum bardaga gegn Anthony ‘Rumble’ Johnson? Jones er bestur en Johnson getur rotað alla með réttu höggi. Það er ávísun á spennandi bardaga.

1. Conor McGregor gegn Khabib Nurmagomedov

Conor McGregor er kóngurinn í léttvigt og hans stærsta áskorun í þyngdarflokknum virðist vera ósigraði Rússinn Khabib Nurmagomedov. Allt stefnir í að Nurmagomedov berjist við Tony Ferguson fljótlega og sigurvegarinn ætti að fá næsta tækifæri til að berjast um titilinn. Báðir bardagar væru spennandi en allir vilja sjá Khabib bardagann. Getur McGregor haldið Rússanum frá sér og rotað hann? Getur Nurmagomedov haldið Íranum niðri og látið höggin dynja á honum? Við viljum vita svarið.

spot_img
spot_img
spot_img
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

spot_img
spot_img

Most Popular