Í kvöld fer fram eitt stærsta bardagakvöld ársins. Conor McGregor og Nate Diaz mætast í aðalbardaga kvöldsins og getum við varla beðið eftir fjörinu. Líkt og fyrir öll stóru bardagakvöldin birta pennar MMA Frétta sína spá.
Veltivigt: Conor McGregor gegn Nate Diaz
Pétur Marinó Jónsson: Þetta er svo geggjaður bardagi og ekki út af einhverju flöskukasti og vitleysu. Þetta er bara svo áhugaverður bardagi milli tveggja spennandi bardagamanna. Það eru svo margar spurningar sem maður hefur fyrir þennan bardaga. Hvers konar leikáætlun ætlar Conor að koma með? Hefur hann lært af tapinu? Getur hann verið þolinmóður og haldið ró sinni þó Diaz sýni honum fingurinn? Er hann með tankinn til að halda í við Diaz í fimm lotur ef þess þarf? Getur Diaz endurtekið leikinn síðan síðast? Svona gæti ég haldið endalaust áfram.
Það hafa margir sentimetrarnir verið skrifaðir um þennan bardaga og hver sé inn í hausnum á hverjum. Persónulega held ég að fólk sé að leggja allt of mikla merkingu í einhverja nokkurra sekúndna hljóðbúta og myndbönd. Ég held að það sé mikil staðfestingarskekkja þegar kemur að því og eigum við til að gleyma þegar X bardagamaður var í hausnum á andstæðingnum en tapaði samt. En nóg um það.
Ég held að Conor sé sérstakur bardagamaður, meira en bara eitthvað hype og góð bein vinstri. Þess vegna held ég að hann komi fáranlega sterkur og hungraður til leiks með góða leikáætlun. Það er hægt að rota alla og þó Diaz sé með sterka höku þá er hann ekkert ódrepandi. Ég ætla samt að giska á að Conor taki þetta á stigum eftir fimm lotur í frábærum bardaga.
Guttormur Árni Ársælsson: Það virðast flestir spá Nate Diaz sigri og sem dæmi spá langflestir atvinnumenn í UFC því að Diaz sigri einnig seinni bardagann. Þeir hafa þó ekki alltaf rétt fyrir sér en sem dæmi spáðu 8 af 10 aðspurðum José Aldo sigri gegn Conor McGregor fyrir bardaga þeirra. Ég held að Conor eigi góðan möguleika á að vinna þennan bardaga og það er klárt blueprint fyrir því hvernig maður sigrar Diaz. Conor verður að vera þolinmóður og tilbúinn að sigra á stigum. Ef hann kemur inn eins og seinast, headhunting, og ætlar sér að klára Nate býst ég við því að hann tapi aftur. Ég hef trú á því að Conor sé klárari en það og að hann sigri Nate Diaz á stigum í skemmtilegum bardaga þar sem við sjáum mun passívari og varkárari Conor en við höfum áður séð.
Óskar Örn Árnason: Í mínum huga er þetta 50/50 bardagi, nánast vonlaust að spá. Samt sem áður hallast ég að Conor. Ég held að Nate verði ekki mikið breyttur en held að hins vegar að Conor nái að læra af mistökum sínum og aðlagast. Hann verður að sýna þolinmæði, láta Nate koma til sín, svara með gagnhöggum og sparka framfótinn undan honum. Conor sigrar, TKO í 4. lotu.
Brynjar Hafsteins: Ég get ómögulega ákveðið mig en ég hallast að McGregor. Ég sé Diaz geta unnið þennan bardaga líka. Þetta er það sem er gaman við MMA, tveir mjög hæfir bardagamenn og þú veist eiginlega ekkert hvernig þetta mun fara. Ef Conor breytir um plan og verður meira passívur þá getur hann unnið þennan bardaga en hann vinnur ekki eitthvað brawl held ég. Þetta fer rosalega eftir því hvernig bardaginn spilast. McGregor eftir dómaraúrskurð.
Sigurjón Viðar Svavarsson: Þvílík veisla, líður eins og það séu komin jól. Báðir eru í miklu uppáhaldi hjá mér en ég held aðeins meira með Conor í þessum bardaga. Erfitt að spá fyrir hver vinnur, Nate mun að mínu mati reyna áfram með það sem hann gerði síðast, vera stærri og þyngri. Hann mun reyna þreyta Conor og útboxa hann. Gæti líka reynt meira að ná honum í jörðina. Conor þarf að passa sig í að setja ekki 110% í öll höggin og reyna að rota hann strax. Held að hans besta plan sé að pressa Nate en ekki over commita á neitt fyrr en Nate er kominn í jörðina. Þetta er einn af bardögum ársins og ég hreinilega get ekki beðið. Conor vinnur þetta á dramatísku TKO í 4. lotu.
Conor McGregor: Pétur, Guttormur, Óskar, Brynjar, Sigurjón.
Nate Diaz: …
Léttþungavigt: Anthony Johnson gegn Glover Teixeira
Pétur Marinó Jónsson: Geggjaður bardagi sem alltof lítið hefur verið skrifað um hér. Glover Teixeira á góðan séns að vinna ef hann lifir af fyrstu lotuna. Ef hann gerir það sé ég fyrir mér Teixeira klára hann í gólfinu í 3. lotu. En, ég held þó að þetta verði fáranlega skemmtilegt bardagakvöld með flottum tilþrifum og mun Anthony Johnson hlaða í eina góða bombu í 1. lotu, KO.
Guttormur Árni Ársælsson: Rumble Johnson er fáránlega höggþungur og ég spái því að hann roti Teixeira í fyrstu lotu.
