spot_img
Monday, October 7, 2024
Minigarðurinnspot_imgspot_imgspot_img
HomeForsíðaÚrslit og umfjöllun um UFC Fight Night: Gustafsson vs. Manuwa

Úrslit og umfjöllun um UFC Fight Night: Gustafsson vs. Manuwa

gustafsso

Það var frábær stemning í O2 höllinni í gærkvöldi þar sem okkar maður, Gunnar Nelson, barðist gegn Omari Akhmedov. Frábærir bardagar áttu sér stað í gær en í aðalbardaga kvöldsins mættust þeir Alexander Gustafsson og Jimmy Manuwa.

Bardagarnir áttu upphaflega að byrja kl 17:30 en þar sem bardaga Davey Grant og Roland Delorme var aflýst seinkaði bardögunum um hálftíma.

Í fyrsta bardaga kvöldsins mættust þeir Phil Harris og Louis Gaudinot. Phil Harris reyndi fellu upp við búrið en gleymdi að verja hálsinn og Gaudinot nýtti sér það. Eftir að Gaudinot var komið með ágætis tak utan um hálsinn á Harris hoppaði hann niður (guard pull) og kláraði “guillotine” henginguna eftir aðeins 1:13 í fyrstu lotu.

Annar bardaginn var háður milli Igor Araujo og Danny “The Cheesecake Assassin” Mitchell. Heimamaðurinn Mitchell fékk mikinn stuðning frá áhorfendum og hrópuðu áhorfendur “Cheesecake” til stuðnings. Það dugði ekki til þar sem Araujo var einfaldlega betri bardagamaður en Mitchell og sigraði eftir dómaraákvörðun.

Þriðji bardagi kvöldsins var hreint út sagt versti bardagi kvöldsins en hvorugur bardagamanna á mikla framtíð fyrir sér í UFC. Brad Scott og Claudio Henrique da Silva börðust í þrjár lotur þar sem Silva sigraði. Brad Scott var þó nálægt því að klára Silva í 2. lotu þar sem Silva var vankaður. Silva er hræðilegur “striker” en Scott skárri. Eitt undarlegasta atvik kvöldsins var þegar Silva kvartaði yfir sparki í klofið en dómarinn lét bardagann halda áfram þar sem hann sá ekkrt athugavert við sparkið. Silva neitaði að halda áfram þrátt fyrir tilskipun dómarans og hefði Scott getað nýtt tækifærið og sótt á Silva. Hann gerði það þó ekki og var eitt stórt  spurningamerki!

Það var stórkostleg stemning í höllinni þegar Svíin Mats Nilsson mætti Luke Barnatt. Um 2000 Svíar voru í höllinni og studdu sinn mann vel. Bretarnir létu ekki Svíana kæfa sinn stuðning og myndaðist frábær stemning. Luke Barnatt var þó betri bardagamaður þetta kvöld og vankaði Nilsson með haussparki og fylgdi svo eftir með grimmum höggum. Barnatt sigraði eftir tæknilegt rothögg í fyrstu lotu.

Í síðasta bardaga á upphitunarhluta kvöldsins mættust þeir Cyrille Diabate og Ilir Latifi. Nákvæmlega ekkert gerðist fyrstu mínútuna eða þangað til Latifi fór í fellu og náði Diabate niður. Latifi sýndi að hann á heima í léttþungavigtinni og kláraði Diabate með “guillotine” hengingu. Diabate hafði gefið það út að þetta yrði hans síðasti bardagi á ferlinum og endar 22 ára feril í bardagaíþróttum með 81 bardaga í sparkboxi og MMA.

gunnar_nelson_londonÞá var loks komið að aðalbardaga kvöldsins í hjörtum Íslendinga. Omari Akhmedov gekk í búrið undir laginu úr “The Last of The Mohicans”. Epískt lag en áhorfendur fögnuðu mun meira þegar Gunnar gekk undir lagi Hjálma, “Leiðin okkar allra”. Það var ljóst að meirihluta áhorfanda studdi Gunnar enda á hann stóran aðdáendahóp í Bretlandi eftir að hafa barist þar mest allan ferilinn hingað til. Þegar bardaginn byrjaði var Gunnar jafn rólegur og áður á meðan Akhmedov virtist spenntari og stífari. Akhmedov náði tveimur spörkum á Gunna en snögglega kom Gunnar með öfluga beina vinstri og kýldi Akhmedov niður. Þetta var leiftursnöggt og eina standandi höggið hans í gær. Þegar í gólfið var komið var Gunnar með algjöra yfirburði. Hann lét olnbogana rigna yfir Akhmedov úr sínu frábæra “mounti” og var Akhmedov orðinn vel blóðugur. Akhmedov reyndi að standa upp en þá fór Gunnar í “guillotine” henginguna og sigraði þegar 30 sekúndur voru eftir af fyrstu lotunni. Allt ætlaði um koll að keyra þegar áhorfendur sáu að Akhmedov hafði gefist upp og gat undirritaður ekki stillt sig af fögnuði þrátt fyrir að eiga að vera hlutlaus sem fjölmiðlamaður. Þetta var frábær frammistaða hjá Gunnari og verður gaman að sjá hvaða andstæðing hann fær næst.

Bardagi Brad Pickett og Neil Seery var næstur. Seery kom seint inn þegar Ian McCall meiddist en stóð sig frábærlega. Hann útboxaði boxarann Pickett og sýndi að hann á vel heima í UFC. Hann hefur þó augljóslega ekki frábæra felluvörn og á það sennilega eftir að há honum í UFC. Pickett sigraði eftir dómaraákvörðun.

Í næst síðasta bardaga kvöldsins mættust þeir Melvin Guillard og Michael Johnson. Fyrirfram var búist við að þetta yrði besti bardagi kvöldsins en það rættist ekki. Guillard gerði lítið nema að bakka og reyna að ná gagnárás með beinni hægri. Það var ekki að ganga og var eins og það væri ekkert plan B. Það var eins og Guillard væri ekki andlega tilbúinn í þetta og gæti þetta verið í síðasta skipti sem við sjáum Guillard í UFC eftir aðeins tvo sigra í síðustu átta bardögum. Michael Johnson sigraði eftir dómaraákvörðun.

Það var gjörsamlega allt brjálað í höllinni þegar aðalbardagi kvöldsins var að hefjast. 2000 Svíar studdu þétt við bakið á Alexander Gustafsson og Bretarnir sömuleiðis við Jimmy Manuwa. Gustafsson var betri bardagamaður og rotaði Manuwa í 2. lotu. Það var frábær stemning í höllinni í þessum bardaga og voru Svíarnir gríðarlega ánægðir með sinn mann Gustafsson.

Þetta var frábært bardagakvöld og frábær upplifun að fá að vera á staðnum. MMA fréttir mun án nokkurs vafa halda áfram að fara á fleiri UFC viðburði.

 

 

spot_img
spot_img
Pétur Marinó Jónsson
Pétur Marinó Jónssonhttps://www.mmafrettir.is
Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Viaplay
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

spot_img

Most Popular