spot_img
Sunday, December 22, 2024
Minigarðurinnspot_imgspot_imgspot_img
HomeForsíðaÁrni Ísaksson: Kannski átti ég bara að vera þjálfari (Seinni hluti)

Árni Ísaksson: Kannski átti ég bara að vera þjálfari (Seinni hluti)

árni ísaksson
Mynd: Kjartan Páll Sæmundsson.

Árni Ísaksson hefur nú lagt hanskana á hilluna víðfrægu. Í þessum seinni hluta viðtals okkar við hann ræddum við um þróunina í æfingum hans, Gunnar og Conor, Keppnislið Mjölnis og fleira.

Sjá einnig: Árni Ísaksson – Ég er hættur

Árni hefur æft og keppt í MMA í rúman áratug og prófað ýmsar æfingaaðferðir. Þetta var ferli sem var sífellt í þróun út feril hans og geta eflaust margir atvinnuíþróttamenn sett sig í hans spor.

„Ég er búinn að ganga í gegnum allt ferlið. Reyna að vera alltof harður, reyna að vera fiðrildi og ég veit ekki hvað. Ég hef gert svo margar tilraunir í gegnum ferilinn og prófað alls konar hluti og aðferðir. En þegar ég byrjaði þá pældi ég ekki í neinu og það gerði mig líka mjög góðan. Ég var ekkert að pæla of mikið í hlutunum. Ég fékk kannski ekki alltaf réttu þjálfunina en ég er mjög þakklátur fyrir að hafa kynnst alls konar æfingum því æfingarnar hafa þróast svo mikið. Núna finnst mér ég vera farinn að skilja hvernig á að þjálfa bardagamenn án þess að þeir séu að meiðast mikið. Það skiptir öllu máli að halda sér heilum,“ segir Árni.

„Líkaminn er eins og bíll. Maður þarf að smyrja hann, gefa honum bensín, passa upp á hann, fara vel með hann og ekki yfirkeyra hann. Ef þú keyrir hann of mikið á fullu gasi brennur hann út.“

Árni hefur alltaf verið þekktur fyrir að vera afskaplega harður af sér og kannski var hann of harður um tíma. „Ég var alltaf að pusha alltof mikið, ég trúði mikið á að vera harður þannig að ég varð fyrir smá skaða alltof snemma á ferlinum. Það skemmdi pínu ferilinn en allt gerist af ástæðu og kannski átti ég bara að vera þjálfari. Þannig líður mér í dag. Það þarf einhver að hugsa um litlu börnin hérna, þetta klikkaða keppnislið,“ segir Árni og hlær.

árni ísaksson
Mynd: Kjartan Páll Sæmundsson.

Þegar Árni byrjaði í MMA var hann að mestu sparkboxari en þróaðist síðar út í að vera góður á öllum vígstöðum bardagans. Hann kynntist John Kavanagh árið 2006 og hófst góður vinskapur á milli þeirra upp frá því. „Þegar ég hitti hann fyrst hér á Íslandi spurði ég hann hvort hann kynni eitthvað sparkbox en hann sagði ‘nei ég er alltof fallegur til þess’ eins og honum einum er lagið. Ég sagðist ætla að koma og æfa hjá honum og hann sagði bara ‘jájá’. Þá var ég mikill thaiboxer, rosa harður gaur og hann hélt ég væri bara eitthvað að djóka en eftir tvær vikur var ég kominn til Írlands og bjó ég hjá honum í smá tíma. Upp frá því hafði ég miklu meiri áhuga á BJJ [brasilískt jiu-jitsu] og þetta varð allt svo miklu skemmtilegra eftir að ég tengdi allt saman.“ Af 12 sigrum Árna komu sex eftir uppgjafartök.

