Þá er loksins komið að því, eins og Gandalfur sagði svo eftirminnilega „The great battle of our time“. Ef allt gengur að óskum mætast Conor McGregor og Khabib Nurmagomedov í búrinu eftir fáeina daga. Það er ýmislegt annað í boði í október en í raun snýst þessi mánuður bara um þennan epíska viðburð. Rennum samt yfir topp tíu, svona til málamynda.
10. UFC Fight Night 138, 27. október – Misha Cirkunov gegn Patrick Cummins (létt þungavigt)
Misha Cirkunov var á hraðri uppleið fyrir stuttu en hefur núna verið rotaður tvisvar í röð. Styrkur Cirkunov er glíman en hér mætir hann öðrum glímumanni. Það er gaman að sjá ólíka stíla en það er líka áhugavert að sjá svipaða stíla. Cirkunov er betri í uppgjafartökum en Cummins er góður í að stjórna.
Spá: Þetta verður harður bardagi en Cirkunov afgreiðir Cummins með uppgjafartaki í annarri lotu.
9. UFC 229, 6. október – Sergio Pettis gegn Jussier Formiga (fluguvigt)
Þessir tveir, ásamt t.d. Joseph Benavidez, Ray Borg og John Moraga virðast vera að snúast í hringi í fluguvigt. Þeir berjast við hvorn annan en virðast ekki geta unnið topp hundana, þ.e. Henry Cejudo og Demetrious Johnson. Þessi viðureign er samt áhugaverð. Jussier Formiga er frábær gólfglímumaður og Sergio Pettis er mjög góður standandi. Sigurvegarinn hér verður í mjög góðri stöðu til að skora á meistarann fljótlega.
Spá: Ég hallast að Pettis. Hann heldur bardaganum þar sem honum hentar og sigrar á stigum.
8. UFC 229, 6. október – Michelle Waterson gegn Felice Herrig (strávigt kvenna)
Þessar tvær eru báðar á topp tíu í strávigt kvenna. Báðar eru góðar en hafa lent í vandræðum gegn þeim bestu. Þessi bardagi gefur sigurvegaranum færi á að skora aftur á eina af þeim bestu og blanda sér þar með í toppbaráttuna.
Spá: Herrig hefur litið betur út upp á síðkastið, hún tekur þetta á stigum.
7. UFC Fight Night 138, 27. október – Artem Lobov gegn Zubaira Tukhugov (fjaðurvigt)
Þessi bardagi er spennandi fyrst og fremst út af Conor/Khabib tengingunni. Það þekkja allir forsöguna af rútuatvikinu þar sem Artem Lobov talaði illa um Khabib Nurmagomedov í viðtali og Khabib tók hann svo tali á hóteli. Hér mætir Lobov einum úr gengi Khabib svo það verða miklar tilfinningar í spilinu. Zubaira er mjög efnilegur bardagamaður. Hann tapaði naumlega sínum síðasta bardaga gegn Renato Moicano en sigraði þar áður níu bardaga í röð.
Spá: Zubaira ætti að vera almennt betri, hann sigrar á stigum.
6. UFC 208, 13. október – Fedor Emelianenko gegn Chael Sonnen (þungavigt)
Venjulega myndu þessir kappar ekki komast á listann en það er eitthvað tælandi við þennan bardaga, hann er bara of klikkaður. Aldrei hefði nokkrum dottið í hug að Chael Sonnen myndi berjast við Fedor Emelianenko en mann langar að sjá þennan sirkús. Við getum kannski líkt þessu við myndina The Meg – við vitum að þetta er ekki það besta sem Hollywood hefur upp á að bjóða en þetta er risa hákárl og mig langar að sjá hann!
Spá: Fedor kemur inn þungu höggi í fyrstu lotu og Sonnen gefst upp í fósturstellingu.
5. Bellator 207, 12. október – Matt Mitrione gegn Ryan Bader (þungavigt)
Ryan Bader er upp á sitt besta í léttþungavigt en það verður gaman að sjá hvað hann getur farið langt í þungavigt. Þetta er auðvitað hluti af þungavigtarmóti Bellator svo það er mikið í húfi. Hvað gerir Bader á móti risastórum manni eins og Matt Mitrione?
