Saturday, May 18, 2024
HomeErlentUppgjör ársins 2018

Uppgjör ársins 2018

Mynd: Snorri Björns.

Árið 2018 er liðið og er ekki seinna vænna en að gera það aðeins upp núna þegar við erum á 10. degi nýs árs. Í ársuppgjörinu skoðum við það helsta sem gerðist á árinu og rifjum líka upp óvenjuleg atvik.

Í nýjasta Tappvarpinu fórum við yfir árið en hægt er að hlusta á þáttinn hér.

Rothögg ársins

Eins og vanalega sáum við mörg mögnuð rothögg á árinu. Eitt ótrúlegasta rothögg allra tíma sáum við á árinu og er ekki hægt að líta framhjá því í valinu á besta rothöggi ársins. Yair Rodriguez var að tapa þegar hann náði einhverjum ótrúlegum olnboga og rotaði Chan Sung Jung þegar ein sekúnda var eftir af fimm lotu bardaganum. Nokkrar sekúndur í viðbót og Rodriguez hefði tapað eftir dómaraákvörðun. Lygileg atburðarrás sem sennilega hefði þótt of ótrúleg fyrir Hollywood bíómynd.

Uppgjafartak ársins

Mörg uppgjafartök koma til greina sem uppgjafartak ársins. Uppgjafartak Zabit Magomedsharipov gegn Brandon Davis var magnað og sömuleiðis sama uppgjafartak hjá Aljamain Sterling gegn Cody Stamann sama kvöld!

Á síðasta bardagakvöldi UFC sáum við síðan Ryan Hall taka B.J. Penn með mögnuðum hætti.

Atvik ársins

Atvik ársins var klárlega þegar Khabib Nurmagomedov fékk þá snilldar hugmynd að stökkva yfir búrið og ráðast að hornamönnum Conor McGregor eftir glæsilegan sigur Rússans. Enn á eftir að refsa Khabib fyrir hans gjörðir en liðsfélagar Khabib stukku einnig yfir búrið og réðust að Conor. Írinn var kjaftfor eins og honum einum er lagið fyrir bardagann og fór kannski aðeins of langt yfir strikið þegar hann talaði um alþjóðlega pólitík og föður Khabib. Það afsakar samt ekki hegðun Khabib. Slæmt atvik sem lét íþróttina líta illa út.

Rúta ársins

Ein stærsta frétt ársins var rútuárás Conor McGregor í apríl. Conor réðst þá á rútu með Khabib Nurmagomedov innanborðs og kastaði meðal annars trillu í gegnum rúðu rútunnar. Conor þurfti að dúsa í fangageymslu í eina nótt, fékk stóra sekt og er verið að lögsækja hann úr öllum áttum eftir árásina. Michael Chiesa og Ray Borg misstu sína bardaga eftir árásina og er Chiesa í málaferlum við Conor.

Vinur ársins

Conor má eiga það samt að hann er eiginlega vinur ársins. Rútuárásin var allt vegna þess að Khabib löðrungaði vin og æfingafélaga Conor, Artem Lobov, nokkrum dögum fyrir rútuárásina. Conor flaug yfir Atlantshafið frá Dublin til New York með 20 manna gengi til að koma sínum manni til varnar.

Viðtal ársins

Mjög auðvelt val. Eftir frækinn sigur gegn Alexander Volkov á UFC 229 ákvað Derrick Lewis að fara úr buxunum þar sem honum var svo heitt á pungnum. Auk þess sagðist hann ekki hafa neinn áhuga á titilbardaga þar sem þolið hans væri svo lélegt. Hann fékk síðan titilbardaga gegn Daniel Cormier þremur vikum seinna. Viðtalið má sjá hér að neðan:

Bardagakvöld ársins

Stærsta bardagakvöld ársins var án nokkurs vafa UFC 229 þar sem þeir Conor McGregor og Khabib Nurmagomedov börðust. Besta bardagakvöld ársins var hins vegar mánuði fyrr þegar UFC 228 fór fram. Mögnuð tilþrif litu dagsins ljós en þar má nefna tvö af bestu uppgjafartökum ársins, þrjú af rosalegustu rothöggum ársins og almennt skemmtilega bardaga.

