Thursday, March 28, 2024
HomeForsíðaÞráinn Kolbeinsson: Einn af uppáhaldsdögunum mínum á árinu er bolludagur

Þráinn Kolbeinsson: Einn af uppáhaldsdögunum mínum á árinu er bolludagur

Þráinn Kolbeinsson var sigurvegari Mjölnis Open 9 sem fram fór 29. mars. Hann sigraði bæði sinn þyngdarflokk, -99 kg, og opinn flokk karla. Þráinn er brúnt belti í BJJ og BJJ yfirþjálfari Mjölnis. Við fengum Þráinn í stutt spjall um mótið, undirbúning fyrir mót, bolludaginn og fleira.

Þráinn 5
Ingþór Örn Valdimarsson (2. sæti), Þráinn Kolbeinsson (1. sæti) og Eggert Djaffer (3. sæti) skipuðu verðlaunasætin í -99 kg flokki karla á Mjölnir Open.

Jæja Þráinn, tvöfaldur meistari á Mjölnir Open 9, hvernig leið þér á mótinu?

Mér leið bara mjög vel, þetta var skemmtilegt mót og mikið af góðum glímumönnum.

Hvenær byrjaðiru að æfa BJJ og af hverju?

Ég byrjaði snemma 2008 minnir mig. Ég hreinlega man ekki af hverju ég ákvað að prófa. Ég þekkti engan í Mjölni á þessum tíma en maður var þarna í nokkra klukkutíma á dag til að byrja með svo það tók ekki langan tíma að kynnast fólkinu. Andinn og félagsskapurinn var mjög góður og félagslífið hefur aldrei vantað í Mjölni.

Hafðirðu einhverja aðra reynslu úr bardagaíþróttum?

Ég mætti á eina júdóæfingu með Axel þegar ég var svona 13 ára, þá var þetta aðeins of mikill agi fyrir mig þó að tuskið hafi verið skemmtilegt. En svo var það held ég 2007 sem ég byrjaði í júdó og æfði það í svona hálft til eitt ár áður en ég byrjaði í Mjölni.

Þráinn
Þráinn og Egill í úrstlitaglímunni í opna flokkinum.

Hvernig er æfingadagskráin hjá þér?

Hún fer eiginlega bara eftir því hvað og hvenær mig langar að æfa hverju sinni. Ég fer allavega ekki eftir neinu sérstöku prógrammi. Svo verður líkaminn líka soldið að fá að stjórna því.

Drillaru mikið? Hvernig finnst þér best að æfa?

Ég hef ekki drillað sérstaklega mikið í gegnum tíðina en er aðeins búinn að auka það eftir seinasta sumar. Þá bættum við við einni æfingu á viku sem er hugsuð fyrir þá sem eru komnir frekar langt í íþróttinni og stefna á að keppa mikið bæði hér heima og erlendis. Á þeim æfingum er mikið um frjálst drill en annars er líka verið að bæta við meira af drilli á hinum æfingunum.

Mér finnst best að taka bara fyrir einhverja eina stöðu í ákveðinn tíma (nokkrar vikur eða mánuði) og eyða mestum tímanum í pælingar og æfingar í þeirri stöðu. Þetta hefur oftast gerst óvart þegar ég fæ einhverja stöðu á heilann. Þegar á heildina er litið hef ég allavega séð mestar framfarir þegar ég æfi svoleiðis.

Þráinn 3
Þráinn kastar Bjarka Ómarssyni.

Æfirðu öðruvísi fyrir mót?

Nei, en ég hvíli mig oftast alveg í nokkra daga fyrir mót og dagana þar á undan passa ég mig að glíma ekki of hart og of mikið.

Hvernig er mataræðið þitt dags daglega og breytirðu því eitthvað fyrir mót? 

Mataræðið mitt er almennt frekar gott en ég er samt ekki í neinum öfgum. Einn af uppáhaldsdögunum mínum á árinu er bolludagur (ætti að vera bolluvika) svo ég fæ mér alveg oft eitthvað sem myndi ekki teljast hollt hjá mörgum heilsugúrúum. Síðan var ég að uppgötva krónöttinn (e. cronut) í Reynisbakaríi fyrir ekki svo löngu, sem er ruglaður! En uppistaðan í fæðinu mínu er holl og góð. Ég breyti mataræðinu mínu ekkert fyrir mót.

Stefniru á að keppa erlendis á næstunni?

Já, ég er að fara til Kaupmannahafnar í lok apríl að keppa á Danish Open og svo helgina eftir það er Copenhagen Open. Svo förum við Axel til New York í júní til að æfa og það væri mjög gaman ef það væru einhver mót þarna á meðan.

Þráinn 2
Þráinn og Ingþór í úrslitum -99 kg flokki karla.
Pétur Marinó Jónsson
Pétur Marinó Jónssonhttps://www.mmafrettir.is
Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Viaplay
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

- Advertisment -

Most Popular