spot_img
Sunday, December 22, 2024
Minigarðurinnspot_imgspot_imgspot_img
HomeForsíðaAndstæðingur Bjarka: Án hnésparksins hefði ég klárað bardagann hvort sem er

Andstæðingur Bjarka: Án hnésparksins hefði ég klárað bardagann hvort sem er

Alan Procter. Mynd af Facebook síðu Fight Star.

Bjarki Þór Pálsson vann um síðustu helgi Englendinginn Alan Procter eftir að sá síðarnefndi var dæmdur úr leik. Við náðum tali af Procter og fengum aðeins að heyra hans hlið málsins.

Bjarki Þór naut mikilla yfirburða fyrstu tvær loturnar en í þriðju lotu fór Bjarki niður á hnén til að fara í fellu en Procter veitti honum hnéspark í höfuðið sem er ólöglegt. Dómarinn sá ekki ólöglega höggið og leyfði því Procter að komast í yfirburðarstöðu þar sem hann veitti Bjarka nokkur högg í viðbót áður en dómarinn stöðvaði bardagann.

Eftir að dómarinn sá myndband af atvikinu var Procter dæmdur úr leik og Bjarka dæmdur sigur. Við heyrðum í Procter í dag og fengum að vita hvernig bardaginn var út frá hans sjónarhorni.

„Fyrstu sekúndurnar í fyrstu lotu voru allt í lagi. Við skiptumst á höggum þar sem ég náði inn fleiri höggum en var snemma tekinn niður. Ég var ekki duglegur af bakinu og var ekki mikið að reyna að komast upp þannig að ég fékk mikið af höggum í mig í gólfinu. Ég náði að lifa af lotuna en var dauðþreyttur,“ segir Procter.

„Önnur lota var verri. Ég var tekinn auðveldlega niður og aftur gerði ég ekkert af bakinu. Hann stjórnaði mér í gólfinu og var næstum búinn að klára mig í lok lotunnar. Ég var nálægt því að tapa í mjög einhliða bardaga.“

„Eftir það small eitthvað hjá mér og ég fékk aukakraft. Ég kom þreyttur en hungraður til leiks í 3. lotu til að reyna að rétta úr kútnum. Ég hafði betur standandi þar til við lentum í clinchinu. Ég kýldi fast sem ég held að hafi meitt hann. Ég veit ekki hvort hann hafi byrjað að falla eða farið í fellu í örvæntingu sinni, kannski bara bæði. Á leiðinni niður hnjáa ég hann, haldandi að hann væri ennþá standandi en því miður var tímasetningin mín ekki góð og ég hitti í hann um leið og hnén hans snertu gólfið.“

„Á þessum tímapunkti hafði ég ekki hugmynd um að hnéð hefði hitt á röngum tíma. Dómarinn stoppaði ekki bardagann svo ég hélt áfram í mount til að klára andstæðinginn. Það var þá sem hornið kvartaði og dómarinn breytti ákvörðuninni.“

„Ég vissi ekki að hann væri með hnén á gólfinu. Þetta var illa tímasett hjá mér. Dómarinn var sjálfur ekki einu sinni viss fyrr en eftir þrjár til fjórar endursýningar. Þetta var mjög óheppilegt að mínu mati.“

Procter var fyrst um sinn í skýjunum eftir sigurinn en varð svo vonsvikinn þegar hann komst að því að hnésparkið hefði verið ólöglegt. „Ég hélt í alvöru að ég hefði ekki gert neitt rangt og var mjög vonsvikinn. Mér finnst ég ekki hafa átt að tapa og held að rétta niðurstaðan væri að dæma bardagann ógildan [no contest].“

Eftir bardagann póstaði Procter þessari mynd á Instagram síðu sína:

Við myndina segir Procter: „Got disqualified last night for an illegal knee. I might have lost the match but I definitely won the fight.“ Þau ummæli hafa fallið í grýttan jarðveg hjá íslenskum MMA aðdáendum en hvað átti Procter eiginlega við með þessu?

„Það sem ég átti við var að ég stóð í lappirnar en andstæðingurinn ekki. Vissulega eftir ólöglegt hné en það var óvart. Það er ekki eins og ég hafi potað í augað á honum og klárað hann þannig. Það má hnjáa í hausinn en í þessu tilfelli var það bara illa tímasett hjá mér. Ég trúi því að án hnésparksins hefði ég komist í mount og klárað bardagann hvort sem er. Hnéð vankaði hann vissulega.“

Procter hefur verið rakkaður niður í ummælum við myndina af Íslendingum sem kalla hann m.a. svindlara. „Mér finnst þetta bara fyndið. Ég ætlaði ekki að móðga neinn ef ég á að segja eins og er. Orðalagið mitt var kannski klaufalegt svona þegar ég lít til baka en þetta er búið og gert. Fólk missti sig kannski aðeins en mér er svo sem sama.“

„Mér þykir leitt að ég hafi ekki verið miðvitaður um stöðuna. Það var mjög óheppilegt að hnéð skyldi hafa hitt þegar hann var niðri en mér finnst ég ekki hafa gert neitt rangt. Við vorum að berjast þegar upp er staðið þar sem er leyfilegt að veita hné í höfuð.“

Bjarki Þór var gestur okkar í Tappvarpinu í gær og minntist hann á að honum hefði verið boðið að keppa aftur fyrir Fight Star bardagasamtökin í apríl. Bjarki var auðvitað til í endurat (e. rematch) en er Procter til í það?

„Ég á bardaga í mars í WFS bardagasamtökunum. Ef ég kem nokkuð heill úr því er ég 100% til í endurat gegn honum.“

Alan Procter. Mynd af Facebook síðu Fight Star.
spot_img
spot_img
spot_img
Pétur Marinó Jónsson
Pétur Marinó Jónssonhttps://www.mmafrettir.is
Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Viaplay
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

spot_img
spot_img

Most Popular