spot_img
Sunday, November 17, 2024
Minigarðurinnspot_imgspot_imgspot_img
HomeForsíðaValgerður: Fann að ég átti fullt erindi í hana

Valgerður: Fann að ég átti fullt erindi í hana

Valgerður Guðsteinsdóttir mætti í gærkvöldi Katharinu Thanderz í Noregi. Um var að ræða stærsta viðburð í íslenskri hnefaleikasögu en Valgerður sýndi að hún ætti svo sannarlega heima á þessu getustigi.

Barist var upp á svokallaðan „International title“ hjá WBC sambandinu en Valgerður fékk bardagann með nokkurra daga fyrirvara. Beltið er það næststærsta sem hægt er að keppa um hjá WBC en WBC er eitt af fjórum stóru samböndunum í boxheiminum.

Valgerður tapaði eftir dómaraákvörðun en bardaginn var aðalbardagi kvöldsins. „Ég þarf að gefa mér smá tíma til að meðtaka þetta allt. Þetta var svo stór stund og þetta kom upp með svo stuttum fyrirvara. Ég var með alla mína einbeitingu á því að vera eins tilbúin eins og hægt væri og það er ekki fyrr en núna að ég er að átta mig á því að ég var að berjast á stórum viðburði um stóran titil,“ sagði Valgerður er fram kemur í fréttatilkynningu.

„Auðvitað er svekkjandi að hafa ekki unnið, en ég veit að ég gerði mitt besta og það voru alveg augnablik þarna inni í hringnum þar sem upplifði skýrt að ég hafði yfirhöndina. Það var virkilega gaman að mæta svona öflugum andstæðing og finna að ég átti fullt erindi í hana. Að finna að allt það sem ég hef fórnað og neitað mér um til að elta drauminn minn um að vera atvinnuboxari hefur verið til einhvers. Ég vona innilega að þessi frammistaða hafi hjálpað mér við að klifra áfram upp metorðastigann. Helst væri ég til í að berjast sem fyrst aftur.“

Katharina er núna 8-0 eftir bardagann og hrósaði Valgerði eftir viðureign þeirra. „Ég ber mikla virðingu fyrir andstæðing mínum. Hún tók þennan bardaga með svo skömmum fyrirvara og hún stóð sig svo vel. Hún er alvöru bardagakona,“ sagði Katharina.

Eins og áður segir tók Valgerður bardagann með skömmum fyrirvara og væri gaman að sjá hvernig bardaginn myndi fara ef Valgerður fær fullan undirbúning. Guðjón Vilhelm, umboðsmaður Valgerðar, vill sjá endurat þeirra á milli.

„Valgerður er hetja. Hún tók þennan bardaga með átta daga fyrirvara og var hársbreidd frá því að sigra. Ég get lofað ykkur að Katharina liggur núna á bæn og vonar að hún þurfi ekki að mæta Valgerði aftur. Því ef Valgerður fær sex vikur í undirbúning til að mæta henni þá er á hreinu að hún mun klára hana. Ég mun leggja inn beiðni um rematch strax, en hvernig sem er þá er ljóst að Valgerður var verðugur fulltrúi Íslands og við getum öll verið stolt af hennar frammistöðu. Hún er þvílíkt hörkutól þessi stelpa og það verður gaman að sjá hvað gerist næst hjá henni.”

spot_img
spot_img
spot_img
Pétur Marinó Jónsson
Pétur Marinó Jónssonhttps://www.mmafrettir.is
Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Viaplay
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

spot_img
spot_img

Most Popular