Monday, May 20, 2024
HomeErlent10 áhugaverðustu MMA bardagarnir í júní 2016

10 áhugaverðustu MMA bardagarnir í júní 2016

Það er komið sumar og nægar ástæður til að drífa sig í bústað eða tjaldútileigu eða eitthvað slíkt. Það eru hins vegar líka nægar ástæður til að halda sig heima og glápa á allt það dásamlega sem er framundan í MMA heiminum á næstunni.

Það verða tveir titilbardagar í UFC í júní og tveir í Bellator. Þó komst enginn af þeim fjórum í efsta sæti listans að þessu sinni sem er nokkuð óvenjulegt í mánuði þar sem hvorki Gunnar Nelson né Conor McGregor eru að berjast. Í UFC verða haldin tvö ágætis bardgakvöld sem verður að teljast rólegur mánuður þar á bæ. Í Bellator snýr Quinton ‘Rampage’ Jackson aftur gegn Satoshi Ishii og Matt Mitrione berst í fyrsta sinn í Bellator gegn Carl Seumanutafa. Rennum snöggvast yfir listann.

galvao dantas

10. Bellator 156, 17. júní – Marcos Galvao gegn Eduardo Dantas (bantamvigt)

Þessi bardagi átti að fara fram í febrúar en var frestað þegar Dantas meiddist. Galvao og Dantas mættust fyrst árið 2013 en þá var Dantas meistarinn og sigraði á rothöggi í annarri lotu. Nú hefur dæmið snúist við, Galvao er meistarinn og ver titilinn gegn Dantas.

Spá: Galvao nær fram hefndum og sigrar með uppgjafartaki í þriðju lotu.

henderson lombard

9. UFC 199, 4. júní – Dan Henderson gegn Hector Lombard (millivigt)

Dan Henderson hefur sýnt það og sannað að hann er tilbúinn að mæta hverjum sem er, hvenær sem er. Kallinn er orðinn 45 ára gamall en mætir enn einu sinni hættulegum rotara eins og ekkert væri eðlilegra. Fyrir Hector Lombard er þetta gott tækifæri til að næla sér í sigur gegn stóru nafni og koma sér á sigurbrautina eftir erfitt tap gegn Neil Magny.

Spá: Lombard stekkur á Henderson og rotar hann í fyrstu lotu.

Valerie-Letourneau-Joanne-Calderwood

8. UFC Fight Night 89, 18. júní – Valérie Létourneau gegn Joanne Calderwood (fluguvigt kvenna)

Þessi kvennabardagi er sögulegur en hann er fyrsti kvennabardaginn í UFC sem fer fram í fluguvigt. Fyrir utan það er þetta þrælspennandi bardagi á milli tveggja hörkukvenna. Valérie Létourneau barðist nýlega um titilinn í strávigt en þurfti að sætta sig við tap. Hér mætir hún Íslandsvinkonunni Joanne ‘JoJo’ Calderwood sem er stöðugt að bæta sig og hefði gott af sigri gegn stóru nafni eins og Létourneau.

Spá: Bardaginn verður jafn og spennandi en það verður að lokum Létourneau sem sigrar á stigum.

ChandlerVsPatricky

7. Bellator 157, 24. júní – Michael Chandler gegn Patricky Freire (léttvigt)

Þar sem Will Brooks hefur yfirgefið Bellator sem ríkjandi meistari verður barist um laust belti í júní. Michael Chandler og Patricky Freire börðust áður árið 2011 en þá sigraði Chandler á stigum. Nú hefur Chandler tækifæri til að endurheimta titilinn sem hann vann upphaflega af Eddie Alvarez og tapaði tveimur árum síðar gegn…..Eddie Alvarez.

Spá: Chandler rotar Freire í þriðju lotu.

PoirierGreen

6. UFC 199, 4. júní – Dustin Poirier gegn Bobby Green (léttvigt)

Hér er á ferðinni mjög áhugaverður bardagi í léttvigt sem hefur farið lítið fyrir. Dustin Poirier og Bobby Green hafa báðir tækifæri til að tryggja sér sæti í topp tíu í þyngdarflokknum með sigri. Stílarnir eru mjög ólíkir en báðir vilja berjast standandi ef kostur er á. Green er hraðari og tæknilegri en Poirier er sennilega höggþyngri. Hver hefur betur?