Óskar Örn Árnason: Það virðist vera lítil spenna fyrir þessum sem ég skil ekki alveg. Johnson og Teixeira eru tveir tortímendur sem slátra öllum í léttþungavigt utan topp 5. Rumble gæti hæglega rotað Teixeira í fyrstu lotu en ég held að Glover lifi af, þreyti Johnson og klári hann með uppgjafartaki í þriðju lotu.
Brynjar Hafsteins: Ef það væri bara 1. lota í MMA þá væri Rumble örugglega meistari en tankurinn hans er ekki stærri en það. Glover er nógu teknískur til þess að halda þessu í 3. lotur og gæti hæglega sigrað bardagann þannig. Glover sigrar eftir dómaraúrskurð.
Sigurjón Viðar Svavarsson: Báðir eru þvílíkir naglar og með mjög mörg finish í 1. lotu. Rumble er örugglega einn hættulegasti maðurinn í dag í fyrstu lotunni. Gameplanið hjá Glover hlýtur að vera að koma sér úr 1. lotu og pressa svo Rumble eftir það. Rumble hefur samt mjög líklega tekið það í gegn eftir bardagann á móti Cormier þó bardagarnir eftir það hafa verið stuttir. Þetta á eftir að vera slugfest. Mín tilfinning er að Glover nái ekki að stoppa hann og Rumble muni vinna á KO í 1 lotu.
Anthony Johnson: Pétur, Guttormur, Sigurjón.
Glover Teixeira: Óskar, Brynjar.
Veltivigt: Rick Story gegn Donald Cerrone
Pétur Marinó Jónsson: Gríðarlega áhugaverður bardagi líka. Held mikið upp á báða bardagamenn og langar að sjá hvorugan tapa. Rick Story er svo mikil vél, það er erfitt að stoppa hann og hann veður alltaf áfram í gegnum eld og brennistein. Ég tippa á að Rick Story sigri eftir dómaraákvörðun í hörku bardaga.
Guttormur Árni Ársælsson: Rick Story er dark horse í öllum sínum bardögum. Náungi sem hefur sigrað menn eins og Thiago Alves, Johny Hendricks og Gunnar Nelson en virðist samt aldrei fá neitt credit. Hann er erfitt match-up fyrir flesta og ég held að hann sigri Cowboy óvænt á morgun.
Óskar Örn Árnason: Annar tvísýnn bardagi. Cerrone leit frábærlega út á móti Patrick Coté en Story gæti orðið önnur…. saga. Veikleiki Cerrone hefur oft á tíðum verið skrokkhögg en þar liggur einmitt styrkleiki Story. Ég spái því vinstri krók í lifrina í 1. lotu. Story sigrar, TKO.
Brynjar Hafsteins: Þetta er svakalegur bardagi. Story hættir ekki og er góður wrestler. Cowboy er þó mun betri striker. Spurning hvort Story nái að pressa nógu mikið á Cowboy og fari í fellurnar. Cowboy sigrar samt í 2. lotu með TKO.
Sigurjón Viðar Svavarsson: Fyrst þegar ég fór að pæla í þessum bardaga fannst mér líklegt að Story myndi taka þetta auðveldlega. Eftir vigtunina í gær er ég meira óviss. Cerrone er svipað stór ef ekki stærri en Story. Gameplanið hjá Story verður líklega að pressa Cerrone og ná honum niður þar sem hann mun grinda hann í dómaraákvörðun. Cerrone mun halda honum fyrir utan, nota legkicks og body shoots til að hægja á Story. Ég ætla samt að segja að Story vinnur þetta á dómaraákvörðun.
Rick Story: Pétur, Guttormur, Óskar, Sigurjón.
Donald Cerrone: Brynjar.
Veltivigt: Neil Magny gegn Lorenz Larkin
Pétur Marinó Jónsson: Greyið Neil Magny átti að mæta Dong Hyun Kim (sem er á topp 10) en fær þess í stað Lorenz Larkin sem er ekki á topp 15 styrkleikalistanum. Ekki misskilja mig samt, Larkin er frábær bardagamaður en sigur á honum gerir ekki eins mikið fyrir hann og sigur á Dong Hyun Kim myndi gera. Ég hef oft vanmetið Neil Magny en hann er klár og lunkinn bardagamaður. Tippa á sigur hjá Magny í 2. lotu eftir uppgjafartak.
Guttormur Árni Ársælsson: Neil Magny er á hraðri uppleið og sigrar Lorenz Larkin eftir einróma dómaraúrskurð í flottum bardaga.
Óskar Örn Árnason: Flestir hallast að Magny en það má ekki vanmeta Larkin. Ég ætla að taka sénsinn, segi að Larkin útboxi Magny, haldi sig frá gólfinu og sigri á stigum
Brynjar Hafsteins: Neil Magny er á góðu runni á meðan Larkin hefur verið að vinna einn og tapa einum. Magny hefur tólin til að sigra Larkin og vinnur eftir dómaraúrskurð.
Sigurjón Viðar Svavarsson: Synd að þessi bardagi sé á prelims. Larkin hefur ekki verið nógu stöðugur upp á síðkastið en er samt stórhættulegur. Magny sýndi það í bardagnum á móti Lombard að hann getur tekið við bombum og haldið áfarm. Magny er búinn að vera mjög sannfærandi eftir tapið á móti Maia og ég hallast að því að Magny muni vinna þennan bardaga á dómaraákvörðun.
Neil Magny: Pétur, Guttormur, Brynjar, Sigurjón.
Lorenz Larkin: Óskar.