MMA aðdáendur eru í sárum eftir leiðinlegar fréttir af meiðslum José Aldo. Draumabardaginn verður ekki að veruleika að sinni en kvöldið er langt í frá ónýtt.
Sex mánaða uppbygging varð að engu með einu hringsparki í rifbeinin og eitt stærsta bardagakvöld allra tíma er ónýtt. Það er eitt sjónarmið.
Það er hins vegar alveg óþarfi að leggjast í þunglyndi, þetta er ekki heimsendir. Hristum aðeins af okkur þessar slæmu fréttir, opnum fyrir sólina og lítum aðeins á björtu hliðarnar.
Hvað er gott í þessu?
- Við fáum loksins að sjá Conor McGregor gegn alvöru glímukappa. Margir hafa gagnrýnt UFC fyrir að lyfta Conor McGregor upp fyrir Frankie Edgar og Chad Mendes í goggunarröðinni. Gagnrýnendur vildu sjá hvernig Íranum myndi ganga gegn alvöru glímumanni áður en hann færi í meistarann. Sigri hann Chad Mendes verður búinn að þagga niður í flestum efasemdaröddum. Það eitt og sér verður mjög spennandi að sjá.
- Ef Conor McGregor sigrar verður bardaginn við José Aldo enn stærri. Hugsið ykkur Conor McGregor veifandi bráðabirgðarbeltinu í nokkra mánuði, talandi um hversu mikill aumingi José Aldo sé. Bardaginn gegn Aldo færi fram í október eða nóvember. UFC var einmitt að tilkynna kvöld í Dublin 24. október. Það er kannski ólíklegt að Aldo myndi samþykkja það en það væri gaman.
- Það er annar stór titilbardagi þetta sama kvöld. Ekki gleyma titilbardaga í veltivigt á milli Rory MacDonald og Robbie Lawler þetta sama kvöld. Það er bardagi sem hefði auðveldlega getað verið aðalbardaginn.
- Gunnar Nelson snýr aftur. Ofan á þessa tvo mjög spennandi bardaga mun Gunnar Nelson berjast sama kvöld á móti mjög spennandi andstæðingi. Það hefur ekki breyst þó svo að skipt hafi verið um andstæðing.
Hættum því að vorkenna sjálfum okkur og byrjum að hlakka til. UFC 189 verður magnað kvöld.