spot_img
Sunday, December 22, 2024
Minigarðurinnspot_imgspot_imgspot_img
HomeErlentSpámaður helgarinnar: Hrafn Jónsson (UFC 199)

Spámaður helgarinnar: Hrafn Jónsson (UFC 199)

hrafn jónssonUFC 199 fer fram á morgun og verður bardagakvöldið ansi skemmtilegt. Hrafn Jónsson er spámaður helgarinnar en hann telur að Rockhold muni verja titilinn sinn.

Hrafn Jónsson er pistlahöfundur og grínari. Hrafn hefur fylgst með MMA frá árinu 2008 en hafði þar áður lengi fylgst með hnefaleikum. Gefum honum orðið.

PoirierGreen

Léttvigt: Dustin Poirier gegn Bobby Green

Þetta er kannski skemmtilegasti bardagi kvöldsins á pappírunum. Ég elska Bobby Green, það tengist því líklega að mín fyrsta ást í lífinu eru hnefaleikar og Bobby er frábær klassískur boxari. Hann notar philly shell tæknina stórkostlega, sem sagt hann notar öxlina á fremri höndinni til þess að rúlla höggum af sér líkt og Floyd Mayweather og Bernard Hopkins. Hann er líka með góðan glímugrunn sem hjálpar honum að koma í veg fyrir fellur. Dustin Poirier er sjálfur góður boxari og kannski með fjölbreyttari tól en Bobby. Það spilar einnig inn í að Poirier er örvhentur og að Bobby hefur verið frá keppni í meira en eitt og hálft ár vegna meiðsla.

Allt það litla vit sem ég hef segir mér að Dustin eigi að vinna þennan bardaga en ég ætla samt að elta hjartað og segja að Bobby Green vinni eftir klofinn dómaraúrskurð.

henderson lombard

Millivigt: Dan Henderson gegn Hector Lombard

Vá, þarna erum við komin með bardaga sem verður ótrúleg veisla í 90 sekúndur. Að þeim loknum verður annar hvor þessara manna rotaður eða þá að við þurfum að horfa upp á tvo gamla, úthaldslitla menn liggja á hvorum öðrum og kasta einstaka hægri bombum það sem eftir lifir bardagans. Hinn 38 ára Lombard er samt algjört unglamb við hliðina á Hendo sem verður 46(!) ára á árinu.

Þótt að Dan Henderson verði 150 ára getur hann samt rotað alla menn með hægri höndinni á sér, en ég held að þetta hljóti að vera búið núna. Ég held að Lombard roti Henderson í 1. lotu og gamli maðurinn segi þetta loksins gott. Eða þangað til að Bellator sannfærir hann um að berjast við Wanderlei Silva eða eitthvað álíka kjaftæði.

holloway-lamas

Fjaðurvigt: Max Holloway vs. Ricardo Lamas

Max Holloway er með svo óþægilega Twitter nærveru – ég held að það sé hans ótrúlega nána og innilega samband við Jesú krist. Ég meina, maðurinn er með notendanafnið og vörkumerkið BlessedMMA. Kannski er það bara mitt eigið óöryggi að tala.

Aumingja Holloway hlýtur að vera að spyrja sig: „Hvað þarf ég eiginlega að gera til þess að fá titilbardaga?“ Því átta sigrar í röð á móti erfiðum andstæðingum virðist ekki duga til. Hann er ósigraður síðan hann tapaði á móti sjálfum meistaranum, Conor McGregor, fyrir tæpum þremur árum og mun líklega þurfa að bíða enn lengur á meðan Conor ákveður hvað hann ætlar að gera við líf sitt. Lamas er auðvitað enginn aukvisi sjálfur. Hann vann góðan sigur á Diego Sanchez í vetur eftir að Chad Mendes hafði fullkomlega valtað yfir hann þar á undan.

Ég held að Jesú verði samt í horninu hans Holloway og hann sigri bardagann á rothöggi í 2. lotu.

Titilbardagi í bantamvigt: Dominick Cruz vs. Urijah Faber

Mikið er gott að vera kominn með Dominick Cruz aftur. Hann hefur þessa einstöku hæfileika til þess að hljóma bæði eins og snillingur og fáviti á sama tíma. Hann er eitursnjall og vel máli farinn en er samt alltaf að tala um hvað Faber sé lítill og með stutt á milli augnanna og stóra höku eins og hann sé 9 ára.

Þetta er þriðji bardaginn milli þessara erkifjenda og staðan 1-1. Fólk talar samt eins og Faber gamli eigi ekki séns, ég veit ekki hvort ég sé sammála því; þetta gæti orðið jafnari bardagi en maður heldur. Það er samt líklegt að hraði, úthald og ótrúleg fótavinna verði of mikið fyrir gamla hökuskarðið. Ég spái því að Cruz sigri eftir dómaraúrskurð eftir fimm lotur og að Faber fari í sögubækurnar fyrir að fá flesta titilbardaga í UFC án þess að fá belti.

rockhold bisping

Titilbardagi í millivigt: Luke Rockhold vs. Michael Bisping

Elsku Michael Bisping. Eftir öll þessi ár fær hann loksins titilbardaga og þá þarf það að vera svona; tveggja vikna fyrirvari á móti manni sem barði hann fullkomlega í plokkfisk fyrir einu og hálfu ári síðan. Bisping á ekki að vinna. Að því sögðu átti Bisping aldrei að vinna Anderson Silva. Ég fíla pínu þetta öskubuskuævintýri sem Bisping er búinn að breyta eigin ferli í. Þessi kjaftfori skarfur er einhvern veginn orðinn pínu sympatískur í ellinni. Svo er uppi orðrómur um að Rockhold sé meiddur í hnéi. Þannig að maður veit aldrei hvað gerist.

Jú, ég veit hvað gerist: Rockhold vinnur í þriðju. Tæknilegt rothögg.

spot_img
spot_img
spot_img
Pétur Marinó Jónsson
Pétur Marinó Jónssonhttps://www.mmafrettir.is
Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Viaplay
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

spot_img
spot_img

Most Popular