Saturday, April 27, 2024
HomeErlent10 áhugaverðustu bardagarnir í júlí 2020

10 áhugaverðustu bardagarnir í júlí 2020

UFC vélin er komin á fullt og eru fullt af spennandi bardögum á dagskrá í júlí. Fjögur bardagakvöld verða á dagskrá á bardagaeyjunni en hér eru 10 bestu bardagar mánaðarins.

Bellator hefur verið á ís síðan kórónuveirufaraldurinn hófst en ONE Championship er með bardagakvöld í lok júlí þar sem fáir bardagar eru staðfestir á þessari stundu. KSW er síðan með áhugavert bardagakvöld í Póllandi á laugardaginn en UFC er með lang áhugaverðustu bardagana í þessum mánuði.

10. Calvin Kattar gegn Dan Ige (UFC on ESPN 13, 15. júlí)

Þessi bardagi er mikilvægur í fjaðurvigtinni en báðir eru að koma af flottum sigrum. Kattar kláraði Jeremy Stephens í maí og Ige sigraði Edson Barboza eftir klofna dómaraákvörðun í jöfnum bardaga en sitt sýnist hverjum um niðurstöðu dómaranna. Sigur hér tryggir ekki titilbardaga en sigurvegarinn myndi taka mikilvægt skref í átt að titlinum.

Spá: Kattar sigrar eftir dómaraákvörðun eftir hörku fimm lotu bardaga.

9. Amanda Ribas gegn Paige VanZant (UFC 251, 11. júlí)

Amanda Ribas er ein sú mest spennandi í kvennaflokkum UFC í dag og Paige VanZant ein sú þekktasta. Þetta er mikilvægur bardagi fyrir VanZant en þetta verður síðasti bardaginn á samningnum hennar við UFC. VanZant vill kanna virði sitt á opnum markaði og vill sjá hvað önnur bardagasamtök eru tilbúin að bjóða henni þegar samningur hennar klárast. VanZant fær því erfiðan en tiltölulega óþekktan andstæðing. Ribas hefur litið mjög vel út í síðustu bardögum sínum og kom nafninu sínu á kortið með sannfærandi sigri gegn Mackenzie Dern í fyrra. Ribas er hættuleg standandi og er einnig svart belti í BJJ og júdó.

Spá: Ribas sigrar með tæknilegu rothöggi í 2. lotu.

8. Fabricio Werdum gegn Alexander Gustafsson (UFC on ESPN 14, 25. júlí)

Eftirlaunaár Alexander Gustafsson entust í aðeins rúmt ár en hér snýr hann aftur í þungavigt. Gustafsson hefur verið hættur í ár og verður áhugavert að sjá hvernig hann kemur til leiks eftir smá hlé og það í nýjum þyngdarflokki. Fabricio Werdum var ömurlegur í sínum síðasta bardaga gegn Aleksei Oleinik í maí og er staðráðinn í að sýna að hann geti gert betur.

Spá: Werdum er búinn á því og sigrar Gustafsson eftir dómaraákvörðun.

7. Jack Hermansson gegn Kelvin Gastelum (UFC Fight Night 172, 18. júlí)

Jack Hermansson var í þann mund að stimpla sig sem einn af þeim bestu í millivigt þar til hann tapaði fyrir Jared Cannonier í september. Nú fær hann aftur topp andstæðing og tækifæri til að sýna okkur hvar hann á heima í millivigtinni. Kelvin Gastelum hefur nú tapað tveimur bardögum í röð (Adesanya og Till) og þarf sigur ef hann á ekki að falla of langt í goggunarröðinni. Þessi bardagi mun segja okkur mikið um báða.

Spá: Gastelum er með betri ferilskrá gegn þessum topp andstæðingum. Segjum Gastelum eftir dómaraákvörðun.

6. Deiveson Figueiredo gegn Joseph Benavidez 2 (UFC Fight Night 172, 18. júlí)

Fluguvigtin hefur verið í veseni síðan Henry Cejudo gaf frá sér fluguvigtartitilinn. Þeir Figueiredo og Benavidez áttu að ákveða hver yrði næsti fluguvigtarmeistari en það gekk ekki eftir. Figueiredo náði ekki vigt og varð því ekki meistari þrátt fyrir að rota Benavidez. Benavidez kvartaði yfir því að Benavidez hefði skallað sig í fyrri bardaga þeirra og því mætast þeir aftur til að útkljá málin.

