Khamzat Chimaev hefur átt ótrúlega byrjun á ferli sínum í UFC. Annað eins hefur varla sést og er hann strax orðinn eitt heitasta nafnið í UFC í dag.
Khamzat Chimaev ferðaðist til Yas Island í sumar þar sem UFC hélt fjögur bardagakvöld á bardagaeyjunni. Hann var án bardaga en vonaðist eftir að geta stokkið inn með skömmum fyrirvara.
Það gekk heldur betur eftir en hann mætti John Phillips með aðeins átta daga fyrirvara. Eftir mjög sannfærandi sigur fékk hann annan bardaga á eyjunni aðeins 10 dögum síðar. Sá sigur var enn betri þar sem hann kláraði Rhys McKee með tæknilegu rothöggi í 1. lotu.
Með sigrinum í gær hefur hann unnið þrjá bardaga á 66 dögum. Enginn hefur unnið þrjá bardaga á jafn skömmum tíma og hann síðan Royce Gracie vann þrjá bardaga á einu kvöldi á UFC 1, 2 og 3.
Byrjun hans í UFC er hreinlega mögnuð:
196-2
Chimaev hefur lent 196 höggum í bardögunum þremur og aðeins fengið 2 högg í sig. Þessi 2 högg komu í fyrsta bardaganum gegn John Phillips.
9:38
Chimaev hefur eytt 9 mínútum og 38 sekúndum í UFC búrinu í bardögunum þremur. Það eru tæpar tvær lotur.
30 milljónir
Fyrir þessar rúmar níu mínútur hefur Chimaev fengið í kringum 222.000 dollara eða um 30 milljónir íslenskra króna. Chimaev hefur fengið þrjá frammistöðubónusa en hver bónus er 50.000 dollarar. Ágætis tímakaup hjá Chimaev.
611.000
Þegar Chimaev barðist fyrst í UFC í júlí var hann með um 36.000 fylgjendur á Instagram. Í dag er hann með 611.000 og er nú á allra vörum.
Chimaev fær væntanlega annan bardaga í október en það gæti verið gegn Demian Maia.