Styrktaraðili ársins

Eftir viðtal Derrick Lewis á UFC 229 rauk Lewis upp í vinsældum. Hann þrefaldaði fylgjendur sína á Instagram og er nú með 1,5 milljón fylgjendur á Instagram. Hann hefur ekki farið leynt með ást sína á skyndibita og þá sérstaklega Popeyes. Kjúklingastaðurinn gerðist styrktaraðili Lewis fyrir bardagann gegn Daniel Cormier og var Lewis hæstánægður með það.

Vonarstjarna ársins

Vonarstjarna eða nýliði ársins er enginn annar en Israel Adesanya. Það kom eiginlega enginn annar til greina en Tatiana Suarez og Dominick Reyes gerðu samt tilkall. Israel Adesanya vann alla fjóra bardaga sína í UFC á þessu ári og er nú ekki langt frá titilbardaga. Adesanya hefur komið inn eins og stormsveipur í UFC og verður gaman að fylgjast með honum á næsta ári.

Saumur ársins

Fyrst voru það 29 spor en svo voru þau allt í einu orðin 38. Alex Oliveira át olnboga frá Gunnari Nelson sem varð til þess að brasilíska kúrekanum fossblæddi. Oliveira fékk stóran skurð eftir olnbogann og verður eflaust með myndarlegt ör eftir Gunnar.

Gamlingi ársins

Chuck Liddell ákvað að snúa aftur í búrið á þessu ári. Liddell saknaði þess að berjast og taldi sig enn hafa það sem til þarf til að berjast meðal þeirra bestu. Hann mætti Tito Ortiz á fyrsta bardagakvöldi Golden Boy Promotions í nóvember og leit hryllilega út. Ortiz átti að vera upphitunarbardagi en Liddell var rotaður í 1. lotu en hægari maður hefur sennilega aldrei sést í búrinu. Hinn 49 ára gamli Liddell sýndi það sem allir vissu að hann ætti ekkert erindi í búrið í dag.

Óþefur ársins

Gunnar Nelson átti að mæta Neil Magny í maí en meiddist því miður nokkrum vikum fyrir bardagann. Þegar bardaginn var fyrst tilkynntur fékk Magny áhugaverða orðsendingu frá liðsfélaga sínum, Brandon Thatch. Gunnar sigraði Thatch árið 2015 og sagði Thatch að Gunnar hefði lyktað ógeðslega þegar þeir mættust. Hvort sem það var satt eða ekki skal ósagt látið en ummælin voru í það minnsta nokkuð fyndin.

Lyfjapróf ársins

Lyfjapróf ársins á Jonathan Dwight Jones. Örlitlar leyfar af anabólíska steranum turinabol fundust í lyfjaprófi Jon Jones og töldu allir helstu sérfræðingar sem USADA talaði við að um gamlar leyfar væri að ræða. Jones fékk því að keppa sem var gríðarlega umdeilt.

Fokk jú ársins

Þau verðlaun fær UFC skuldlaust. Vegna fyrrnefnds lyfjaprófs Jon Jones var UFC 232 fært frá Las Vegas til Los Angeles og setti það stórt skarð í áætlanir aðdáenda sem ætluðu að horfa á bardagakvöldið í Las Vegas. Aðeins 3000 aðdáendur af þeim tæplega 18.000 aðdáendum sem áttu miða í Las Vegas fóru á bardagakvöldið í Los Angeles. UFC gerði ekkert til að reyna að bæta þetta upp fyrir þá aðdáendur sem ætluðu að horfa á UFC 232 í Las Vegas og sendi aðdáendum sínum, sínum eigin viðskiptavinum, bara puttann. UFC tapaði vissulega um það bil 5 milljónum dollurum á miðasölunni (að sögn Dana White) vegna flutningsins en fengu það alltaf bætt upp með góðri sölu á Pay Per View áskriftum.