Spá: Benavidez er topp drengur en Figueiredo er betri bardagamaður í dag. Vonandi nær hann vigt og þá verður hann meistari. Figueiredo með TKO í 1. lotu.

5. Robert Whittaker gegn Darren Till (UFC on ESPN 14, 25. júlí)

Það var ákveðið heillaskref að sjá Darren Till fara upp í millivigt og er mikið af spennandi viðureignum fyrir hann þar. Whittaker hefur verið í brasi undanfarin ár og lítið barist vegna meiðsla og veikinda. Hann vill endurheimta beltið og þarf að sýna sömu frammistöður og hann sýndi gegn Yoel Romero ef hann ætlar að sannfæra UFC um að gefa sér annan séns gegn Adesanya. Þessi verður mjög spennandi!

Spá: Whittaker var besti millivigtarmaður heims í tvö ár. Ef hann nær sama formi vinnur hann Till. Segjum að Whittaker sé ennþá með gæðin og vinni eftir dómaraákvörðun.

4. Jessica Andrade gegn Rose Namajunas 2 (UFC 251, 11. júlí)

Fyrri bardagi þeirra var frábær titilbardagi. Namajunas leit ótrúlega vel út þar til Andrade skellti henni í gólfið með þeim afleiðingum að Namajunas rotaðist. Namajunas er tæknilega betri en það þarf ekki alltaf að segja alla söguna. Andrade er algjör tankur sem mun vaða í Namajunas í 15 mínútur. Getur Namajunas haldið sig nógu langt frá Andrade í þetta sinn?

Spá: Þetta er ekki fimm lotu bardagi og það hentar Namajunas. Namajunas heldur sér frá Andrade og vinnur eftir dómaraákvörðun.

3. Alexander Volkanovski gegn Max Holloway 2 (UFC 251, 11. júlí)

Fyrri bardagi þeirra í desember var taktískur og jafn. Það sem vekur helst athygli fyrir þennan seinni bardaga er sú staðreynd að Holloway hefur varla hitt þjálfara sína, hefur ekki haft neina æfingafélaga og bara æft heima hjá sér í heimsfaraldrinum. Á sama tíma er allt í toppstandi á Nýja-Sjálandi þar sem Volkanovski æfir.

Spá: Volkanovski kemur í betra standi og heldur uppteknum hætti frá fyrri bardaga. Volkanovski sigrar eftir dómaraákvörðun.

2. Petr Yan gegn Jose Aldo (UFC 251, 11. júlí)

Það er skrítið að Jose Aldo, sem hefur tapað tveimur bardögum í röð og aldrei unnið bardaga í bantamvigt, fái þennan titilbardaga. En Jose Aldo er goðsögn og of snemmt að afskrifa hann. Aldo er nánast hættur að sparka en er með mjög tæknilegt box og góðar höfuðhreyfingar. Petr Yan er þessi dæmigerði ískaldi Rússi sem er ekki í þessu til að eignast vini. Stærstu sigrar Yan voru samt bara gegn Jimmie Rivera og gömlum Urijah Faber.

Spá: Aldo stendur sig vel í byrjun en ég á erfitt með að treysta hökunni á 33 ára gömlum Aldo sem er með allar þessar mílur á tankinum. Yan sigrar með TKO í 4. lotu.

1. Kamaru Usman gegn Jorge Masvidal (UFC 251, 11. júlí)

Langstærsti og áhugaverðasti bardagi mánaðarins. Masvidal kemur inn með viku fyrirvara og verður stærsta spurningin hvort Masvidal sé nógu vel undirbúinn fyrir Kamaru Usman. Masvidal hefur sýnt að hann er með góða felluvörn en er hún nógu góð fyrir Usman? Usman getur auk þess haldið mönnum upp við búrið lengi og lamið þá aðeins þar. Masvidal þarf samt ekki nema eitt gott högg (eða gott hné) og er hann því alltaf hættulegur.

Spá: Usman er stærri, sterkari og í betra standi akkúrat núna. Usman sigrar eftir dómaraákvörðun.

Pétur Marinó Jónsson
Pétur Marinó Jónssonhttps://www.mmafrettir.is
Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Viaplay
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

- Advertisment -

Most Popular