0

10 áhugaverðustu MMA bardagarnir í október 2019

Haustið er komið og október er litríkur og fallegur, bæði ef horft er út um gluggann og í MMA heiminum. Það er skemmtilegt bland í poka í boði og risastór bardagi í Ástralíu.

10. UFC 243, 6. október – Tai Tuivasa gegn Sergey Spivac (þungavigt)

Við vitum hvað við erum að fá hér. Þessir tveir munu varpa bombum þar til annar fellur eða báðir verða þreyttir og fara að hnoðast. Spivac kom ósigraður inn í UFC en tapaði fljótt gegn Walt Harris. Hvernig gengur honum á móti Tuivasa á heimavelli?

Spá: Svar, ekki vel. Tuivasa rotar Spivac í fyrstu lotu.

9. UFC Fight Night 161, 12. október – Joanna Jędrzejczyk gegn Michelle Waterson (strávigt kvenna)

„The Karate Hottie“ Michelle Waterson hefur sýnt að hún á möguleika í toppbaráttuna í strávigt kvenna en hún vann Karolina Kowalkiewicz í hennar síðasta bardaga. Nú fær Waterson erfiðara próf gegn fyrrverandi meistara. Jędrzejczyk var frábær meistari en hún hefur greinilega dalað og hefur nú tapað þremur af síðustu fjórum bardögum. Hver fer upp og hver fer niður?

Spá: Jędrzejczyk út-spark-boxar Waterson og tekur þetta á stigum.

8. ONE Championship: Century, 13. október – Demetrious Johnson gegn Danny Kingad (fluguvigt)

Demetrious Johnson heldur áfram að berjast og vinna þó svo að færri á Vesturlöndum verði var við það. Hér er hann kominn í úrslitabardagann í fluguvigtarmóti ONE. Andstæðingurinn er Danny Kingad frá Filippseyjum. Sá hefur unnið sex bardaga í röð og ætti að vera seigur, enda kominn í þessa stöðu.

Spá: Ekki hægt annað en að spá DJ sigri, segjum „guillotine“ í þriðju lotu.

7. UFC Fight Night 161, 12. október – Cub Swanson gegn Kron Gracie (fjaðurvigt)

Kron Gracie tilraunin heldur áfram. Nú er jiu-jitsu snillingurinn með erfiðan reynslubolta fyrir framan sig. Swanson er 35 ára og kominn yfir sitt besta en hann er með 36 MMA bardaga á bakinu og skal ekki vanmeta. Gracie er aðeins með fimm MMA bardga en hann er stórkostlegur glímumaður og mjög spennandi efni í fjaðurvigt.

Spá: Eftir erfiða byrjun nær Gracie að draga Cub í gólfið og nær „rear naked choke“ í annarri lotu.

6. UFC on ESPN 6, 18. október – Jeremy Stephens gegn Yair Rodriguez (fjaðurvigt)

Stórkostlegt að þessi bardagi skuli vera kominn aftur á dagskrá svona stuttu eftir augnpotið í Mexíkó. Verst að hann skuli ekki lengur vera fimm lotur en við látum okkur hafa það. Þetta er stórt próf fyrir Rodriguez og ætti að segja okkur hvort hann sé klár í stóru strákana í fjaðurvigt en Stephens er hrikalega hættulegur.

Spá: Síðast spáði ég Rodriguez en eftir þetta vesen á honum síðast spái ég nú að Stephens roti hann í fyrstu lotu, kannski óskhyggja.

5. UFC 243, 6. október – Al Iaquinta gegn Dan Hooker (léttvigt)

Þessi bardagi er svolítið að falla í skuggann á Whittaker gegn Adesanya bardaganum sem er skiljanlegt. Léttvigt er endalaus uppspretta af spennandi bardögum og þessi er sá næsti í röðinni. Báðir þessir kappar hafa daðrað við toppinn í þyngdarflokknum en hvorugur komist alla leið. Hvað sem því líður þá er þetta trylltur bardagi og mikilvægur upp á framhaldið fyrir báða.

Spá: Hooker útboxar Iaquinta í spennandi bardaga og vinnur á stigum.

4. Bellator 232, 26. október – Rory MacDonald gegn Douglas Lima (veltivigt)

Það liggur enginn vafi á að þessir tveir eru þeir bestu í veltivigt í Bellator. Þeir mætast nú aftur í úrslitabardaga veltivigtarmótsins. Fyrsti bardaginn var í janúar í fyrra en þá vann MacDonald á stigum í frekar jöfnum bardaga. Spurningin núna er því hvor hefur lært meira af síðasta bardaga og gert viðeigandi breytingar?

Spá: Rory er góður í skák, segjum að hann endurtaki leikinn, sigur á stigum.

3. UFC Fight Night 162, 26. október – Demian Maia gegn Ben Askren (veltivigt) 

Það má segja að upphaf UFC ferils Ben Askren hafi verið frekar óvenjuleg. Fyrst er hann næstum rotaður af Robbie Lawler en nær samt að vinna hann á umdeildan hátt (alls ekki honum að kenna). Næst er hann rotaður á fimm sekúndum af Jorge Masvidal. Nú á Askren að mæta einum besta glímumanni í bransanum í áhugaverðri viðureign í Singapúr. Hann verður sennilega ekki rotaður en er hann betri MMA glímumaður en Maia?

Spá: Mjög erfitt að segja en ég ætla að skjóta á að Askren taki þetta á stigum.

2. UFC on ESPN 6, 18. október – Dominick Reyes gegn Chris Weidman (léttþungavigt)

Það gekk ekki vel hjá Luke Rockhold að þyngja sig upp, verður þetta sama sagan hjá Chris Weidman? Líkt og Rockhold er Weidman ekki beint að byrja á auðveldum andstæðingi. Reyes er ósigraður, 29 ára, 193 cm risi sem meðal annars rotaði Jared Cannonier í fyrra.

Spá: Ég er hrifinn af Weidman en held að þetta verði enn eitt rothöggið. Reyes KO í 2. lotu.

1. UFC 243, 6. október – Robert Whittaker gegn Israel Adesanya (millivigt)

Einn besti bardagi ársins er bara næstu helgi. Það er erfitt að ímynda sér hvað gerist þegar þessir tveir spenanndi stílar mætast en það er nákvæmlega það sem gerir þennan bardaga spennandi. Þessi bardagi verður á 50 þúsund manna leikvangi í Ástralíu sem er sturlað. Er Adesanya tilbúinn í Whittaker? Er Whittaker slitinn eftir erfið stríð gegn Yoel Romero? Mun kannski Whittaker nýta tækifærið og sýna hvað hann er góður glímumaður? Við komumst að því um helgina.

Spá: Adesanay sigrar eftir erfiðan standandi bardaga, TKO í fjórðu lotu.

Óskar Örn Árnason

Óskar Örn Árnason

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.