Mjölnismaðurinn Björn Lúkas Haraldsson mun keppa fyrir hönd Íslands á Heimsmeistaramótinu í MMA nú í nóvember. Mótið fer fram í Barein og er Björn Lúkas reiðubúinn í langt ferðalag með það að markmiði að taka gullið heim.
Birni Lúkasi er boðið á mótið af MMA sambandi Barein og Ólympíuráði landsins en mótið hefst á sérstakri setningarathöfn sunnudaginn 12. nóvember áður en keppni hefst daginn eftir. Björn hefur verið að undirbúa sig fyrir mótið í nokkrar vikur og gengið vel.
„Æfingarnar hafa verið mjög góðar. Það eru allir til í að hjálpa mér fyrir þetta mót. Ég er búinn að hitta marga og æfa aukalega það sem þeir eru góðir í og geta kennt mér,“ segir Björn Lúkas.
Ferðalagið til Barein verður tæpur sólarhringur sem byrjar á laugardagsmorgni og endar á aðfaranótt sunnudags í Barein. „Þetta verður laaaaangt ferðalag! En ég verð með góðan félagsskap þannig að það er allt í góðu,“ segir Björn en Hrólfur Ólafsson mun ferðast með Birni og verður hornamaður hans á mótinu.
Þetta er stórt tækifæri fyrir Björn en hann hefur sigrað báða bardaga sína leikandi létt til þessa og klárað þá í 1. lotu. Björn var því eðlilega mjög spenntur þegar hann fékk boð um að keppa á sjálfu Heimsmeistaramóti áhugamanna.
„Auðvitað tekur maður svona tækifæri þegar það er verið að bjóða manni! Það var svo stutt síðan að ég barðist þegar mér var boðið að keppa og ég átti svo góða frammistöðu þá. Ég var enn svo fullur af orku og langaði strax aftur að keppa.“
„Þetta verður auðvitað erfitt. Fimm bardagar á fimm dögum en þetta er alveg geranlegt. Gott líka að hafa æft með fólki sem hefur gert þetta líka og farið alla leið eins og Sunna, Bjarki Þór og Egill. Það veitir manni auka innblástur.“
Bjarni Kristjánsson er eini Íslendingurinn sem keppt hefur á HM í MMA en Ísland hefur tvisvar sent keppendur á EM. Árið 2015 tóku þau Sunna Rannveig Davíðsdóttir og Bjarki Þór Pálsson gull í sínum flokkum og ári síðar gerði Egill Øydvin Hjördísarson slíkt hið sama.
Barein er talsvert frábrugnara Íslandi, bæði varðandi veðurfar og einnig hefðir og siði. Sjálfur hefur Björn lítið kynnt sér landið en fengið nokkur góð ráð. „Hún amma mín hringdi í mig um daginn og var að vara mig við að kynna mér þetta. Ég veit voða lítið þannig séð, ég veit að ég má ekki kyssa eða halda í höndina á Hrólfi þarna úti þannig að ég tek bara þá útrás á honum á æfingum,“ segir Björn Lúkas og hlær.
Björn má eiga von á því að keppa fimm bardaga á fimm dögum fari hann alla leið í úrslit. Björn Lúkas keppir í millivigt og eru 32 keppendur skráðir og hreinn útsláttur sem gildir.
Björn hefur mikla keppnisreynslu úr júdó og taekwondo og er þetta því eilítið eins og í gamla daga þar sem hann keppti marga bardaga á stuttum tíma. „Mér finnst eins og að öll þau mót hafi verið að undirbúa mig fyrir þetta augnablik. Þetta umhverfi er nákvæmlega það sem ég er búinn að gera svo lengi. Margir vellir, margir bardagar og fullt af fólki.“
Það er bara eitt markmið hjá Birni Lúkasi á mótinu og það er að taka gullið. „Markmiðið er auðvitað að taka þetta alla leið og vinna þetta! Ég er kominn til að sýna heiminum hvað ég get og hvað í mér býr.“