Dana White, forseti UFC, var í viðtali á ESPN í gær. Í viðtalinu kom hann inn á mál Jon Jones, UFC 202 og fleira.
Jon Jones féll á lyfjaprófi í aðdraganda UFC 200 en svo kallaðir estrógen hindrar fundust í lyfjaprófi hans. Jon Jones sendi frá sér Instagram myndband á dögunum þar sem hann var bjartsýnn á að snúa aftur í búrið fljótlega. Jones eyddi síðar út myndbandinu en svo gæti farið að Jones sleppi með skrekkinn.
„Hlutirnir hafa breyst og þetta lítur betur út fyrir hann núna,“ sagði White í viðtalinu.
„Það fundust efni í honum sem menn taka eftir steranotkun en það er ekki endilega tilfellið. Við þurfum að bíða og sjá hvernig USADA og íþróttasamband Nevada taka á málinu. Þessi gæji er með 12 aukalíf, þetta er ótrúlegt. Hlutirnir líta betur út fyrir hann.“
Umboðsmaður Jon Jones, Malki Kawa, hefur áður fengið bann skjólstæðing síns minnkað og er spurning hvort það sama verði upp á teningnum að þessu sinni. Yoel Romero féll á óvæntu lyfjaprófi og átti yfir höfði sér tveggja ára bann. Kawa og Romero gátu hins vegar sýnt fram á að ólöglega efnið hefði fundist í fæðubótarefni sem Romero innbyrti. Getur verið að Jones sleppi við langt bann og berjast fljótlega aftur?
Í viðtalinu (sem sjá má hér að neðan) talar Dana White einnig um UFC 202 sem fram fer á laugardaginn.
https://www.youtube.com/watch?v=TmW8TW4EYTg