0

Egill: Ömurlegt að fá ekki að taka í einhvern

Mynd: Kjartan Páll Sæmundsson.

Mynd: Kjartan Páll Sæmundsson.

Egill Øydvin Hjördísarson átti að keppa á Shinobi War 7 bardagakvöldinu í Liverpool um síðustu helgi. Aðeins nokkrum klukkustundum fyrir bardagann komst hann hins vegar að því að andstæðingurinn myndi ekki mæta. Við heyrðum í Agli og fengum að vita nánar um þetta leiðinlega atvik.

Egill hafði æft í nokkrar vikur fyrir bardagann, tekið sér frí úr vinnunni, bókað hótel, flogið til Liverpool, náð vigt deginum áður en fékk svo ekki að berjast. „Þegar ég var í læknisskoðun tveimur til þremur tímum fyrir bardagann fékk ég að vita að andstæðingurinn myndi ekki mæta. Mér varð strax heitt í hamsi og ætlaði ekki að trúa því að einhver myndi gera svona,“ segir Egill um atvikið.

Andstæðingurinn, Ashley Gibson, kvaðst ekki vera með far og gæti því ekki komist. Mótshaldarar buðust til að borga leigubílinn hans en Gibson lét ekkert í sér heyra eftir það. „Ég hef ekkert heyrt frá þessum gæja en frétti að hann hefði bókað annan bardaga eftir tvær vikur. Ef ég myndi hitta hann í dag myndi ég nú bara halda þessu á fagmannlegu nótunum en biðja hann um að vera ekki að taka bardaga ef hann þorir ekki að berjast.“

Sjá einnig: Jón Viðar – Andstæðingur Egils sagðist ekki vera með far

Shinobi bardagasamtökin buðust til þess að borga Agli eitthvað fyrir vesenið en Egill afþakkaði. „Ég var bara pirraður og sagði þeim að þetta snérist ekkert um peninga. Ég var búinn að leggja fullt á mig og langaði bara að keppa.“

Bardaginn átti upphaflega að fara fram í léttþungavigt (93 kg) en Gibson óskaði eftir að bardaginn yrði í 87 kg hentivigt (e. catchweight). „Hann bað mig um að hafa bardagann í 87 kg annars væri bardaginn off. Ég hafði mikið fyrir því að fara í 87 kg og svo mætir hann ekki.“

Egill getur þó tekið eitthvað jákvætt úr allri þessari reynslu. „Ég gekk í genum allar tilfinningarnar og cuttið og það er allt viss reynsla fyrir sig. Það er bara ömurlegt að fá ekki að taka í einhvern. Mig langar að keppa aftur sem fyrst en Shinobi lofuðu mér bardaga á næsta kvöldi hjá þeim þann 30. júlí. Ég er líka að skoða hvort það sé eitthvað annað á borðinu.“

Egill vonsvikinn.

Egill vonsvikinn.

Pétur Marinó Jónsson

Pétur Marinó Jónsson

Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Viaplay

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.