spot_img
Sunday, December 1, 2024
Minigarðurinnspot_imgspot_imgspot_img
HomeForsíðaBjarki Thor: Yndislegt að þessi kafli sé búinn

Bjarki Thor: Yndislegt að þessi kafli sé búinn

Mynd: Rúnar ‘Hroði’ Geirmundsson.

Bjarki Thor sigraði Alan Procter í gærkvöldi með tæknilegu rothöggi í 2. lotu. Fyrri bardagi þeirra endaði með umdeildum hætti en í þetta sinn var enginn vafi á því hver sigurvegarinn væri.

Bjarki feginn að geta ýtt þessum bardaga frá sér en fyrri bardaginn fór ekki eins og best var á kosið. Er þeir mættust í desember fékk Bjarki ólöglegt hnéspark með þeim afleiðingum að hann rotaðist. Procter var dæmdur úr leik en þannig vildi Bjarki Thor ekki sigra bardaga.

Bardaginn var nokkuð einhliða í gær Bjarka í vil og náði hann að taka Procter niður nánast að vild. Procter var þó hreyfanlegur af bakinu og ógnaði með olnbogum af bakinu.

„Þetta var erfiður bardagi. Við komum báðir vel undirbúnir og ég fann það að hann ætlaði að gefa allt í þetta. Ég var nokkuð viss fyrir bardagann um það að glíman mín myndi vera sterkasta vopnið á móti honum og þess vegna sótti ég fast í að ná taki á honum og glíma. Það reyndist rétt og á endanum þá var það í gólfinu sem bardaginn vannst,” segir Mjölnismaðurinn Bjarki Thor.

Aðspurður hvort Bjarki sé feginn að þessum bardaga sé lokið svarar hann játandi. „Djöfull er ég feginn! Er búinn að vera með þetta í hausnum mínum ógeðslega lengi. Yndislegt að þessi kafli sé búinn og sá næsti taki við.“

„Ég er ótrúlega glaður. Það vó þungt á mér að koma þessum bardaga út úr systeminu. Þó svo að mér hafi verið dæmdur sigur í seinasta bardaga þá var mér mikið í mun að klára þetta á mínum verðleikum. Og ég tel mig hafa gert það.”

Mynd: Rúnar ‘Hroði’ Geirmundsson.

Í 2. lotu gerði dómarinn hlé á bardaganum þar sem Procter kvartaði yfir höggi í klofið. Við fyrstu sýn virtist hnésparkið frá Bjarka hitta í magann á Procter og tók hann sér nægan tíma til að jafna sig. En fór höggið í klofið?

„Mig minnir að ég hafi heyrt í punghlýfinni. Hann tók sér sinn tíma að jafna sig og ég varð svolítið stressaður þá. Mér fannst hann einmitt vera að brotna þegar hann tók sér þessa pásu. Ég hugsaði með mér að þetta yrði kannski stoppað og ég dæmdur úr leik. Alan Procter og Pálsson 3, ég gat ekki hugsað mér það,“ segir Bjarki og hlær.

Mynd: Sóllilja Baltasardóttir.

Eins og við greindum frá fyrir bardagann ætlaði Bjarki Thor að ganga í búrið undir laginu Fjöllin hafa vakað með Egó. Þegar á hólminn var komið heyrðist ekkert í Egó heldur í Queen með lagið It’s a kind of Magic.

„Það var f**king pirrandi! Ég hef aldrei fengið lagið mitt sem ég bið um á ferlinum. Alltaf eitthvað klúður með lagið. Þetta var svo pirrandi, svo mikið niðurpepp, you got one job! Þetta er bara ömurlegt en það verður bara næst!“

Mynd: Rúnar ‘Hroði’ Geirmundsson.

Það gekk ýmislegt á eftir síðasta bardaga á samfélagsmiðlum og í aðdraganda bardagans í þetta sinn. Procter birti ýmsar skrautlegar myndir á vegg Bjarka Thors á Facebook og lýsti því yfir að hann ætlaði sér að bjóða sig fram til forseta Íslands.

Það voru þó engir slæmir straumar á milli þeirra eftir bardagann og féllust þeir í faðma að bardaganum loknum.

„Við töluðum ágætlega saman eftir bardagann. Þetta er vænn drengur, svona þegar hann er ekki að kýla mann í andlitið, og þó svo að einhver orð hafi fallið í aðdraganda bardagans þá er bara kærleikur okkar á milli í dag. Þetta er íþrótt og þó svo að stundum sé skrípaleikur í aðdraganda bardaga þá bera bardagamenn ávalt virðingu hvor fyrir öðrum þegar bardaga lýkur. Verð samt að fá að segja að mér fannst trashtalk-ið og þessar myndir sem hann var að setja saman og dreifa á netinu alveg fáránlega fyndnar. Hann á alveg framtíð fyrir sér sem uppistandari þegar bardagaferlinum lýkur,” segir Bjarki Thor.

Mynd: Rúnar ‘Hroði’ Geirmundsson.

Um 50 Íslendingar voru í höllinni og hvöttu Bjarka gríðarlega vel. Hávaðinn var mikill í þeim og átti Bjarki erfitt með að heyra í horninu sínu í bardaganum.

„Ég heyrði ekki í hugsunum mínum fyrir Íslendingunum. Ég heyrði ekki í horninu mínu, ég var að reyna að hlusta á fyrirmæli Jóns, Magga og Hrólfs. Ég stoppaði í smá tíma til að reyna að færa eyrað nær horninu og fókusa á þá. Þetta var sturlað.“

En hvað er svo næst hjá Bjarka Thor? „Næsta mál á dagskrá hjá mér er smá frí með kærustunni minni sem er í námi á Spáni. Ætla að taka nokkra daga í sólinni með henni og njóta lífsins. Svo er það bara aftur á teikniborðið, finna næsta bardaga og keyra allt í gang. Ég stefni hátt og finn að ég er kominn á rétta sporið.“

Að lokum vill Bjarki þakka styrktaraðilunum sínum: Gló, Prikið, Macland, RVK Hair, Hafið Fiskverslun, 24 Iceland, The Drunk Rabbit, Kraftafl, Hairbond, WOW Air, Vegamót, Malt, Baklandi og auðvitað Mjölni.

Mynd: Sóllilja Baltasardóttir.
Mynd: Rúnar ‘Hroði’ Geirmundsson.
Mynd: Rúnar ‘Hroði’ Geirmundsson.
spot_img
spot_img
spot_img
Pétur Marinó Jónsson
Pétur Marinó Jónssonhttps://www.mmafrettir.is
Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Viaplay
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

spot_img
spot_img

Most Popular