Saturday, April 20, 2024
HomeForsíðaAnna Soffía: Set stefnuna á að ná sem lengst í BJJ

Anna Soffía: Set stefnuna á að ná sem lengst í BJJ

Anna Soffía fyrir miðju eftir sigur á Mjölnir Open fyrr á árinu. Mynd: Kjartan Páll Sæmundsson.
Anna Soffía fyrir miðju eftir sigur á Mjölnir Open fyrr á árinu.
Mynd: Kjartan Páll Sæmundsson.

Anna Soffía Víkingsdóttir sigraði bæði sinn flokk og opinn flokk kvenna á Fenrir Open mótinu sem fram fór um helgina. Við heyrðum í henni og spjölluðum við hana um mótið, MMA og Rondu Rousey.

Anna Soffía hefur margra ára reynslu af júdó og brasilísku jiu-jitsu. Anna er margfaldur Íslandsmeistari í bæði júdó og BJJ og hélt uppteknum hætti síðasta laugardag á Fenrismótinu. Þar keppti hún í +76 kg flokki kvenna og vegnaði vel. „Það gekk mjög vel að mínu mati, ég var búin að ákveða fyrir mótið að glíma hratt og sækja mikið í lása og hengingar sem ég gerði. Glímurnar voru því hraðar og skemmtilegar,“ segir Anna.

„Maður lærir alltaf eitthvað af mótum þó svo maður átti sig ekki á því fyrr en seinna. Á þessu móti sérstaklega kom upp ein lexía. Það er að hita vel upp, þetta átti ég að vita fyrir. Í júdóinu lærði ég að eiga mínu fyrstu glímu utan vallar og það hefur hjálpað mér mikið á mótum. Ég er að reyna að koma þessu inn hjá mér þegar ég er að keppa í BJJ, vonandi fer ég að læra þetta.“

Anna keppti tvær glímur í sínum flokki og þrjár í opnum flokki. Góður andi ríkti á mótinu en rúmlega 60 keppendur voru skráðir til leiks. „Það var frábært andrúmsloft og góður mórall á meðal allra keppenda sama hvaða félagi þau voru í. Á svona litlu landi er nauðsynlegt að við séum öll komin saman til þess að læra af hvort öðru en ekki bara keppa.“

Á flestum glímumótum hér heima og erlendis eru karlkyns keppendur í meirihluta. Stelpur eiga það til að vera hikandi við að skrá sig til keppni og kannski feimnari við að keppa heldur en strákar. En hvers vegna eru margar stelpur svona hikandi við að keppa í BJJ? „Að mínu mati held ég að þetta tengist oft uppeldi. Þetta var svona líka í júdó, stelpur eru stundum hikandi við að keppa. Strákar fá oft meiri hvatningu til þess að keppa eða henda sér út í eitthvað og hafa annað viðhorf gagnvart því. Þetta verður því oft stærra skref fyrir stelpur og þurfa þær að fara mun lengra út fyrir þægindarammann sinn. Hins vegar vil ég hvetja allar stelpur til þess að keppa. Mér finnst ég allavega sjálf læra og bæta game-ið mitt með því að keppa, sem ég myndi kannski ekki ná að gera á æfingum.“

Mynd: Hermann Torfi.
Mynd: Hermann Torfi.

Anna hefur verið að keppa í boxi að undanförnu en er hún að íhuga að fara í MMA? „Ég var að íhuga það á tímabili og aldrei að vita nema maður prófi það einhvern tímann. Mér finnst gaman að fara út fyrir þægindarammann minn og ég gerði það með því að keppa í hnefaleikum. Hins vegar eins og er set ég stefnuna að ná sem lengst í BJJ. Set stefnuna að fara á fullt að keppa í BJJ og ætla að fara á stærstu mótin eins og Europeans og Worlds.“ Evrópumeistaramótið fer fram í janúar í Portúgal en 22 Íslendingar voru skráðir til leiks síðast.

Ronda Rousey er ein stærsta stjarnan í MMA í dag. Líkt og Anna Soffía er Rousey með góðan bakgrunn í júdó og keppti Anna gegn henni á sínum tíma. „Ég hef keppt tvisvar við Rondu í júdó og verið með henni á æfingabúðum. Hún er magnaður íþróttamaður með einhvern mesta sprengikraft sem ég hef fundið fyrir. Hún hins vegar átti það til að vera dónaleg og ef henni gekk ekki vel á æfingum þá lét hún það bitna á stelpunum sem hún var að glíma við. Rauk út af æfingum og jafnvel vellinum án þess að þakka andstæðing sínum fyrir. Hins vegar hefur hún hækkað mikið í áliti hjá mér undanfarið með hvernig hún notar frægðina sína eins og t.d. þegar hún skaut á Mayweather,“ segir Anna Soffía að lokum.

Við þökkum henni kærlega fyrir viðtalið og óskum henni til hamingju með árangurinn um helgina.

Pétur Marinó Jónsson
Pétur Marinó Jónssonhttps://www.mmafrettir.is
Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Viaplay
RELATED ARTICLES

1 COMMENT

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

- Advertisment -

Most Popular