Árni hefur gríðarlega mikla reynslu í MMA en hvaða ráð myndi hann veita upprennandi bardagaköppum? „Þolinmæði er lykillinn að árangri. Less is more stundum, selective to be effective. Það eru svo margir sem eru að læra alls konar hringspörk og fancy shit en kunna ekki fótavinnuna strax. Ég sé þetta mjög mikið, fólk er að byrja alltof snemma, alltof hratt og sparra [frjáls standandi viðureign á æfingu] strax alltof mikið. Það er eins og að vera að alltaf að keyra bílinn á kappakstursbrautinni, auðvitað muntu klessa á á endanum. Lærðu tæknina betur, lærðu að drilla [tækniæfingar] og sparraðu aðeins minna. Ég mæli með að byrja rólega, þetta er þitt ferðalag, ekki annarra. Ekki vera bara hermikráka sem hermir eftir Gunna, mér eða Conor, því þú verður aldrei nema verri útgáfa af þeim ef þú ert bara hermikráka. Finndu hvað það er sem hentar þér vel og þannig verðuru besti bardagamaðurinn.“

Árni hefur auðvitað æft gríðarlega mikið með Gunnari Nelson í gegnum árin. Á sínum tíma voru þeir einu Íslendingarnir sem voru að keppa í MMA og æfðu þeir því mikið saman. Að mati Árna er Gunnar að verða ógnvænlega góður. „Hann er mjög duglegur að æfa sig á púðunum sem margir eru ekki að gera. Maður sér að hann er duglegur að pæla í hlutunum þannig að strikingið hans er orðið miklu betra en það var. Þannig að ég er orðinn mjög spenntur fyrir því að sjá Gunna í framtíðinni. Hann hefur alltaf verið með glímuna en vantaði alltaf pínu upp á boxið fannst mér. En núna er hann kominn með þetta striking og það er scary stuff.“

Árni hefur einnig mikið æft með Conor McGregor bæði hér heima og í Írlandi. „Það var alltaf mjög erfitt að eiga við hann standandi. Ég sá alltaf mikinn efnivið í honum en hann hafði bara ekki glímuna í byrjun en allt í einu varð hann góður í því. Ég er alls ekki hissa að hann og Gunni séu komnir svona langt því þeir eru ekki að herma eftir neinum, það er enginn annar Gunni eða annar Conor.“

árni ísaksson
Mynd: Kjartan Páll Sæmundsson.

Í nóvember keppa átta Íslendingar á Evrópumóti áhugamanna í MMA. Árni fer með í för sem einn af þjálfurum Keppnisliðs Mjölnis og er hann spenntur fyrir mótinu. „Mér hefur aldrei liðið jafn vel með hópinn og það eru búin að myndast mjög sterk tengsl í hópnum. Þau eru að verða að algjörum skrímslum og eru að verða betri íþróttamenn. Ég er rosa stoltur af hópnum í dag, hef alltaf verið það en núna eru þau að blómstra. Ég spái þeim mjög góðum árangri.“

Viðtalinu þarf senn að ljúka enda þarf Árni að rjúka. Hans bíður enn einn tíminn þar sem hann deilir úr viskubrunni sínum. Áður en hann fer vill hann segja eitt að lokum. „Takk fyrir alla hjálpina, allir meistararnir sem hafa hjálpað mér. Án ykkar væri þessi saga ekki eins og hún er. Ég er ánægður með alla þjálfarana sem ég hef haft, þá góðu og þá slæmu og er ánægður með að fá að vera tengdur sportinu áfram. Þó ég sé ekki að keppa get ég gert góða hluti áfram tel ég,“ segir þessi geðþekki maður.

Árni mun alltaf skipa stóran sess í sögu MMA á Íslandi. Hann náði langt í MMA í Evrópu þrátt fyrir erfið meiðsli og oft takmarkaður aðstæður. Nú er hann endanlega kominn í annað hlutverk og mun væntanlega skipa stórt hlutverk sem þjálfari framtíðarstjarna Íslands í MMA. Við þökkum Árna kærlega fyrir viðtalið og þökkum honum fyrir allt sem hann hefur gert fyrir MMA á Íslandi.

Árni Ísaksson highlights (2012) from Mjolnir MMA on Vimeo.

spot_img
spot_img
spot_img
Pétur Marinó Jónsson
Pétur Marinó Jónssonhttps://www.mmafrettir.is
Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Viaplay
RELATED ARTICLES

1 COMMENT

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

spot_img
spot_img

Most Popular