Friday, April 19, 2024
HomeForsíðaUFC 189 tekur á sig mynd

UFC 189 tekur á sig mynd

gunnar_UFC_dublin_openWorkout_2014-21
Mynd: Kjartan Páll Sæmundsson.

Gunnar Nelson berst á UFC 189 þann 11. júlí og þó enn sé langt í bardagann er bardagakvöldið farið að taka á sig mynd. Tveir titilbardagar verða á dagskrá en þetta verður stærsta bardagakvöld ársins.

Eins og flestum bardagaáhugmönnum er kunnugt um mætast þeir Jose Aldo og Conor McGregor í aðalbardaga kvöldsins um fjaðurvigtarbeltið. UFC hefur lagt mikið upp úr því að kynna bardagann og er áhuginn orðinn gríðarlegur. Enn er langt í bardagann en bardagaaðdáendur geta vart beðið eftir kvöldinu.

Bardagi Rory MacDonald og Robbie Lawler hefur dálítið gleymst í Aldo-McGregor æðinu en það er titilbardagi í veltivigtinni. Lawler vann titilinn af Johny Hendricks í desember en þetta verður fyrsta titilvörn hans.

Þriðji bardaginn sem var tilkynntur af UFC er bardagi í fjaðurvigtinni milli Jeremy Stephens og Dennis Bermudez. Báðir eru að koma af tapi eftir að hafa verið á góðu skriði. Stephens sigraði þrjá bardaga í röð og var kominn á topp tíu í fjaðurvigtinni áður en hann tapaði fyrir Cub Swanson og síðar Charles Oliveira. Dennis Bermudez komst óvænt á sjö bardaga sigurgöngu sem lauk í nóvember í fyrra er hann tapaði fyrir Ricardo Lamas.

Þriðji veltivigtarbardagi kvöldsins er milli Brandon Thatch og John Howard. Fyrstu fregnir hermdu að Thatch og Jordan Mein myndu mætast en sá bardagi hefði án nokkurs vafa orðið frábær skemmtun. Mein mun því miður ekki mæta Thatch í þetta sinn en Thatch mætir John Howard þess í stað.

Þar sem UFC 189 er svo kallað „pay per view“ kvöld er bardagakvöldinu skipt í þrjá hluta. Líklegast verða þrír bardagar á Fight Pass rás UFC á netinu, svo verða fjórir bardagar á Fox Sports 1 hluta kvöldsins og loks fimm bardagar á aðalhluta bardagakvöldsins (e. main card) sem hægt er að kaupa sérstaklega.

Óvíst er hvenær á bardagakvöldinu bardagi Gunnars verður en það er ljóst að bardaginn verður eftir miðnætti. Bardaginn verður því eftir háttatíma barnanna og ætti það að gleðja fjölmiðlanefnd. Bardagi Gunnars verður að öllum líkindum í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport.

UFC mun halda áfram að bæta við bardögum á kvöldið á næstu dögum og verður gaman að sjá hvaða bardagar bætast við.

Pétur Marinó Jónsson
Pétur Marinó Jónssonhttps://www.mmafrettir.is
Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Viaplay
RELATED ARTICLES

1 COMMENT

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

- Advertisment -

Most Popular