Spá: Þetta verður tæpt en Poirier tekur þetta á stigum.

cerrone-cote

5. UFC Fight Night 89, 18. júní – Donald Cerrone gegn Patrick Cote (veltivigt)

Donald Cerrone berst hér í annað sinn í röð í veltivigt. Væri ekki gaman ef hann myndi berjast við okkar mann við tækifæri? Andstæðingurinn að þessu sinni, Patrick Cote, er ekkert grín. Hann er reynslubolti sem hefur aldrei verið betri en einmitt núna. Cote hefur sigrað sex af síðustu sjö bardögum, hann er höggþungur og með svart belti í júdó og jiu-jitsu.

Spá: Þetta verður harður bardagi en Cerrone fær sigurinn á spjöldum dómaranna.

holloway-lamas

4. UFC 199, 4. júní – Max Holloway gegn Ricardo Lamas (fjaðurvigt)

Þetta er einn af þessum frábæru stöðubaráttum en þessir kappar verma 4. og 5. sætið í fjaðurvigt. Ricardo Lamas hefur þegar barist um titilinn gegn José Aldo (og tapað) en vill ólmur fá annað tækifæri. Á sama tíma er Holloway hungraður í sitt fyrsta tækifæri og ætlar ekki að láta neitt stöðva sig. Þetta verður stríð.

Spá: Lamas berst af hörku en Holloway sigrar á tæknilegu rothöggi í annarri lotu.

rockhold bisping

3. UFC 199, 4. júní – Luke Rockhold gegn Michael Bisping (millivigt)

Allt getur gerst í MMA en það er erfitt að sannfæra sjálfan sig um að Michael Bisping eigi séns. Fyrsti bardaginn var mjög einhliða og Luke Rockhold er algjört skrímsli. Það verður samt gaman að sjá Bisping loksins berjast um titil þó svo að draumar hans verði nánast örugglega að engu.

Spá: Þetta verður svipað og síðast. Rockhold finnur rétta höggið og afgreiðir Bisping á gólfinu í annarri lotu.

2. UFC 199, 4. júní – Dominick Cruz gegn Urijah Faber (bantamvigt)

Dominick Cruz og Urijah Faber börðust fyrst árið 2007. Faber sigraði í það skipti en það er enn það dag í dag eina tapið á ferli Cruz í 22 viðureignum. Í öllum hinum hefur hann verið nær ósnertanlegur þó svo að flestir (13) hans bardagar hafi farið allar loturnar. Fyrir Faber þá er þessi bardagi sennilega síðasti séns til að krækja í UFC titil.

Spá: Cruz sigrar á stigum eða ég ét hattinn minn…ef ég ætti hatt.

Rory-MacDonald-thompson

1. UFC Fight Night 89, 18. júní – Rory MacDonald gegn Stephen Thompson (veltivigt)

Þessi bardagi er einn sá áhugaverðasti sem hægt er að setja saman í veltivigt um þessar mundir. Stephen ‘Wonderboy’ Thompson hefur litið hrikalega vel út undanfarið. Enginn hefur afgreitt Johny Hendricks eins og hann gerði á rúmum þremur mínútum. Thompson hefur nú sigrað sex bardaga í röð og er líklegur í titilbardaga sigri hann MacDonald – aðeins Demian Maia gæti komið í veg fyrir það. Rory MacDonald þarf ekki að kynna en síðan 2011 hefur hann unnið alla sína andstæðinga nema núverandi meistara, Robbie Lawler. Hér mætast mjög ólíkir stílar svo spurningin er hver nær að beita sínum stíl á hinn?

Spá: Thompson er erfið ráðgáta en MacDonald tekst að leysa hana með pressu, glímu og höggum á gólfinu. MacDonald sigrar á tæknilegu rothöggi í fjórðu lotu.

RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

- Advertisment -

Most Popular