spot_img
Sunday, November 24, 2024
Minigarðurinnspot_imgspot_imgspot_img
HomeErlent2016: Bestu uppgjafartök ársins

2016: Bestu uppgjafartök ársins

Árið 2016 er að baki svo það er ekki annað að gera en að líta yfir undanfarna 12 mánuði og rifja upp það besta sem árið hafði upp á að bjóða.

Uppgjafartök í MMA geta komið jafn skyndilega og með jafnmiklum áhrifamætti og rothögg. Þau eru samtímis falleg og hræðileg og eru á ákveðinn hátt meira afgerandi en rothögg þar sem þau láta andstæðinginn gefast upp. Við val á bestu uppgjafartökunum þarf að hafa í huga samhengi bardagans, getu andstæðingsins og mikilvægi sigursins. Lítum yfir bestu uppgjafartök ársins.

10. Anthony Pettis gegn Charles Oliveira

Fyrir þennan bardaga var vitað að báðir menn væru seigir á gólfinu en tilfinningin var almennt sú að ef einhver myndi klára bardagann í gólfinu yrði það Oliveira. Það varð hins vegar ekki raunin þar sem það var Pettis sem afgreiddi svartbeltinginn með þéttri „arm-in guillotine“ hengingu í þriðju lotu.

9. Michael Page gegn Jeremie Holloway

Michael ‘Venom’ Page er einn mest spennandi bardagamaður í heimi sem berst ekki í UFC. Hann er þekktur fyrir að vera rotari en í apríl kláraði hann bardaga eftir um tvær mínútur í fyrstu lotu með mjög sjaldgæfu uppgjafartaki. Page virtist vera að verjast þar Nicholson gafst skyndilega upp fyrir „toe hold“ taki.

8. Misha Cirkunov gegn Alex Nicholson

Misha Cirkunov er einn af mest spennandi bardagamönnunum í léttþungavigtinni eftir frammistöðu hans á árinu. Þrír sigrar, þrjú uppgjafartök. Þessi bardagi gegn Alelx Nicholson er gott dæmi um líkamlegan styrk hans og glímuhæfileika. Cirkunov náði bakinu í annarri lotu og beitti kreysti þar til kjálki Nicholson brotnaði en brotið heyrðist eftirminnilega í sjónvarpsútesendingunni.

7. Demian Maia gegn Carlos Condit

Allir vissu að Demian Maia væri betri í gólfinu en engann óraði fyrir að það tæki hann aðeins tæpar tvær mínútur að afgreiða Carlos Condit. Condit er almennt þekktur yfir mikla hörku og hann hefur verið nokkuð seigur á gólfinu – í það minnsta hefur hann verið fullfær um að lifa af undanfarin 10 ár þar til núna. Maia einfaldlega keyrði hann í gólfið, tók bakið og kláraði bardagann með „rear-naked choke“.

Mynd: Kjartan Páll Sæmundsson.

6. Gunnar Nelson gegn Albert Tumenov

Eini bardagi Gunnars á árinu var dásamlegur. Albert Tumonov er ógnvekjandi andstæðingur en Gunnar var fullur sjálfstrausts þrátt fyrir erfitt tap gegn Demian Maia hálfu ári áður. Gunnar var með yfirhöndina allan tímann og tók Tumenov niður í fyrstu og annarri lotu. Þetta var bara spurning um tíma en afgreiðslan kom um miðja aðra lotu. Gunnar tók bakið, líkt og Misha Cirkunov, og setti hræðilega pressu á kjálkann þar til Tumonov varð að játa sig sigraðan.

5. Michael Chiesa gegn Beneil Dariush

Michael Chiesa hefur um árabil verið í hópi með þeim efnilegri í léttvigt. Þessi bardagi gegn Beneil Dariush opnaði augu margra og kom honum virkilega á kortið. Beneil Dariush er frábær glímumaður, með svart belti í Jiu-jitsu, með mikla reynslu og er stór í þyngdarflokknum. Chiesa sigraði Dariush með „rear-naked choke“ í annarri lotu en sigurinn kom honum í 8. sæti á styrkleikalista UFC.

4. Brian Ortega gegn Diego Brandao

Það eru margir spenntir fyrir Brian Ortega enda virðist hann vera hálfgert undrabarn í gólfglímu. Bardagi hans gegn Diego Brandao var ansi magnaður en í þriðju lotu féll Brandao í köngulóarvef sem hann gat ekki klórað sig úr. Ortega fór úr „anaconda“ í „guillotine“ og þaðan í „triangle“ á aðeins nokkrum sekúndum.

3. Nate Diaz gegn Conor McGregor

Hver getur gleymt þessum bardaga? Conor McGregor átti að berjast við Rafael dos Anjos um beltið í léttvigt, dos Anjos meiddist og inn kom Nate Diaz með stuttum fyrirvara. McGregor virtist vera á leiðinni að sigra en var þó að hlaða í höggin og hitta verr en venjulega. Í annarri lotu varð McGregor þreyttur, Diaz náði að meiða hann með höggum sem olli því að McGregor reyndi fellu sem endaði á versta mögulega hátt fyrir hann.

2. Josh Barnett gegn Ben Rothwell

Uppgjöf Josh Barnett er markverð fyrst og fremst af því að þetta er í fyrsta og eina skiptið sem kappinn hefur verið stoppaður með uppgjafartaki í 43 bardögum. Barnett hefur sjálfur afgreitt 21 andstæðing með uppgjafartaki auk þess að hafa glímt á hinum ýmsu glímu og Jiu-jitsu mótum. Í bardaganum gegn Ben Rothwell gekk Barnett beint í gildru sem Rothwell hafði fullkomnað. Hengingin kallast „gogo choke“ og virkar eins og afbrigði af „guillotine“ hengingu nema að höndum er læst saman undir höku andstæðingsins og bringan notuð til að búa til óbærilega pressu.

1. Holly Holm gegn Misha Tate

Aðeins til að rifja upp. Holly Holm hafði hrifsað til sín titilinn af Rondu Rousey með látum. Holly var ósigraður meistari og virtist vera á leiðinni að sigra Mieshu Tate á stigum þegar komið var að fimmtu og síðustu lotuna. Tate varð að klára bardagann svo þegar hún náði taki á Holm var ekki ekki séns í helvíti að hún myndi sleppa. Tate náði baki og kreisti þar til Holly var meðvitundarlaus og sáum við nýjan meistara krýndan. Uppgjafartakið fær fyrstu verðlaun fyrir mikilvægi og dramatík.

spot_img
spot_img
spot_img
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

spot_img
spot_img

Most Popular