Leiðindi ársins

UFC átti ansi skrítið ár og tók nokkrar ákvarðanir sem létu íþróttina líta illa út. Eftir rútuárás Conor McGregor var Íranum ekkert refsað og skýldu UFC sér á bakvið lögin. Dana White var alveg brjálaður fyrst út í Conor en tveimur dögum síðar sagði hann að „margt verra hefði gerst í öðrum íþróttum.“ UFC refsaði Conor ekki fyrir að meiða tvo bardagamenn tveimur dögum fyrir stórt bardagakvöld. Innkoma Brock Lesnar í búrið eftir sigur Daniel Cormier á Stipe Miocic var líka fáránleg og ennþá fáránlegra að sterabolti sem hefur ekki unnið bardaga í níu ár eigi að fá einhvern titilbardaga. Vissulega ekki verið staðfest ennþá en svona hlutir lítillækka íþróttina. Lyfjapróf Jon Jones og flutningurinn á bardagakvöldinu lét líka íþróttina líta illa út og það er leiðinlegt.

Apríl gabb ársins

Þann 1. apríl greindi UFC frá því að Tony Ferguson væri meiddur og gæti ekki barist gegn Khabib Nurmagomedov sex dögum síðar eins og til stóð. Flestir héldu að um lélegt apríl gabb væri að ræða en því miður var svo ekki. Tony Ferguson féll um einhvern rafmagnskapal nokkrum dögum fyrir bardagann og þurfti í 4. sinn að aflýsa bardaga Ferguson og Khabib. Lygileg atburðarrás og voru enn einhverjir á því að þetta væri aprílgabb nokkrum dögum eftir atvikið. Líklegast einhverjir sem voru bara í afneitun.

Orð ársins

Í fyrra vissi sennilega enginn í MMA heiminum (nema örfáir einstaklingar í lyfja- og heilsugeiranum sem hafa áhuga á MMA) hvað píkógramm væri en í dag vita allir hvað það er. Píkógramm er einn trilljónasti úr grammi en 60 píkógrömm af turinabol fundust í lyfjaprófi Jon Jones í desember. Píkógramm er því orð ársins en það hefði líka getað verið „pektógram“ þar sem Jon Jones mismælti sig sífellt þegar hann var að tala um píkógrömm og gat ómögulega munað rétt heiti.

Vigtun ársins

Darren Till átti klárlega vigtun ársins. Darren Till var stærsta stjarnan í fyrstu heimsókn UFC til Liverpool og fékk Till líka draumaandstæðinginn, Stephen Thompson. Till náði hins vegar ekki tilsettri þyngd og var 174,5 pund og voru efasemdir um hvort bardaginn gæti farið fram. Till þurfti síðan að vigta sig aftur í hádegi á keppnisdegi þar sem hann mátti ekki vera meira en 188 pund. Till tókst það en það var ekki auðvelt. Síðar birtist myndband af Till að reyna að ná vigt þar sem hann leit einfaldlega út fyrir að vera nær dauða en lífi. Till missti meira að segja sjónina um tíma í niðurskurðinum og vakti myndbandið mikla athygli. Myndbandið fékk þó ekki að hanga lengi á veraldarvefnum en sýndi skelfilegan niðurskurð Till.

Pungur ársins

Bryce ‘Thug Nasty’ Mitchell lenti í skelfilegu slysi á árinu. Mitchell var í framkvæmdum heima hjá sér og setti borvél í buxnavasann í smástund. Vélin fór óvart af stað og flæktist í pungnum með þeim afleiðingum að pungurinn rifnaði. Mitchell hefur ekki snúið aftur í búrið síðan þetta gerðist en hann birti mynd af blóðugum nærbuxum sínum eftir atvikið.

Skipti ársins

Fyrstu skiptin í MMA áttu sér stað á árinu. UFC og asísku bardagasamtökin ONE Championship skiptu þá á Demetrious Johnson og Ben Askren. Tíðindin komu gríðarlega á óvart enda Johnson einn allra besti bardagamaður heims á meðan Askren hefur ekki alltaf verið vel liðinn af Dana White.

Á heildina litið var þetta gott ár í MMA. Það fór rólega af stað en svo fengum við stóra og skemmtilega bardaga. Bardagarnir eru alltaf að verða betri og betri og bardagamennirnir sömuleiðis. Það er unun að sjá íþróttina vaxa þó margar ákvarðanir UFC megi oft gagnrýna.

Pétur Marinó Jónsson
Pétur Marinó Jónssonhttps://www.mmafrettir.is
Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Viaplay
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

- Advertisment -

Most Popular