Monday, May 27, 2024
HomeForsíðaUpprisa stálkjálkans Rafael dos Anjos

Upprisa stálkjálkans Rafael dos Anjos

Stundum kemur þessi íþrótt okkur algjörlega í opna skjöldu. Sama hvað við teljum okkur vita gerist það alltaf annað slagið að eitthvað algjörlega óvænt gerist eins og þegar Matt Serra rotaði George St. Pierre eða þegar T.J. Dillashaw rústaði Renan Barao. Á laugardagskvöldið vorum við viss um að Anthony Pettis myndi vinna.

En svo gerðist eitthvað. Kannski var það högg í fyrstu lotu sem blindaði meistarann á öðru auga eða kannski skipti það bara engu máli. Raunveruleikinn er sá að Rafael dos Anjos valtaði yfir einn besta bardagamann veraldar. Anthony Pettis átti aldrei möguleika gegn pressu og viljastyrk áskorandans sem virtist hungraðri og alltaf skrefi á undan. En hver er þessi nýji meistari?

rafael_dos_anjos_belt

Rafael Souza dos Anjons, við skulum kalla RDA, var fæddur og uppalinn í Brasilíu í smábænum (á þeirra mælikvarða) Niterói þar sem nú búa um 487 þúsund íbúar. RDA var vandræðadrengur sem lenti mikið í götubardögum en hætti um leið og hann fór að stunda brasilískt jiu-jitsu (BJJ). Níu ára gamall sá hann Rickson Gracie sigra Vale Tudo (í raun MMA) keppni í sjónvarpinu og þar kviknaði áhuginn á BJJ. RDA æfði undir handleiðslu Aldo Januário og Roberto Correa. Hann varð heimsmeistari fjólublábeltinga árið 2003 og fékk að lokum svart belti árið 2005 – einu ári eftir að hann hóf feril sinn í MMA.

stephensdosanjosRDA kom inn í UFC árið 2008 með ellefu sigra og tvö töp að baki. Allir bardagar hans höfðu þá farið fram í Brasilíu og Japan. Töpin tvö höfðu bæði komið á klofnum dómaraúrskurðum svo hann var ekki langt frá því að vera ósigraður. Sú sæla var þó skammlíf því í hans fyrsta bardaga kýldi Jeremy Stephens nánast af honum höfuðið með einu frægasta rothöggi í sögu UFC.

Ferill RDA í UFC hefur verið langur og sveiflukenndur. Í átján bardögum hefur hann tapað fimm sinnum. Fyrsta tapið var þetta ofangreinda gegn Jeremy Stephens þar sem hann fékk á sig fullkomið högg í þriðju lotu í jöfnum bardaga. Næsta tap var tap á stigum gegn Tyson Griffin sem þá var að berjast í sínum áttunda UFC bardaga og hafði t.d. sigrað Clay Guida. Það þriðja var einmitt gegn Clay Guida en RDA kjálkabrotnaði í fyrstu lotu en RDA reyndi að þrauka en gafst upp á endanum í þriðju lotu. Kjálkabrotið olli því að festa þurfti nokkrar títaníum skrúfur í kjálka RDA og segist hann nú hafa stálkjálka sem brýtur hendur andstæðinga hans. Fjórða tapið var klofinn dómaraúrskurður gegn Gleison Tibau og hið fimmta einhliða dómaraúrskurður gegn Khabib Nurmagomdov á síðasta ári. Töpin fimm eru ekki svo slæm þegar þau eru grandskoðuð fyrir utan það síðasta en góðar líkur eru á að RDA fái annað tækifæri gegn Rússanum knáa innan skamms.

Það eru eflaust fáir sem reiknuðu með að RDA yrði meistari í UFC eftir að hafa tapað fyrstu tveimur bardögum sínum. Þá var þessi 24 ára Brasilíumaður einhæfur BJJ kappi með lélegt Muay Thai. Eftir að hann flutti frá Brasilíu til Bandaríkjanna hefur hann tekið stórtækum framfærum. Í dag æfir hann hjá Kings MMA undir handleiðslu Rafael Cordeiro en sá var maðurinn á bakvið Chute Box liðið í gamla daga sem innihélt ekki ómerkari menn en Shogun Rua, Wanderlei Silva og Anderson Silva.

RDA er nýji meistarinn í léttvigt en mun sennilega vera frá keppni í nokkra mánuði vegna meiðsla í hné. Á meðan munu Donald Cerrone og Khabib Nurmagomedov berjast í maí um tækifærið til að skora á nýja meistarann. Báðir hafa barist við hann áður en bardaginn sem allir vilja sjá er RDA gegn Khabib Nurmagomedov. RDA hefur smá saman orðið betri og betri undanfarin ár. Spurningin er, er hann orðinn nógu góður til að sigra Rússann?

rafael-dos-anjos-khabib-nurmagomedov

RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

- Advertisment -

Most Popular