Spá: Bader hefur verið óstöðvandi undanfarið. Ég held að hann finni leið til að sigra í gegnum glímuna. TKO í þriðju lotu.
4. UFC 229, 6. október – Derrick Lewis gegn Alexander Volkov (þungavigt)
Þetta er mjög áhugaverður bardagi í þungavigt og mjög ólíkir stílar. Við erum farin að þekkja Derrick Lewis ágætlega og við vitum hvað hann getur (og getur ekki) en Alexander Volkov er dularfyllri bardagamaður. Volkov hefur unnið sex bardaga í röð, síðastu þrjá gegn Roy Nelson, Stefan Struve og Fabrício Werdum. Hvað gerir hann á móti rotara eins og Lewis?
Spá: Volkov þreytir Lewis, heldur sig frá honum og sigrar nokkuð örugglega á stigum.
3. UFC Fight Night 138, 27. október – Volkan Oezdemir gegn Anthony Smith (léttþungavigt)
Þessir tveir eru beint úr bíómynd. Gætu verið úr t.d. fangelsismynd með einhverjum eins og Wesley Snipes. Hetjan Wesley Snipes lendir í einhverri holu og er látinn berjast en fyrst fáum við að sjá bardaga með hörðustu jöxlunum á staðnum og það væru þeir Volkan og Anthony Smith. Báðir þessir kappar eru ógnvekjandi og berjast eins og villidýr. Báðir geta rotað og gera það oftar en ekki.
Spá: Ég get ekki beðið. Ég ætla að skjóta á Smith, rothögg í fyrstu lotu.
2. UFC 229, 6. október – Tony Ferguson gegn Anthony Pettis (léttvigt)
Hér fáum við frábæran bónus á þessu spennandi bardagakvöldi. Anthony Pettis virðist vera búinn að finna aftur mojo-ið sitt eftir misjafnt gengi undanfarin ár. Ferguson er einn hættulegasti bardagamaðurinn í þyngdarflokknum en hvernig mun hann líta út eftir árs fjarveru og meiðsli? Stílar þessa manna nánast gulltryggja skemmtilegan bardaga svo bara góða skemmtun!
Spá: Þetta verður fjörugt en ég held að Ferguson sé bara betri á þessum tímapunkti. Hann vinnur á stigum.
1. UFC 229, 6. október – Khabib Nurmagomedov gegn Conor McGregor (léttvigt)
Þessi bardagi varð að eiga sér stað og …krossleggið fingur… hann er að fara að skella á. Í grunninn er þetta hreinræktaður „striker vs. grappler“ bardagi og það virðist ljóst hvor mun hafa yfirhöndina standandi og í gólfinu. MMA er hins vegar aldrei svona einfalt. Daniel Cormier rotaði Stipe Miocic þegar allir héldu að hans möguleikar væru nær eingöngu á gólfinu. Annað dæmi er þegar glímumaðurinn Chris Weidman rotaði Anderson Silva á eftirminnilegan hátt. Það er sjaldnar sem dæmið snýst við, þar sem sterkari glímumaðurinn lætur í minni pokann á gólfinu en það getur gerst, sérstaklega ef glímumaðurinn er sleginn niður. Í það minnsta getur sá sem vill standa varist fellum og refsað strax í kjölfarið. Þessi bardagi virðist fyrst og fremst snúast um það. Getur McGregor haldið þessu standandi eða verður þetta enn ein glímusýningin frá Rússanum?
Spá: Það er aldrei hægt að afskrifa Conor McGregor en það er erfitt að spá honum sigri hér. Nurmagomedov er ósigraður og hefur ekki tapað svo mikið sem lotu í UFC. Ég held að þetta verði barsmíðar, Rússinn dregur Írann í gólfið og lemur hann í um þrjár lotur, dómarinn stöðvar svo barsmíðarnar í fjórðu lotu, TKO Nurmagomedov.