spot_img
Friday, November 22, 2024
Minigarðurinnspot_imgspot_imgspot_img
HomeForsíðaAlan Jouban talar um tapið gegn Gunnari

Alan Jouban talar um tapið gegn Gunnari

Gunnar Nelson Alan Jouban
Mynd: Sóllilja Baltasardóttir.

Alan Jouban var mættur í gær í hlaðvarpið sitt ásamt Karyn Bryant. Þar fór hann ítarlega yfir bardagann gegn Gunnari en Jouban er með engar afsakanir.

Gunnar Nelson sigraði Alan Jouban með hengingu í 2. lotu um síðustu helgi. Gunnar vankaði Jouban með beinni hægri og kláraði svo bardagann í gólfinu.

Jouban var ekki eins leiður eftir tapið eins og venjulega eftir töp. „Gunnar sýnir virðingu og það voru engin illindi á milli okkar. Þetta var góður bardagi, hann var betri og við spjölluðum saman eftir bardagann. Ef ég á að tapa er fínt að ég tapaði fyrir manni sem er mjög góður íþróttamaður og einstaklingur. Það er aðeins betra.“ sagði Jouban.

Þetta var fyrsta heimsókn Jouban til London og náði hann að túristast aðeins sem gerði ferðina skemmtilegri í heild sinni. Það hefði verið frábært að vinna en þetta var frábær reynsla fyrir hann.

Þeir Gunnar og Jouban áttu gott spjall á barnum eftir bardagann þar sem Gunnar þakkaði honum fyrir að taka bardagann. Það kom Jouban á óvart enda hafði UFC einnig þakkað honum fyrir að taka bardagann. Jouban var sá fimmti sem UFC reyndi að fá fyrir Gunnar í London og fannst Jouban gaman að vita að enginn vildi taka þennan bardaga.

Jouban lenti undir í „mount“ í 1. lotu og segir hann það vera eitt það versta sem gæti gerst gegn Gunnari. Jouban leið þó ágætlega þar enda var hann búinn að æfa þá stöðu mikið.

Þegar Jouban horfði aftur á bardagann var hann hissa á að þessi beina hægri frá Gunnari hefði vankað hann. „Það er ekki krafturinn í högginu sem skiptir máli heldur höggin sem þú sérð ekki. Þetta kom beint á mig þegar ég var að skipta um stöðu. Ég hélt ég væri fínn en lappirnar gáfu sig. Hann tímasetti þetta þegar ég var ekki í stöðu. Þetta meiddi mig ekki, ég fann ekkert mikið fyrir þessu en lappirnar gáfu sig.“

Jouban segir að það sé mjög erfitt að tappa sig út en fannst hann verða að tappa strax út þegar Gunnar læsti hengingunni þar sem hann var að draga inn andann akkúrat þegar Gunnar læsti hengingunni. Jouban fannst leiðinlegt að sjá hversu fljótt hann tappaði út og hefði viljað verjast hengingunni betur og lengur en viðurkennir að hann hafi ekki alveg verið að hugsa skýrt eftir að hafa fengið þessa beinu hægri frá Gunnari.

Jouban var með engar afsakanir fyrir tapinu og sagðist aldrei hafa verið betri á leið í búrið. Þessi Jouban sem var í búrinu á laugardaginn er sá besti Alan Jouban sem barist hefur í UFC. Honum leið frábærlega í búrinu, í upphituninni og var 100% tilbúinn. Jouban hrósaði Gunnari og sagði að hann hefði einfaldlega verið betri bardagamaðurinn.

Tapið er ekki svo sárt fyrir Jouban þar sem hann veit að hann hefði ekki getað undirbúið sig betur fyrir bardagann. Jouban er ekkert meiddur eftir bardagann og vonast til þess að snúa aftur í júlí þegar International Fight Week fer fram.

Þáttinn má hlusta á hér að neðan en þar gæða þau sér á kampavíni og smákökum á meðan þau ræða helgina.

spot_img
spot_img
spot_img
Pétur Marinó Jónsson
Pétur Marinó Jónssonhttps://www.mmafrettir.is
Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Viaplay
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

spot_img
spot_img

Most Popular