0

Þorgrímur Þórarinsson: Var tilbúinn í stríð

Þorgrímur Þórarinsson

Mynd: Sóllilja Baltasardóttir.

Þorgrímur Þórarinsson sigraði sinn fyrsta MMA bardaga á dögunum í Færeyjum. Bardaginn gekk nánast fullkomlega upp hjá Þorgrími og hefði þetta varla getað farið betur hjá honum.

Þorgrímur mætti Dananum Ola Jacobsson (2-2 fyrir bardagann) í veltivigt. Þorgrímur stjórnaði ferðinni allan tímann og kláraði svo Danann með höggum í gólfinu í 2. lotu. Þetta var hans fyrsti MMA bardagi en hvernig leið honum í búrinu?

„Það er erfitt að útskýra. Ég hafði búist við því að vera upptjúnaður og ör þegar ég kæmi í búrið, hafði heyrt marga segja að þetta væri mjög stressandi. Svo stóra markmiðið mitt fyrir þennan bardaga var að halda kúlinu og spila minn leik,“ segir Þorgrímur.

„Þegar ég kom inn í búrið var ég bara kominn í zone-ið, var tilbúinn í stríð. Þessi strákur hefði þurft að drepa mig til að stöðva mig, ég var í það góðum gír. Ég er mjög feginn að hafa tekið tónlistina með mér því hún hjálpaði mér að komast í gírinn sem ég þurfti að komast í. Ég labbaði svo inn við lagið Pursuit of Vikings með Amon Amarth sem fjallar um víkinga sem eru að sigla af stað í víking að vori. Þannig leið mér þegar ég var að labba inn.“

Þorgrímur virkaði tilbúinn frá fyrstu sekúndu bardagans og var ekki að sjá að þetta væri hans fyrsti MMA bardagi. „Ég var búinn að búa mig undir miklar tilfinningar og það kom mér á óvart hvað ég var rólegur alla vikuna.“

„Ég hafði verið í smá basli í undirbúningnum og tveimur vikum fyrir bardagann gat ég ekki lyft hendinni upp fyrir öxl. Það var því nóg af hlutum sem ég hefði getað panikað yfir en ég á svo góða þjálfara og liðsfélaga sem ég get spjallað við þegar mér líður ekki vel með eitthvað. Þeir hafa svo mikla reynslu í þessu en eftir gott spjall við þá er allur óróleiki farinn. Það er mikilvægt fyrir mig að hafa fólk í kringum mig sem ég treysti og get leitað til og sömuleiðis að geta hlustað og gefið góð ráð þegar aðrir eru í vandræðum. Þótt þetta sé einstaklingssport erum við mjög þéttur hópur og hugsum vel hvert um annað.“

„Ég hafði verið mjög rólegur alla vikuna og var í raun hissa hvað ég var lítið stressaður. Svo eftir vigtunina helltust yfir mig miklar tilfinningar svo ég lagðist upp í rúm á hótelinu og hlustaði á tónlist. Ég náði að beisla orkuna sem var að brjótast um innra með mér og beina henni mér í hag. Það var þá sem ég fann að ég var 100% tilbúinn.“

Þorgrímur Þórarinsson

Mynd: Sóllilja Baltasardóttir.

Í bardaganum komst Þorgrímur í „mount“ í 2. lotu og lét nokkur þung högg dynja á andstæðingnum. Jacobsen var fastur undir Þorgrími og stöðvaði dómarinn bardagann eftir nokkur vel valin högg hjá Þorgrími.

„Ég var bara einbeittur að því að picka höggin og láta hann finna fyrir þeim. Við erum búnir að spá mikið í ground and poundinu á æfingum og einbeitum okkur að því að vera ekki að drífa okkur heldur taka góða stöðu og negla svo þegar opnunin gefst. Ég hef horft mikið á ground and poundið hjá Gunna og Árni Ísaks er líka master í því svo ég hef fáránlega öfluga kennara og það skilar sér. Þegar ég komst í mount var hann búinn að gefast upp svo ég tók smá flurry á þetta til að dómarinn myndi stoppa þetta. Síðustu höggin í mountinu voru ekki þau sem lentu clean. En í half-guardinu og side control náði ég að lenda nokkrum clean, það var klikkuð tilfinning. Þetta eru bæði stöður sem ég hef æft ground and pound mikið úr svo það var yndislegt að ná að framkvæma það í bardaganum.“

Þetta var akkúrat það sem Þorgrímur var búinn að sjá fyrir sér fyrir bardagann – að klára bardagann með höggum í gólfinu.

„Ég var búinn að ímynda mér svo margt, alls konar skrítnar útkomur. Bæði að ég myndi rota hann með fyrsta höggi, að ég yrði rotaður með fyrsta höggi, að þetta yrfði blóðugt stríð og svo framvegis. Ég var búinn að segja það við Árna Ísaks að ég myndi klára þetta með höggum í gólfinu og hann var sammála mér. Þess vegna var mjög gaman að ná að klára þetta þannig.“

Allir fjórir Íslendingarnir unnu sína bardaga. Það var frábær stemning í Færeyjum í höllinni og Íslendingunum fagnað í hvert sinn sem þeir náðu inn höggum.

„Þetta er góður heimavöllur fyrir okkur þangað til að hlutirnir breytast hérna heima. Færeyingarnir tóku ótrúlega vel á móti okkur og okkur leið öllum mjög vel. Áhorfendurnir stóðu líka með okkur íslendingunum og í hvert sinn sem við lentum höggi voru svakaleg fagnaðarlæti. Miðað við stemmninguna sem var þarna get ég ekki beðið eftir að keppa í Laugardalshöllinni.“

Þorgrímur Þórarinsson

Mynd: Sóllilja Baltasardóttir.

Eftir bardagann var beðið í röðum eftir myndum af sér með Þorgrími og hinum keppendunum. Það hlýtur að hafa verið ný og öðruvísi reynsla?

„Það kom virkilega skemmtilega á óvart og það var mjög gaman að geta glatt krakkana með þessu. Ég man þegar ég var sjálfur á þessum aldri á íþróttaleikjum að fá eiginhandaráritanir, þessir gaurar sem voru að keppa voru í guðatölu hjá manni. Mig dreymdi alltaf um að verða eins og þeir svo vonandi veitti ég þessum krökkum innblástur til að verða það sem þá langar til að verða líka!“

Það verður gaman að fylgjast með Þorgrími í hans næsta bardaga en leyfum honum að eiga lokaorðið.

„Í lokin vil ég fá að þakka öllum mínum æfingafélögum og þjálfurum, vinum og ættingjum ásamt minni nánustu fjölskyldu fyrir allan stuðninginn, þolinmæðina og hvatninguna í gegnum þetta ferli. Ég væri löngu búinn að gefast upp ef ég hefði ykkur ekki. Ég er ótrúlega heppin hvað ég á mikið af góðu fólki að og þið voruð öll í hjarta mínu þegar ég lá uppi á hótelherbergi að undirbúa mig fyrir bardagann. Þið vitið hver þið eruð. Þið veittuð mér styrk til að sigra. Takk takk, ég elska ykkur öll!“

Pétur Marinó Jónsson
Latest posts by Pétur Marinó Jónsson (see all)

Pétur Marinó Jónsson

Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Viaplay

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.