Tuesday, March 19, 2024
HomeForsíðaBjarki Ómarsson: Er grimmari núna

Bjarki Ómarsson: Er grimmari núna

Bjarki Ómarsson berst sinn þriðja atvinnubardaga á laugardaginn. Bjarki mætir þá Finnanum Joel Arolainen á Cage 48 í Finnlandi.

Bjarki Ómarsson (1-1 sem atvinnumaður) hefur ekki náð að byrja vænlegan feril sinn sem atvinnumaður eins og hann vonaðist eftir. Bjarki hefur þurft að draga sig úr bardögum vegna meiðsla, hefur átt erfitt með að fá bardaga og tapaði illa í sínum síðasta bardaga. Bjarki átti frábæra frammistöðu þegar hann sigraði Mehmosh Raza í desember 2017 en ári síðar tapaði hann fyrir James Hendin í 1. lotu.

1-1 er ekki sú draumabyrjun sem Bjarki vonaðist eftir en nú horfir hann fram á veginn. Eftir nokkra leit fékk Bjarki bardaga hjá Cage bardagasamtökunum í Finnlandi.

„Ég er mjög sáttur að hafa fundið þennan bardaga. Ég fann þennan bardaga sjálfur, ég var bara orðinn smá depserate að finna eitthvað, þannig að ég fann þetta show. Luka [Jelcic, MMA þjálfari í Mjölni] var búinn að tala um þetta show, og ég ákvað bara að finna einhvern bardaga í fjaðurvigt og fann þennan,“ segir Bjarki um tilurð bardagans.

View this post on Instagram

3. Weeks !

A post shared by Bjarki Omarsson (@bjarkiom) on

Andstæðingurinn Joel Arolainen er finnskur og er 1-0 sem atvinnumaður. Arolainen átti ágætis feril sem áhugamaður og náði silfri á Heimsmeistaramóti áhugamanna í MMA árið 2017. Arolainen var 7-4 sem áhugamaður rétt eins og Bjarki var.

„Hann er allt í lagi alls staðar. Margir spyrja mig hvort ég sé að fara mæta wrestler eða striker, og veit ég það ekki sjálfur. Ég held að hann viti ekki einu sinni sjálfur hvar hann er bestur. Finnst hann stundum fara bara í grind, reyna að halda andstæðingnum niðri. Mér finnst hann ekki vera á mínu leveli. Hann mun ekki ná að halda mér niðri. Það verður ég sem mun halda honum niðri, allan daginn.“

Bjarki Ómarsson tapaði illa þegar hann barðist síðast en þá tapaði hann eftir tæknilegt rothögg í 1. lotu. En hvað fór úrskeiðis?

„Mér fannst ég bara taka of langt camp. Ég var að æfa fyrir fjaðurvigtarbardaga með þessa dagsetningu í huga. Það gekk ekkert að fá bardaga þangað til 10 dögum fyrir cardið en þá fékk ég þennan léttvigtarbardaga og tók það. Ég var búinn að taka næstum því 9 vikna camp og ég man að ég var mjög þreyttur andlega í þessari viku fyrir bardagann.“

„Mér fannst ég aðallega hafa tapað fyrir sjálfum mér. Ég tek mjög margt úr þessum bardaga og er það aðallega andlega frekar en eitthvað tæknilegt. Ég þarf að njóta meira í vikunni fyrir bardagann og trúa meira á sjálfan mig.“

Tapið var það fyrsta á hans ferli sem áhugamaður eða atvinnumaður sem var eftir rothögg. „Ég hef aldrei rotast, verið alveg out, vaknað og ekki vitað hvað gerðist. Hef aldrei upplifað það og þetta var ekki þannig núna. Ég man alveg eftir því þegar hann var að kýla og ég var að verja hausinn, dómarinn að stíga inn og ég man að ég hugsaði ‘núna kemur dómarinn og stoppar þetta’. Ég er feginn að hafa ekki rotast við þennan olnboga, en ég fór alveg niður við hann, en það var ekki gaman. Ég man eftir öllu mjög skýrt. Ég man bara að ég hugsaði að ég væri búinn að klúðra þessu og að ég væri að tapa.“

Bardaginn fór fram á Englandi og voru fjölskyldumeðlimir hans á staðnum.

„Pabbi var með mér úti, frændur mínir komu líka. Það var mjög erfitt að vita að fjölskyldan hefði séð þetta. Þetta var líka í fyrsta sinn sem afi minn horfði á mig berjast í beinni en hann hefur alltaf bara horft á þetta seinna. Þegar maður kom heim þá var mér alveg sama um mig en ég hugsaði að ég gæti ekki látið þau upplifa þetta aftur. Ég man að ég fór í þennan bardaga og ég vonaðist bara eftir þægilegum sigri, en núna fer ég inn með ‘kill or be killed’ hugarfar. Allan daginn. Hann gerði það á móti mér síðast, og ég gerði það ekki. Og hann drap en ekki ég.“

Bjarki segir að þessi bardagi hafi breytt miklu fyrir sig og hvernig hann hugsar um væntanlegan bardaga. „Ég er kannski aðeins grimmari á æfingum en er grimmari núna að keppa. Þetta er alltaf íþrótt, en ég horfi ekki eins mikið á þetta sem pjúra íþrótt heldur bardaga, þetta er fight! Við erum að fara að slást og ég er bara að fara að rústa honum. Ég gleymdi því smá seinast.“

Bjarki er orðinn 24 ára gamall og veit hvað hann þarf að gera til að komast lengra. „Ég þarf að vinna þennan bardaga, helst klára hann og keppa aftur sem fyrst, helst í desember. Ég þarf að fá sem flesta bardaga og svo reyna að komast í Bellator eða Cage Warriors. Bara eitthvað stærra.“

Fyrir þennan bardaga hefur Bjarki tekið góðar æfingabúðir í Mjölni heima á Íslandi en dvaldi líka á Írlandi í SBG Dublin æfingabúðunum. „Það var mjög næs, ég var úti í viku en Gunni [Nelson] og Halldór Logi [Valsson] voru lengur. Þetta var allt mjög þægilegt, ég fékk bara að gista hjá James Gallagher [Bellator bardagamaður] og fékk geggjaðar æfingar með geggjuðum æfingafélögum.“

Bjarki hefur nokkrum sinnum farið til SBG í Dublin við æfingar. Þar hefur hann meðal annars æft með Makwan Amirkhani sem berst í fjaðurvigt UFC. „Ég æfði aðeins með Makwan núna en æfði meira með honum síðast þegar ég var úti. Maður var oft að bera sig saman við þessa fightera sem eru að berjast í UFC en ég geri minna af því í dag. Þegar maður var fyrst að æfa með Gunna og svo Conor [McGregor] og Paddy [Holohan] var maður mikið að pæla í hvernig manni var að ganga gegn þeim sem voru í UFC en pæli ekki eins mikið í því núna. Það kemur samt alveg fyrir að maður hugsi að það sé ekki mikill munur á manni og þeim sem er í fremstu röð. Ég veit samt alveg að ég á mikið eftir ólært, finn að ég get alltaf orðið betri og betri.“

Mynd: Sigurður Jóhann Helgason.

Á þessu ári hefur Bjarki einbeitt sér helst að glímunni. „Ég hef mest bætt mig í glímunni síðan ég barðist síðast. Ég er búinn að vera að glíma mikið og alveg mikið í gallanum. Fékk brúna beltið sem kom mér mikið á óvart. Núna þegar campið byrjaði fór ég meira að hugsa um boxið.“

Þetta verður 48. bardagakvöld Cage bardagasamtakanna í Finnlandi og er þetta með stærstu bardagasamtökum á Norðurlöndum. Bardagakvöldinu verður streymt í beinni á Fite.TV fyrir 9,99 dollara og berst Bjarki um 15 leytið á íslenskum tíma. Bjarki er staðráðinn í að vinna og ætlar að skilja allt eftir í búrinu.

„Ég sé mig vinna á marga vegu, sé guillotine upp við búrið, ground and pound í gólfinu, headkick, en oftast er ég að hugsa um flying knee. Er búinn að vera að æfa mig í því, finn það lenda. Sé líka fyrir mér að ég vinni á stigum og ég klára þetta bara ef það kemur. Segjum bara að ég vinni eftir flying knee.“

Pétur Marinó Jónsson
Pétur Marinó Jónssonhttps://www.mmafrettir.is
Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Viaplay
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

- Advertisment -

Most Popular